May 25, 2016

May 25, 2016

Gott lén eða slæmt

Starfsmenn ISNIC veita tæknilega aðstoð við skráningu léna, ef um hana er beðið, en síður aðstoð við að fá hugmynd að heiti léns. Við skráningu léns reynir fyrst og fremst á hugmyndaauðgi og málvitund höfundarins. Sérstaklega á þetta við um lén sem nota á við markaðssetningu á tiltekinni vöru eða þjónustu.

Lengi hefur verið álitið að lén væru betri eftir því sem þau væru styttri og að löng lén væru í eðli sínu síðri en stutt. Þessu kann þó að vera öðruvísi farið, segir í fræðum leitarvélasérfræðinga, sem vilja að heiti lénsins lýsi vörunni/þjónustunni, því þannig lén skori hærra í leitarniðurstöðum. Hér eru nokkur atriði, sem vert er að hafa í huga varðandi skráningu léna:

  1. Stutt eins orðs lén eru almennt séð betri (auðveldari í notkun) og verðmætari en löng/samsett lén og því styttri sem þau eru, þeim mun þægilegri eru þau fyrir netföng (tölvupóst). Vegna smæðar .is-svæðisins er enn óskráð gott úrval af 3-5 stafa lénaheitum – sérstaklega enskum og á öðrum tungum en íslensku auðvitað. Rúmlega 42.000 „íslensk“ lén eru skráð en aðeins um 15.000 „erlend“. 
  2. Auðlesanleg lén eru almennt séð betri en skammstafanir – þau er auðveldara að muna.
  3. Lén sem innihalda eingöngu enska lágstafi eru alment séð betri en lén með séríslenskum stöfum, tölustöfum og bandstriki en sú tíska, að skipta samsettum orðum upp með bandstriki, virðist á undanhaldi. Heiti sem innihalda tölur eru þó lyklaborðsvæn og tölulén eru vinsæl í Kína svo dæmi sé tekið. Innlend dæmi um vinsæl tölulén eru t.d. 1818.is og 1819.is.
  4. Lén með séríslenskum stöfum geta verið erfið, en þó nauðsynleg sem 'fylgilén' fyrir ýmiskonar kynningarefni á vefsíðum, prentmiðlum, auglýsingaskiltum, sendibílum, borðum, treyjum, fánum o.þh. Hins vegar henta íslensku lénin síður fyrir netföng af þeirri einföldu ástæðu að þau er ekki að finna á lyklaborðum erlendis. Á hinn bóginn geta séríslensku stafirnir verið ómissandi og frægt dæmi um óheppilegt lén með enskum lágstöfum er 'suzukibilar.is'. Þarna myndi hvorutveggja bandstrik og séríslenskur stafur henta: susuki-bílar.is. Dæmi um frægt og fallegt íslenskt lén, sem sjá má víða í umhverfinu (sérstaklega á íþróttaleikum) er lénið 'tæki.is'. Íslensk fyrirtæki og einstaklingar ættu auðvitað ávallt að auglýsa íslenska útgáfu af lénum sínum í fjölmiðlum til að forðast klúður eins og 'malraektarsjodur.is' í stað 'málræktarsjóður.is' eða 'fegurstaordid.is' sem auðvitað á að vera 'fegurstaorðið.is'.
  5. Lén til endursölu. Lénakaupmenn eru þeir sem skrá lén til endursölu eingöngu. Þjónustan felst í því að skrá „snjöll lén“ og bjóða þau, etv. ásamt hugmynd um notkun (concepti), til markaðssetningar. Lénakaupmenn svokallaðir eru lénamarkaðinum mikilvægir og ekkert í reglum ISNIC bannar endursölu á lénum. Hins vegar gildir gullna reglan um að skrá beri lén í góðri trú og að brjóta ekki á betri rétti þriðja aðila til heitisins, t.d. hvað skráð vörumerki varðar.
  6. „Bestu“ lénin eru auðvitað þau sem allir þekkja og nota. Eitt þeirra braut flestar ofangreindar reglur á sínum tíma. Lénið „google.is“ þótti allt í senn óskiljanlegt, erfitt að bera fram og erfitt að skrifa rétt þegar það var fyrst skráð í maí 2002. Þegar allt kemur til alls er það þjónustan og varan á bak við lénið sem blífur.
Leave a message and we will reply as soon as we can.
1+3:

Message received