Apr 16, 2018

Apr 16, 2018

GDPR og Whois þjónusta ISNIC

[eftirskrift: neðangr. breytingar tóku gildi 23.4.]

Í stuttu máli verða eftirfarandi breytingarnar gerðar á birtingu upplýsinga úr rétthafaskrá ISNIC og taka þær gildi fyrir gildistöku GDPR þann 25. maí.

Í tilviki einstaklinga (tengiliður merktur P): Nafn, heimilisfang og símanúmer tengiliðs verður sjálfkrafa falið. NIC-auðkenni, netfang, land og aðrar upplýsingar verða áfram birtar.

Í tilviki fyrirtækja, stofnana og annarra aðila (tengiliður merktur R): Engar breytingar.

ISNIC hefur ákveðið að gera lágmarksbreytingar á birtingu persónugreinanlegra upplýsinga í rétthafaskrá ISNIC (Whois) þannig að hætt verður að birta nafn og heimilisfang einstaklinga. ISNIC telur sig þar með hafa uppfyllt ákvæði nýrra laga Evrópusambandsins um persónuvernd (GDPR) utan þess að netföng einstaklinga verða birt áfram. Þeir einstaklingar sem ekki vilja birta netfang sitt, eins og það er skráð hjá ISNIC, verða því að útvega sér annað (ópersónugreinanlegt) netfang til notkunnar í rétthafaskrá ISNIC, skrá sig inn á sitt svæði og breyta því þar.

Athugið að rétthafar (t.d. einstaklingar með rekstur) sem engu að síður vilja birta nafn og heimilisfang eftir breytinguna þurfa að skrá sig inn á sitt svæði á isnic.is (undir sínu NIC-auðkenni) fara í "Mínar stillingar" og velja að birta nafn sitt og heimilisfang.

ISNIC, eins og fjölmargir aðrir, þ.á.m. ICANN.org, gagnrýnir EU og GDPR reglur þess harðlega, þ.e.a.s. gildi þær  um birtingu nafns, heimilisfangs og netfangs tengiliða í rétthafaskrá (Whois) léna. Gagnrýnin lítur að því að þing EU virðist meta þarfir almennings og fyrirtækja fyrir upplýsingar um rétthafa, og aðra tengiliði léna (gagnsæi), minna en þörf einstaklinga fyrir að fela upplýsingar um sjálfa sig.

GDPR getur því leitt til minna gagnsæis á netinu, þvert á það sem kallað hefur verið eftir. Í ljósi þess að nauðsynlegt getur verið fyrir fólk og fyrirtæki (eins og t.d. internetþjónustur) sem og fyrir ýmsar stofnanir hins opinbera, að ná með einföldum hætti sambandi við rétthafa léns, hefur ISNIC ákveðið, upp á sitt eindæmi, að birta hér eftir sem hingað til uppgefið netfang tengiliðs og nafn landsins sem hann býr í.

Reykjavík, 16. apríl 2018.

Jens Pétur Jensen, framkv.st.

 

Leave a message and we will reply as soon as we can.
1+3:

Message received