Jan 2, 2024

Jan 2, 2024

Lénaárið gert upp

Árið 2023 voru 13.955 lén skráð, þar af 58% af innlendum aðilum og 42% af erlendum aðilum. Þá voru 10.233 lén afskráð, þar af 47% innlend og 53% erlend. Nettó-fjölgun léna á árinu var því 3.722 lén, 91% innlend og 9% erlend. Það gefur því augaleið að innlendum lénum fjölgar mun hraðar en erlendum, en mikill fjöldi erlendra afskráninga og lágt endurnýjunarhlutfall þeirra er helsta skýringin.

September var besti mánuðurinn í lénaskráningum, 1.297 lén stofnuð og 770 afmáð, s.s. fjölgun um 527 lén. Innlendar nýskráningar voru þar helsti drifkrafturinn, eða 87% af nettó-fjölguninni. Sem fyrr var desember slakasti mánuðurinn í lénaskráningum, sem stafar helst af mörgum afskráningum. Nettó-fjölgun léna í mánuðinum var aðeins 47 lén (+179 innlend, -132 erlend).

Árið 2023 var ár breytinga hjá ISNIC og tók þjónusta við viðskiptavini miklum framförum. Í febrúar tók ISNIC upp Aur greiðslulausnina, sem viðskiptavinir geta nú nýtt sér til þess að greiða árgjöld .is léna. Í byrjun júní gerðum við viðskiptavinum kleift að nýskrá mörg lén í einu og í lok sama mánaðar gerðum við endurnýjun margra léna í einu mögulega. Þá voru miklar breytingar gerðar á vefsíðu ISNIC, www.isnic.is, þ.á.m. útlitsbreytingar, sem og breytingar á innri vef isnic.is, með því markmiði að gera vefþjónustuna skýrari og notendavænni fyrir viðskiptavini. ISNIC réði TVIST auglýsingastofu til að hanna nýtt firmamerki fyrir .is og að fríska upp á liti og leturgerðir og hanna nýja forsíðu fyrir vef ISNIC

Við hjá ISNIC þökkum viðskiptavinum fyrir viðskiptin á liðnu ári, og hlökkum til að fara inn í nýtt ár með nýjum áskorunum.

Bestu kveðjur,
Þór Jensen
ISNIC

Leave a message and we will reply as soon as we can.
1+3:

Message received