Reglur ISNIC um lénaskráningu.

Eftirfarandi reglur um skráningu léna og stjórnun höfuðlénsins .is gilda frá 29. apríl 2022.

1. Gildissvið og markmið. Skilgreiningar
2. Skráning léna
3. Úrræði vegna rangrar skráningar
4. Vistun léna
5. Greiðslur fyrir lén
6. Lokun og afskráning léna
7. Læsing léna
8. Úrskurðarnefnd léna
9. Ábyrgð ISNIC

1. Kafli - Gildissvið og markmið. Skilgreiningar.

1. gr.

Almennt.

Internet á Íslandi hf., hér eftir ISNIC, annast skráningu, rekstur og stjórnun landshöfuðlénsins .is (ccTLD) samkvæmt samningi við IANA og í samræmi við lög um íslensk landshöfuðlén, nr. 54/2021.

2. gr.

Gildissvið og markmið.

Reglur þessar gilda um alla skráningu og umsýslu .is-léna hjá ISNIC, sem og um umsýslu þeirra hjá vistunar- og skráningaraðilum og tengiliðum léna eftir því sem við á. Reglur þessar gilda framar viðskiptaskilmálum ISNIC að því leyti sem misræmis kann að gæta.

Markmið reglnanna er að tryggja öryggi og skilvirkni í nafnaþjónustu ISNIC við .is-landshöfuðlénið, ásamt því að tryggja gagnsæi, jafnræði og gæði við skráningu .is-léna.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglum þessum er merking hugtaka eftirfarandi:

  1. Afskráning léns: Það þegar lén er fjarlægt úr rétthafaskrá ISNIC og tilvísanir í gögn varðandi lénið eru fjarlægðar. Þegar lén er afskráð fellur réttur til lénsins niður og lénið verður laust til skráningar á ný.
  2. Biðsvæði: Svæði hjá ISNIC sem lén vistast á þegar ekki er tilgreindur annar vistunaraðili. Rétthafi léns sem vistað er á biðsvæði hefur engan tæknilegan aðgang að léninu.
  3. DNS: Nafnakerfi netsins (e. Domain Name System)
  4. Endurnýjun léns: Það þegar rétthafi léns endurnýjar réttindi og skyldur sem því fylgja, jafnan með greiðslu árgjalds, samkvæmt gildandi reglum á hverjum tíma.
  5. Greiðandi: Viðtakandi reikninga og tilkynninga vegna léngjalda.
  6. Lén: Auðkenni í nafnakerfi (e. DNS) netsins.
  7. Lokun léns: Þegar tilvísanir á lén eru fjarlægðar úr höfuðléni en lénið áfram skráð í rétthafaskrá. Við lokun verður lénið óvirkt m.t.t. allrar virkni á Netinu.
  8. Læsing léns: Það þegar lokað er fyrir möguleikann til að skipta um rétthafa léns. Læst lén heldur tæknilegri virkni að öðru leyti.
  9. Nafnaþjónn: Tölva sem vistar tæknilegar upplýsingar (DNS-upplýsingar) og svarar fyrirspurnum um lén.
  10. Rétthafaskrá: Gagnagrunnur sem ISNIC heldur þar sem fram koma skráningarupplýsingar um lén, þ.m.t. upplýsingar um rétthafa og tengiliði .is-léna og nafnaþjóna.
  11. Rétthafi: Einstaklingur eða lögaðili sem skráður er fyrir léni í rétthafaskrá.
  12. Skráningarskírteini léns: Vefskjal sem geymir skráningarupplýsingar léns eins og þær koma fram í rétthafaskrá.
  13. Tengiliður rétthafa: Aðili sem hefur umboð til að framkvæma allar breytingar á skráningu léns fyrir hönd rétthafa, þ.m.t. að breyta vistun léns, skipta um greiðanda, umskrá yfir á annan rétthafa og segja upp léni.
  14. Tæknilegur tengiliður: Aðili sem hefur umboð til að framkvæma breytingar á tæknilegri uppsetningu léns á nafnaþjónum.
  15. Umskráning léns: Það þegar skipt er um rétthafa léns. Við umskráningu færast öll réttindi og allar skyldur sem felast í skráningu léns yfir á annan rétthafa.
  16. Uppsögn léns: Rafræn afskráning léns sem eingöngu rétthafi og tengiliður rétthafa geta framkvæmt.
  17. Vistunaraðili: Rekstraraðili nafnaþjóna sem lén er sett upp á og sá aðili sem vistar DNS-upplýsingar um lén fyrir rétthafa.

