May 31, 2017

May 31, 2017

Missa lén óforvandis

Fyrir kemur (því miður) að fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar missa lén sín vegna þess að láðst hefur að endurnýja áskrift þess. Nú síðast tapaði þekkt lögmannsþjónusta 3ja stafa léni og nýlega tapaði einnig stór opinber stofnun mjög þekktu 3ja stafa léni.

ISNIC reynir hvað það getur til að koma upplýsingum um eindaga léns á framfæri við rétthafann, tengilið hans og skráðan greiðanda, en má sín lítils ef skráning netfangs og heimilisfangs er röng. ISNIC sendir öllum lénum (nú 62.500) árlega tölvupóst um að yfirfara skráningu lénsins og birtir kröfur (greiðsluseðla) í netbanka ókeypis. Sé hann greiddur opnast lénið sjálfkrafa innan stundar. Eftir að lén rennur út (lokast) líða 60 dagar þar til því er sjálfkrafa eytt og verður þá lénið laust til skráningar fyrir hvern sem er – enda gildir þá aðalreglan: Fyrstur kemur fyrstur fær. Þessi tímafrestur er á ensku kallaður „grace period“ og er lengri hjá ISNIC en nokkru öðru lénaskráningarfyrirtæki svo okkur sé kunnugt um.

ISNIC bendir á að stutt snjöll lén eru gjarnan vöktuð af áhugasömum kaupendum, sem með hugbúnaði sínum geta skráð lén sem losna jafnharðan. Við þessu getur ISNIC ekki brugðist öðruvísi en að takmarka sjálfvirkt hversu margar uppflettingar má gera um lén á vef ISNIC, sem er gert.

ISNIC hvetur rétthafa til þess að skrá lén sín í svokallaða „sjálfvirka endurnýjun“ og minnir á að rétthafi léns er einn ábyrgur fyrir því að uppfæra skráningu lénsins þegar breytingar verða á netföngum og heimilisfangi. Ekki dugar að senda netpóst á ISNIC með ósk um að breyta skráningu þess hjá ISNIC. Þá hefur ISNIC nýlega opnað fyrir endurnýjun léns til allt að fimm ára í senn. 

Ekkert er bagalegra í augum starfsmanna ISNIC en þegar rétthafi léns missir það óforvarandis (þ.e. af vangá, í ógoti, eða að óvörum).

 

 

 

Leave a message and we will reply as soon as we can.
1+3:

Message received