ISNIC hefur undanfarnar vikur birt nöfn léna sem ISNIC kerfið hefur eytt á Twittersíðu sinni með það fyrir augum að áhugasamir geti keypt (skráð) þau fyrr en annars.
Í gamla daga sendi ISNIC þeim sem þess óskuðu lista yfir öll afskráð lén, en því var hætt vegna óánægju sumra rétthafa sem höfðu misst lénin sín af vangá. Þetta var í þá daga og Netið nýtt af nálinni og sumir viðskiptamenn ekki alveg með starfshætti þess á hreinu. Nú er öldin önnur, en samt sem áður gildir sama gamla 60 daga reglan um að ISNIC bíði í fulla tvo mánuði eftir að léni hefur verið eytt áður en eyða má lénum sem ekki hafa verið endurnýjuð. Þá eru, vel að merkja, 105 dagar liðnir frá því að reikningur vegna endurnýjunar árgjaldsins var gefinn út!
Fjöldi nýskráðra léna árið 2014 var 9.773 og 5.356 lénum var eytt. Reiknaður kostnaður ISNIC af því að bíða í 60-105 daga eftir að geta endurselt lén sem ekki var endurnýjað, og hefur verið eytt, er því mikill. Til athugunar er að stytta tímann til jafns við það sem gerist og gengur hjá öðrum Registrýjum (höfuðlénum).
ISNIC mun halda áfram að birta nöfn eyddra léna á Twitter, enda aðeins fengið jákvæð viðbrögð hingð til, sérstaklega frá svokölluðum lénakaupmönnum – eðlilega. Ekki er þó á vísan að róa, enda eru Twitter birtingar þessar óreglulegar og ekki tæmandi.