2. Kafli - Skráning léna.

4. gr.

Skráning léna.

Skráning léna fer fram í þar til gerðu skráningarkerfi ISNIC, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um landshöfuðlén. Með skráningu léns, svo og endurnýjun hennar með greiðslu árgjalds, skuldbindur rétthafi sig til að fara að reglum ISNIC um lénaskráningu, eins og þær birtast á hverjum tíma, svo og viðskiptaskilmálum ISNIC og lögum um landshöfuðlén.

Skráningu léns skal fylgja greiðsla fyrsta árgjalds þess. Skrái annar aðili lén í skráningarkerfi ISNIC fyrir hönd rétthafa þess skal sá aðili hafa til þess skýrt umboð og hæfi til að skuldbinda rétthafa í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma.

Vilji tveir eða fleiri aðilar skrá sama lénið, og báðir eða allir uppfylla þau skilyrði sem til þess standa, gildir sú meginregla að fyrstur kemur, fyrstur fær.

5. gr.

Einkaafnotaréttur.

Skráning léns felur í sér einkaafnotarétt þess í samræmi við gildandi lög og reglur ISNIC á hverjum tíma, sbr. 12. gr. laga um íslensk landshöfuðlén, en ekki beinan eignarrétt að léni. Einkaafnotaréttur rétthafa er ótímabundinn, enda sé honum haldið við með greiðslu gjalda og framfylgni við gildandi lög, reglur þessar og viðskiptaskilmála ISNIC á hverjum tíma.

6. gr.

Lénnafn.

Nafn léns getur eingöngu innihaldið stafi úr enska stafrófinu, tölustafi, bandstrik og íslensku stafina á, ð, é, í, ó, ú, ý, þ, æ og ö. Lénnafn má ekki byrja eða enda á bandstriki og má ekki innihalda bandstrik í þriðja og fjórða stafbili. Lénnafn ásamt .is-endingunni getur hæst numið 66 stafbilum eða 59 stafbilum innihaldi það séríslenska stafi. Ekki er gerður greinarmunur á há- og lágstöfum í lénnafni.

Eftirfarandi lénnöfn eru frátekin og verða ekki skráð: net.is, com.is, edu.is, gov.is, org.is og int.is.

7. gr.

Skráning í rétthafaskrá.

Rétthafi og tengiliðir léns bera ábyrgð á að réttar upplýsingar séu skráðar í rétthafaskrá ISNIC. ISNIC uppfærir reglulega nöfn íslenskra rétthafa og tengiliða samkvæmt þjóðskrá og fyrirtækjaskrá og áskilur sér rétt til að uppfæra heimilisföng sömu aðila til samræmis við þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá sé þess óskað.

ISNIC getur gripið til ráðstafana skv. 3. kafla vegna rangrar skráningar eða gruns um að skráðar upplýsingar í rétthafaskrá séu rangar.

8. gr.

Höfnun skráningar.

ISNIC áskilur sér rétt til að hafna, eða ógilda, skráningu léns séu skráningarupplýsingar augljóslega rangar eða ófullnægjandi, eða sé skilyrðum reglna þessara og laga um íslensk landshöfuðlén ekki fullnægt. ISNIC getur hvenær sem er krafist gagna sem staðfesta réttmæti skráningar, þ.m.t. að framangreindum skilyrðum sé fullnægt.

9. gr.

Umskráning léns.

