Á árinu 2017 voru nýskráð 10.418 lén undir landshöfuðléninu .is, eða heldur færri en árið 2016 er 10.781 ný lén voru skráð, sem var metfjöldi. Fjöldi afskráðra (eyddra) léna 2017 reyndist 6.853 móti 6.197 eyddum lénum árið 2016. Nettófjölgun .is-léna árið 2017 var því 3.565 lén móti 4.584 lénum 2016. Virk lén í árslok 2017 voru 64.125.
53% rétthafa .is-léna búa í Reykjavik og 1/5 hluti býr í póstnúmerunum 101 og 105. 11% búa í Kópavogi, 7% í Hafnarfirði, 4% á Akureyri og álíka margir í Garðabæ. Um 3% búa í Reykjanesbæ. Heldur færri lén eru skráð á hvern mann á landsbygðinni og því auglýsti ISNIC sérstaklega í landsmálablöðunum á árinu 2017.
ISNIC er útflutningsfyrirtæki, þótt í litlum mæli sé. Þannig búa um 73% rétthafa .is-léna á Íslandi, sem er svipað hlutfall og fyrir ári síðan. Um 8% búa í Bandaríkjunum, 3% í Noregi, 3% í Þýskalandi, 2% í Bretlandi og 1% í Svíþjóð. Tíu prósentin sem eftir standa dreifast á um 100 lönd!
Lénamarkaðurinn, jafnt innalands sem erlendis, er kominn í jafnvægi víðast hvar í heiminum og vex nú meira í takt við aðra efnahagsstarfsemi. Fyrir fáum árum var árlegur vöxtur léna (og þar með internetsins) um og yfir 15% á ári.
Heimildir: Tölulegar upplýsingar ISNIC: https://www.isnic.is/is/tolur og tölfræðisafn CENTR.org.