Dec 31, 2010

Dec 31, 2010

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla

ISNIC óskar viðskiptamönnum nær og fjær gleðilegs árs og þakkar fyrir það liðna.

Ýmsar mikilvægar breytingar voru gerðar á þjónustunni á árinu 2010 - sumar sýnilegar notendum en aðrar kerfislegar, en allar lúta þær að því að auka gæði og öryggi þjónustunnar. ISNIC flutti starfsemina á árinu úr Tæknigarði við Dunhaga, þar sem landslénið varð til fyrir tæpum 25 árum er fyrsta .is lénið, hi.is, var skráð, í Höfðaturninn við Borgartún. Hér er aðstaðan öll til fyrirmyndar og móttaka viðskiptavina eins og best verður á kosið.

.is-lénið hefur ár eftir ár mælst vera á meðal öruggustu og trúverðugustu léna heimsins og þrátt fyrir talsverða fjölgun, sérstaklega undanfarin þrjú ár, hefur tekist að viðhalda háu gæða- og þjónustustigi. Slíkt er ekki sjálfgefið.

Árið 2010 er metár í sögu ISNIC, aldrei áður hefur .is-lénum fjölgað eins mikið á einu ári. Skráð voru 7.157 ný lén á árinu og 2930 lén voru afskráð. Nettófjölgun léna var því um 4200 lén, sem gerir um 15% aukningu milli ára - heldur meira en 2009, sem einnig var metár hjá ISNIC. Niðurfelling stofngjaldsins 1. desember 2008, sem lækkaði skráningargjald lénsins um 36%, ásamt ýmsum öðrum breytingum sem auðvelda fólki að skrá lén sjálft, eru veigamestu ástæðurnar fyrir ágætri fjölgun léna undanfarin tvö ár í annars erfiðu árferði.

Stofnun léns er gjarnan upphafspunktur mikilla áforma hjá stofnanda þess. Áforma sem kunna að verða að blómstrandi starfsemi fyrr en varir. Það er von ISNIC að sem flest af þeim rúmlega sjö þúsunum lénum, sem stofnuð voru á árinu, muni þegar fram í sækir uppfylla væntingar rétthafanna landi og þjóð til gagns. Upplýsingar um fjölgun og eyðingu léna má sjá undir liðnum "Lén/Tölulegar upplýsingar" hér á vinstri hönd.

Gleðilegt ár

Starfsfólk og stjórn ISNIC

Leave a message and we will reply as soon as we can.
1+3:

Message received