Umskráning léns felur í sér rétthafaskipti og framsal allra réttinda og skyldna sem fylgja skráningu léns til nýs rétthafa. Nýr rétthafi skal fullnægja öllum kröfum samkvæmt reglum þessum og lögum um íslensk landshöfuðlén eins og um nýskráningu léns væri að ræða. Rétthafi eða tengiliður rétthafa framkvæmir umskráningu léns á vef ISNIC. ISNIC getur farið fram á að rétthafi staðfesti sérstaklega samþykki sitt fyrir umskráningu.

Um umskráningu gilda sömu reglur og um skráningu léna samkvæmt þessum kafla eftir því sem við getur átt.

10. gr.

Ábyrgð rétthafa.

Rétthafi léns ber ábyrgð á eftirfarandi þáttum, sbr. 12. gr. laga um íslensk landshöfuðlén:

  1. Að notkun léns sé í samræmi við gildandi lög og reglur og að hún samrýmist lögvörðum hagsmunum hans og skerði ekki lögvarða hagsmuni annarra, svo sem hugverkaréttindi.
  2. Greiðslu gjalda vegna skráningar og endurnýjunar léns.
  3. Að skráning þeirra þátta í rétthafaskrá sem lúta að rétthafa sjálfum og tengiliðum léns sé rétt.
  4. Að vistun léns sé tæknilega viðunandi, sbr. 4 kafla.

Rétthafi skuldbindur sig til að hlíta niðurstöðum úrskurðarnefndar ISNIC, sbr. 8. kafla.

Rétthafa ber að bæta ISNIC það tjón sem ISNIC kann að verða fyrir og rekja má með beinum hætti til notkunar lénsins.

3. Kafli - Úrræði vegna rangrar skráningar.

11. gr.

Röng skráning í rétthafaskrá.

ISNIC er heimilt, að eigin frumkvæði eða á grundvelli utanaðkomandi ábendingar, að grípa til ráðstafana samkvæmt þessum kafla ef skráningarupplýsingar léns í rétthafaskrá eru bersýnilega rangar, eða ef grunur leikur á um að svo sé. ISNIC er jafnframt heimilt að framkvæma handahófskenndar eða áhættustýrðar áreiðanleikakannanir á réttmæti skráningarupplýsinga léna í rétthafaskrá.

Með skráningarupplýsingum léns í rétthafaskrá er í þessum kafla eingöngu átt við upplýsingar sem rétthafi ber ábyrgð á að séu rétt skráðar, svo sem upplýsingar um nafn og heimilisfang rétthafa og tengiliða léns.

12. gr.

Gögn til að sannreyna skráningarupplýsingar.

ISNIC er hvenær sem er heimilt að krefjast þeirra gagna frá rétthafa sem ISNIC telur nauðsynleg til að sannreyna réttmæti skráningarupplýsinga í rétthafaskrá. Á meðal gagna sem ISNIC getur krafist í þessu skyni eru:

  1. Ljósmyndir eða myndskeið sem sýna vegabréf eða annað opinbert gagn með mynd af og/eða upplýsingar um rétthafa.
  2. Ljósmyndir eða myndskeið sem sýna rétthafa.
  3. Afrit af bréfum sem póstlögð hafa verið á nafn og heimilisfang rétthafa eins og þau eru skráð í rétthafaskrá.

Krafa um gögn skv. 1. mgr. telst rétt fram komin sé hún sannanlega send með tölvupósti á netföng rétthafa og tengiliðar rétthafa eins og þau eru skráð í rétthafaskrá.

ISNIC skal ekki geyma gögn sem aflað er í framangreindu skyni lengur en nauðsyn krefur og tryggja að vinnsla þeirra fari fram í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

ISNIC er heimilt að semja við þriðja aðila um framkvæmd þess að sannreyna skráningarupplýsingar léns í rétthafaskrá enda sé gætt að trúverðugleika viðkomandi aðila, þ.m.t. því að hann starfi í samræmi við persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins. Sé samið við þriðja aðila í þessu skyni nýtur sá aðili sömu stöðu og réttinda og ISNIC nyti ella samkvæmt reglum þessum.

