Apr 13, 2023

Apr 13, 2023

Nokkur heilræði við val á léni

ISNIC getur fá ráð veitt við val á léni, þó eru hér nokkur atriði til að hafa í huga. Aðeins höfundur lénsheitisins, oftast rétthafi þess, skilur til fulls hvers er vænst af léninu og hvað það þyrfti helst að „segja“. Eitt verðmætasta lén heims, 'google.com', er lénsheiti sem flestir áttu í erfiðleikum með að stafsetja – hvað þá skilja – þegar það kom fyrst fram fyrir rúmum 20 árum! Google kaus að byggja þjónustuna upp alfarið utan um heiti lénsins, en ekki öfugt.

1. Stutt og læsilegt lén, (ca. 4-7 stafir) en ekki endilega of stutt. 1-3 stafa lén eru ekki endilega bestu lénin, en lén með enskum lágstöfum eingöngu þóttu lengi bestu lénin. Eftir því sem lén með séríslenskum stöfum [svokölluð IDN-lén] hafa orðið vinsælli (dæmi 'tæki.is, þak.is') hefur möguleikunum á stuttum snjöllum lénum fjölgað til muna. Ávallt skyldi þó skrá enska gerð lénsins fyrst sem stofnlén. Fyrir þessu eru einkum tvær ástæður: a. Erlendir aðilar eru ekki með lyklaborð með íslensku letri. Og b. ISNIC veitir sjálfkrafa afslátt af árgjaldi IDN-léns, en aðeins ef það er skráð á sömu ísl. kennitölu og áður skráð stofnlén.

2. Lénið þarf helst að hljóma vel, virka hvetjandi [í tilviki markaðsléna] og vera þannig að auðvelt sé að muna það. Gott dæmi er 'facebook.is', en slæm dæmi eru 'isnic.is' og 'google.is', sem margir áttu lengi vel erfitt með að muna, skrifa eða skilja! Þá er gott er að nota orðabækur á ensku og íslensku við val á heiti léns. Annað gott ráð er að segja engum frá hugmynd að léni áður en það hefur verið skráð. Fyrir kemur reglulega að „einhver annar“ – oft nákominn – skrái lén, sem hefur verið að veltast um sem hugmynd í kollinum hjá hópi fólks.

3. Stofnlén eða grunnlén er "aðallén" starfseminnar. Undir það lén koma tímabundin eða varanleg markaðslén sem er ætlað að vísa til þjónustunnar sem er veitt og skráðra vörumerkja í eigu rétthafa lénsins. Til eru vörumerkjasérfræðingar (e. branding managers) sem vert er að leita til í þessum efnum. Munið að ekkert af þessu er meitlað í stein og að æfingin skapar meistarann. Fyrirtæki og stofnanir prófa sig áfram með nokkur lén og finna að endingu rétta stofnlénið og rétta léna-mengið. Mjög mikilvægt er að nafn fyrirtækis og stofnunar vinni saman. Best er ef nafn félagsins og stofnlénið sé eitt og sama heitið. Því er mikilvægt að skrá lénið áður, eða um leið og félagið/stofnunin er skráð hjá Fyrirtækjaskrá (rsk.is). Lénasölumenn vakta ýmiskonar opinberar skráningar í þeim tilgangi að skrá lén, annað hvort til endursölu eða til að nota sem veiðilén, en stundum til þess eins að afla auglýsinatekna hjá Google!

Gott lén er gullsígildi

kær kveðja .is
Leave a message and we will reply as soon as we can.
1+3:

Message received