Ástæðan felst m.a. í verndun réttlætisreglunnar "fyrstur kemur fyrstur fær". Orðasambandið "fyrstur kemur" þýðir að sá aðili sem fyrstur skráir lénið í skráningarkerfi ISNIC fær það. Orðasambandið þýðir hins vegar ekki að sá sem fyrstur sendir okkur bréf og biður um lénið, eða að sá sem kemur fyrstur á staðinn og óskar eftir því munnlega, fái það.
Ástæða þessa er sú að ekki er hægt að sækja um lén hjá ISNIC í venjulegum skilningi, heldur fá viðskiptamenn aðgang að vefþjónustu ISNIC hvar þeir sjálfir skrá lénið á eigin ábyrgð. Þess vegna er ekki heldur rétt að tala um að "ISNIC úthluti lénum", né heldur að "sækja um lén" í venjulegum skilningi því það er ekkert "umsóknareyðublað" eða "umsóknarform" til.
Allir standa jafnt að vígi við skráningu .is-léna og upplýsingar um nýlega afskráð lén myndu fyrr eða síðar setja þá stöðu í uppnám. Eina leiðin til að athuga hvort eitthvert .is-lén er til, eða óskráð, er að nota "Who-is" leitargluggann efst til hægri hér á vef ISNIC og víðar.