13. gr.

Læsing léns á meðan skráning er sannreynd.

ISNIC er heimilt að læsa léni, sbr. 7. kafla, á meðan réttmæti skráningarupplýsinga þess í rétthafaskrá er sannreynt. ISNIC skal tilkynna rétthafa um læsingu léns í þessum tilgangi með tölvupósti. Læsing samkvæmt þessu ákvæði skal ekki vara lengur en nauðsynlegt er til að sannreyna skráningarupplýsingar og aldrei lengur en sex mánuði.

14. gr.

Lokun léns vegna rangrar skráningar.

ISNIC er heimilt að loka léni á grundvelli rangrar eða ófullnægjandi skráningar, sbr. a-lið 1. mgr. 10. gr. laga um íslensk landshöfuðlén.

ISNIC lokar lénum á grundvelli rangrar eða ófullnægjandi skráningar í eftirfarandi tilfellum:

  1. Skráningarupplýsingar léns í rétthafaskrá eru bersýnilega rangar eða ófullnægjandi.
  2. Rétthafi verður ekki við kröfu ISNIC um gögn til að sannreyna skráningarupplýsingar skv. 12. gr..
  3. Rétthafa tekst ekki að sýna fram á réttmæti skráningar með gögnum samkvæmt kröfu ISNIC.

15. gr.

Ágreiningur.

Heimilt er að bera ágreining um réttmæti skráningarupplýsinga léns í rétthafaskrá eða aðgerðir ISNIC samkvæmt þessum kafla undir úrskurðarnefnd léna, sbr. 8. kafla.

4. Kafli - Vistun léna.

16. gr.

Uppsetning og vistun léns.

Lén skal vera vistað hjá vistunaraðila á Internetinu eða á biðsvæði ISNIC við skráningu. Uppsetning léns hjá vistunaraðila skal uppfylla þær kröfur sem ISNIC gerir til uppsetningar léna á hverjum tíma og fram koma á vef ISNIC.

Nafnaþjónar (DNS-þjónar) léns hjá vistunaraðila skulu vera skráðir hjá ISNIC áður en lén er skráð.

17. gr.

Breytingar á vistun léns.

Skráður DNS-þjónustuaðili getur breytt vistun léns sem hann vistar.

Rétthafi, eða tengiliður rétthafa, eða tæknilegur tengiliður fyrir hans hönd, getur hvenær sem er skipt um vistunaraðila, enda uppfylli nýr vistunaraðili kröfur ISNIC um uppsetningu léna, sbr. 16. gr.

18. gr.

Lokun léns vegna óviðunandi uppsetningar.

ISNIC er heimilt að loka léni ef tæknileg uppsetning þess er óviðunandi, sbr. b-lið 1. mgr. 10. gr. laga um íslensk landshöfuðlén. Fullnægi vistun léns ekki tæknilegum kröfum ISNIC skal viðvörun þar um send rétthafa, tengilið rétthafa og tæknilegum tengilið léns. Sé viðvörun ekki sinnt innan 60 daga er léni lokað. Um lokun léna fer samkvæmt 6. kafla reglna þessara.

5. Kafli - Greiðslur fyrir lén.

19. gr.

Árgjald léns.

Einkaafnotaréttur rétthafa á léni, sbr. 12. gr. laga um íslensk landshöfuðlén, miðast að meginreglu við eitt ár í senn. Eindagi árgjalds er skráningardagur léns ár hvert. Skráningu léns skal fylgja greiðsla fyrsta árgjalds þess.

ISNIC skal birta gjaldskrá á vef sínum þar sem fram kemur hvað þjónusta fyrirtækisins kostar hverju sinni.

20. gr.

Endurgreiðslur.

