Aug 5, 2008

Aug 5, 2008

Örugg endurnýjun með korti

Loksins er hægt að greiða fyrir .is lén með greiðslukorti. Einföld en örugg kortagátt ISNIC, sem opnaði 10. júlí, gerir fólki kleift að skrá lén og greiða með korti. Einnig er nú hægt að setja lénin í svonefnda örugga endurnýjun, sem minnkar líkurnar á því að lén lokist óvart vegna vangreiddra árgjalda.

Árgjald fyrir venjulegt lén er kr. 7.918 og kr. 792 fyrir IDN-lén sem inniheldur íslenska sérstafi. IDN lén, sem fylgir stofn-léni á sömu kennitölu, fær sjálfkrafa 90% afslátt af verðskrá. Sækja þarf um íslenska ritháttinn af léninu eins og þegar sótt er um venjulegt lén. Bæði lénin eru svo látin vísa á sama vefinn og þá skiptir ekki máli hvort lénið fólk skrifar inn í vafragluggann. Séríslensk lén gilda þó ekki fyrir tölvupóst.
Þess má geta að verðskrá ISNIC hefur ekki hækkað í átta ár og ekki stendur til að hækka verð á .is lénum svo lengi sem fjölgun léna stendur undir auknum rekstrarkostnaði, sem óhjákvæmilega fylgir auknum umsvifum. Fjöldi virkra .is léna er nú um 22.000 og hefur fjölgað um ca. 4.000 lén sl. 12 mánuði.

Einfallt skráningarferli .is-léna í 6 skrefum:

1. Veldu Tengiliðir - nýskráning, hér til vinstri, ef þú ert nýr notandi hjá ISNIC. Ef þú átt fyrir eitt eða fleiri lén, og manst ekki notendanafnið (NIC-auðkennið) þitt hjá ISNIC, skrifaðu þá lénið ásamt .is endingunni inn í Whois-leitargluggann efst til hægri. Upp kemur skráningarskírteini lénsins. Það inniheldur m.a. NIC-auðkennið, sem þú þarft til að geta innskráð þig.

2. Opnaðu tölvupóstinn frá ISNIC, smelltu á slóðina í póstinum og fylgdu leiðbeiningunum. Nú ertu innskráð(ur) í ISNIC kerfið og getur skráð lén. Allir sem skrá .is lén verða að skrá sig rétt í ISNIC-kerfinu. Þetta er lykilatriði varðandi traust og trúverðugleika .is léna. Óþekktir aðilar, sem vilja fara huldu höfði, mega ekki skrá .is lén.

3. Smelltu á Lén, nýskráning vinstra megin. Upp kemur gluggi þar sem hugmynd þín að léni er skrifuð inn ásamt .is endingunni. Vandaðu innsláttinn. Kerfið leitar nú hvort lénið er þegar til, ef ekki getur þú haldið áfram og skráð lénið.

4. Næst þarf að tilgreina vistunaraðila. Ef ekki er búið að ákveða með vistun fyrir lénið á þessu stigi þarf að velja Biðsvæði til að byrja með.

5. Næst þarf að skrifa inn kennitölu rétthafa lénsins ef hann er innlendur, en annars eingöngu nafn og heimilisfang.

6. Í lokin þarf að skrá inn greiðslukort og smella á greiða neðst á skjánum. Staðfesting ætti að berast frá ISNIC innan 60 mínútna. Eftir það er ráð að skoða skráningarskírteini nýja lénsins í Whois leitarglugganum. Þar má einnig skoða skráningar allra .is léna.

Gangi ykkur vel!

ISNIC.
Leave a message and we will reply as soon as we can.
1+3:

Message received