Allt of mörg dæmi eru um léna-auglýsingar sem innihalda lénsheiti, sem augljóslega ætti að innihalda séríslenskan staf eða stafi, en gerir það ekki. Slíkt ætti að heyra sögunni til, enda 15 ár síðan að ISNIC hóf að bjóða upp á séríslenska stafi í lénsheitum. Sé IDN-lénið skráð á sömu kennitölu og stofnlénið (lén með enskum lágstöfum eingöngu) reiknast sjálfkrafa ríflegur afsláttur af árgjaldinu, sem annars er kr. 6.293.-
Aðrar góðar og mikilvægar ástæður fyrir notkun IDN-léna eru; að hindra misskilning, og að hindra skráningu „veiðiléns“ (e. Phishing domain, eða Domain spoofing). Svokölluð veiðilén eru notuð til lokka (gabba) notendur inn á vef eða tölvupóst og hafa af þeim peninga með einum eða öðrum hætti. Dæmi um þekkt veiðilén eru lénin 'logregian.is' og 'landsbankl.is' sem glæpamenn skráðu til að hagnast á þeim. Tímafrekt og dýrt getur reynst að fá þannig lénum lokað og eytt. IDN-lénum er gjarnan varpað sjálfvirkt yfir á aðallénið (sett í áframsendingu) og þau henta síður fyrir tölvupóst – enda krefjast þau séríslensks lyklaborðs.