Greiðslur fyrir þjónustu ISNIC, þ.m.t. árgjald léna, eru almennt óafturkræfar. Þó skal ISNIC endurgreiða fyrsta árgjald léns sé skráningu þess hafnað, enda verði höfnun skráningar ekki rakin til bersýnilega rangrar skráningar eða annarra atvika sem rétthafi ber ábyrgð á og rétthafa mátti vera ljóst að fælu í sér brot gegn lögum um íslensk landshöfuðlén eða reglur þessar.

6. Kafli - Lokun og afskráning léna.

21. gr.

Lokun léns.

ISNIC er heimilt að loka lénum í eftirtöldum tilfellum, sbr. 10. gr. laga um íslensk landshöfuðlén:

  1. Skráningarupplýsingar léns í rétthafaskrá eru rangar og/eða ófullnægjandi, sbr. 3. kafla.
  2. Tæknileg uppsetning léns er ófullnægjandi, sbr. 4. kafla.
  3. Árgjald léns er ekki greitt, sbr. 5. kafla.
  4. Skráður DNS-þjónustuaðili tilkynnir ISNIC að hann sé hættur þjónustu við lén, enda hafi það verið tekið niður af nafnaþjónum þjónustuaðilans.

ISNIC ber að loka léni sé það ólögmætt samkvæmt dómi eða endanlegum úrskurði þar til bærs aðila, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga um íslensk landshöfuðlén, eða samkvæmt kröfu lögreglu að undangengnum dómsúrskurði, sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga. ISNIC lokar léni sé það nauðsynlegt til að fullunsta úrskurði úrskurðarnefndar léna, sbr. 8. kafla, eða endanlegri niðurstöðu annars þar til bærs aðila.

Sé lokun léns til komin vegna ófullnægjandi skráningar, vangreiðslu árgjalds eða tæknilegra annmarka skal rétthafi hafa 30 daga til að leiðrétta skráningu og sýna fram á réttmæti hennar, greiða árgjald eða lagfæra tæknilega annmarka áður en lén er afskráð.

22. gr.

Afskráning léns.

ISNIC afskráir lén úr rétthafaskrá í eftirtöldum tilfellum:

  1. Þegar lén hefur verið lokað í a.m.k. 30 daga.
  2. Þegar rétthafi eða tengiliður rétthafa léns segir léni upp í gegnum skráningarkerfi á vef ISNIC.

7. Kafli - Læsing léna.

23. gr.

Beiðni um læsingu léns.

Aðilar að ágreiningsmáli um lén, sem þegar er skráð hjá ISNIC, geta lagt fram beiðni um læsingu léns. Sá sem fer fram á læsingu léns er læsingarbeiðandi og rétthafi lénsins er læsingarþoli.

Læsingarbeiðni skal studd gögnum um yfirstandandi ágreiningsmál um lén. ISNIC tekur beiðni um læsingu léns til greina sé hún studd gögnum um málarekstur fyrir:

  1. Íslenskum dómstólum.
  2. Neytendastofu.
  3. Úrskurðarnefnd léna.
  4. Öðrum aðila, sem telst bær til að úrskurða í viðkomandi máli.

24. gr.

Læsingargjald.

Læsingarbeiðandi skráir læsingarbeiðni rafrænt hjá ISNIC og greiðir læsingargjald samkvæmt gjaldskrá. Læsingargjald er óafturkræft.

25. gr.

Gildistími læsingar.

Læsing léns gildir í 6 mánuði og fæst framlengd einu sinni til 6 mánaða án nýrrar læsingarbeiðni, enda sýni læsingarbeiðandi fram á að ágreiningsmál sem læsing byggist á standi enn yfir. Ekki er tekið gjald fyrir framlengingu læsingar.

Að tólf mánuðum liðnum verður læsing ekki framlengd nema á grundvelli nýrrar læsingarbeiðni skv. 24. gr. Skulu henni fylgja gögn um yfirstandandi ágreiningsmál og greiðsla læsingargjalds.

26. gr.

Tæknileg virkni læsts léns.

Ekki er unnt að skipta um rétthafa að læstu léni, en læst lén heldur að öðru leyti tæknilegri virkni. Þar með talið er unnt að skipta um vistunaraðila læsts léns og tengiliði þess, aðra en rétthafa.

