Skrifstofa ISNIC opnar næst þriðjudaginn 10. apríl, en engin lén renna út (lokast sjálfkrafa) meðan á páskafríi starfsmanna stendur. Bakvakt ISNIC stendur vaktina þangað til sem endranær um helgar og utan skrifstofutíma.
Fjöldi nýskráðra léna í nýliðnum mánuði er 834 lén móti 738 lénum í fyrra, sem gerir um 13% aukningu milli ára. Rúmlega 12% verðlækkun á árgjaldi .is-léna í nóvember sl. virðist því skila sér nokkurn veginn í samsvarandi aukningu nýskráninga - eins og gert hafði verið ráð fyrir. Sama gilti fyrir fyrstu tvo mánuði ársins og því er fyrsti ársfjórðungur 2012 samkvæmt áætlun sem er ánægjulegt.
Á móti nýskráningum léna koma afskráningar en þeim hefur ekki fjölgað hlutfallslega umfram fjölgun léna á fyrsta ársfjórðungi, sem kann að benda til aukinnar bjartsýni landsmanna þar sem skráning léns felur oft í sér áform um aukin umsvif á einhverju sviði.
ISNIC óskar viðskiptamönnum ánægjulegra frídaga.
/jpj