27. gr.

Lok læsingar.

Læsing léns fellur niður án breytingar á skráningu þess í rétthafaskrá í eftirtöldum tilfellum:

  1. Læsingarbeiðandi samþykkir rafrænt á vef ISNIC að læsing falli niður.
  2. Gildistími læsingar rennur út án þess að læsingarbeiðandi óski framlengingar eða leggi fram nýja læsingarbeiðni, sbr. 25. gr.
  3. Gildistími læsingar rennur út og beiðni um áframhaldandi læsingu er ekki studd fullnægjandi gögnum.

Læsingu léns lýkur með umskráningu þess yfir á læsingarbeiðanda í eftirtöldum tilfellum:

  1. Læsingarþoli samþykkir rafrænt á vef ISNIC að afskrá lénið.
  2. ISNIC framfylgir dómi eða úrskurði þar til bærs aðila um að lén skuli umskráð yfir á læsingarbeiðanda.

8. Kafli - Úrskurðarnefnd léna.

28. gr.

Starfssvið og skipun úrskurðarnefndar.

ISNIC starfrækir úrskurðarnefnd sem sker úr deilum um .is-lén á grundvelli reglna þessara, sbr. i-lið 2. mgr. 8. gr. laga um íslensk landshöfuðlén. Nefndin er sjálfstæð og óháð í störfum sínum. ISNIC skal birta leiðbeiningar um málskot til nefndarinnar á vef sínum.

ISNIC skipar einn nefndarmann í úrskurðarnefnd til að úrskurða í hverju máli fyrir sig og skal hann uppfylla hæfisskilyrði héraðsdómara. Nefndarmaður sem skipaður hefur verið getur lagt til við ISNIC að nefndin verði fjölskipuð telji hann eðli máls og aðstæður að öðru leyti gefa tilefni til þess. Fallist ISNIC á tillöguna skulu tveir nefndarmenn skipaðir til viðbótar og skal annar þeirra hafa faglega kunnáttu á sviði samkeppnis- og hugverkaréttar og hinn á sviði internet- og tæknimála. Sá sem fyrstur var skipaður veitir fjölskipaðri nefnd formennsku og stýrir störfum hennar.

ISNIC útvegar úrskurðarnefnd fundaraðstöðu og ritaraþjónustu eftir þörfum.

29. gr.

Málskotsgjald.

Málskoti til úrskurðarnefndar skal fylgja greiðsla málskotsgjalds samkvæmt gjaldskrá ISNIC. Úrskurðarnefnd kemur ekki saman vegna máls fyrr en málskotsgjaldið hefur verið að fullu greitt. Gjaldið er óafturkræft.

30. gr.

Málsmeðferð og formkröfur.

Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd er eingöngu skrifleg og rafræn. Málshefjandi beinir málskoti til nefndarinnar og skal því fylgja greinargerð þar sem fram koma upplýsingar um:

  1. Málshefjanda (nafn, kennitala, heimilisfang, símanúmer og netfang).
  2. Gagnaðila.
  3. Lén sem málið varðar.
  4. Kröfur málshefjanda.
  5. Helstu málsástæður.

Úrskurðarnefnd tilkynnir gagnaðila um fram komið málskot, lætur honum í té greinargerð málshefjanda og veitir honum hæfilegan frest, ekki skemmri en tvær vikur, til að skila greinargerð til nefndarinnar. Úrskurðarnefnd skal gefa málshefjanda kost á að bregðast við greinargerð gagnaðila með viðbótargreinargerð, nema slíkt sé talið augljóslega óþarft. Sé það gert skal gagnaðila gefinn kostur á að bregðast við viðbótargreinargerð málshefjanda.

Úrskurðarnefnd er heimilt að afla þeirra viðbótargagna sem hún telur nauðsynleg.

Úrskurðarnefnd skal taka afstöðu til atriða er varða form málsins, svo sem hæfis nefndarmanna og frávísunarkrafna. Skal nefndin gefa málsaðilum kost á að tjá sig um formsatriði áður en hún tekur afstöðu til þeirra, nema slíkt sé talið augljóslega óþarft.

31. gr.

Tilkynningar til málsaðila.

Úrskurðarnefnd skal senda málsaðilum tilkynningar, svo sem um málskot, fram komin gögn og frestveitingar, með tölvupósti og teljast þær komnar til viðtakanda á því tímamarki sem tölvupóstur er sannanlega sendur.

Notast skal við netfang málsaðila eins og það kemur fram í greinargerð sem fylgir málskoti hans skv. 30. gr. Sé gagnaðili rétthafi léns skal notast við netfang hans eins og það er skráð í rétthafaskrá ISNIC.

32. gr.

Hugverkaréttur.

Í deilumáli þar sem málshefjandi krefst þess að rétthafi léns umskrái lén yfir á málshefjanda á grundvelli hugverkaréttar er úrskurðarnefnd heimilt að ákveða að lén verði umskráð ef öll eftirtalin atriði eiga við:

  1. Lén er eins og vörumerki sem málshefjandi er eigandi að og var skráð sem orðmerki eða orð- og myndmerki hjá Hugverkastofu áður en lénið var skráð á rétthafa.
  2. Rétthafi léns hefur ekki lögmæta hagsmuni af notkun lénsins.
  3. Rétthafi léns var ekki í góðri trú um rétt sinn til lénsins þegar lénið var skráð á hann.

Lén verður ekki talið hafa verið skráð á rétthafa í góðri trú ef annað af eftirfarandi á við:

  1. Lén var skráð í þeim tilgangi að selja, leigja eða veita öðrum aðila aðgang að léninu gegn gjaldi sem er sannanlega hærra en sem nemur kostnaði við skráningu og endurnýjun þess.
  2. Lén var skráð í þeim eina tilgangi að hindra að samkeppnisaðili skráði það tiltekna lén.

33. gr.

Birting og framfylgd úrskurða.

Úrskurði úrskurðarnefndar skal birta á vef ISNIC.

ISNIC framfylgir úrskurði nefndarinnar tíu dögum eftir að hann er birtur, eða næsta virkan dag þar á eftir, hafi honum ekki þegar verið framfylgt. ISNIC framfylgir ekki úrskurði hafi dómsmál verið höfðað vegna sama máls eða lögbann verið lagt á notkun þess léns sem mál varðar áður en niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir eða áður en sá dagur sem úrskurði hennar átti að framfylgja rennur upp.

9. Kafli - Ábyrgð ISNIC.

34. gr.

Skráning léna og breyting skráningar.

ISNIC ber ábyrgð á að skráningu léna sé háttað í samræmi við reglur þessar.

ISNIC ber ábyrgð á að framkvæma breytingar sem samræmast reglum þessum og óskað er eftir af rétthafa léns eða tengilið rétthafa léns, eða eru nauðsynlegar til að framfylgja úrskurði úrskurðarnefndar léna eða annars þar til bærs aðila.

35. gr.

Fyrirvari.

ISNIC undanþiggur sig fébótaábyrgð vegna tjóns sem rakið kann að verða til dráttar á skráningu tiltekins léns eða höfnunar á skráningu tiltekins léns. ISNIC verður ekki á neinn hátt gert ábyrgt vegna hugsanlegs tjóns sem úrskurðir úrskurðarnefndar eða annarra þar til bærra aðila geta haft í för með sér. ISNIC verður ekki á neinn hátt gert ábyrgt vegna hugsanlegs tjóns sem rakið verður til þess að léni er lokað eða það afskráð vegna dóms eða lögbanns. ISNIC verður ekki á neinn hátt gert ábyrgt vegna hugsanlegs tjóns sem rakið verður til læsingar léns.

Um ábyrgð fyrirtækisins að öðru leyti vísast í viðskiptaskilmála ISNIC og almenn lög.