ISNIC - Internet á Íslandi hf. Viðskiptaskilmálar

A. Yfirlýsing

Viðskiptaskilmálar þessir eru almennir viðskiptaskilmálar Internets á Íslandi hf. Stangist þeir á við reglur ISNIC, deildarinnar sem sér um skráningu .is léna, gilda reglur ISNIC eins og þær eru á hverjum tíma og birtar eru á vefnum: https://www.isnic.is/is/domain/rules

Starfsemi ISNIC - Internets á Íslandi hf (hér eftir ISNIC) er rekin í tvemur deildum: ISNIC og RIX. Starfsemin er flokkuð undir ISAT nr. 72.40.0 og 72.60.0 rekstur gagnagrunna og gagnaveita og önnur starfsemi tengdum tölvum og gagnavinnslu. Félagið hefur fjarskiptaleyfi og heyrir starfsemi RIX (Reykjavík Internet Exchange) undir það leyfi.

Fyrirvari: Í þjónustu ISNIC felst m.a. en ekki eingöngu rekstur gagnagrunns- og hugbúnaðarþjónustu sem viðskiptamenn kaupa aðgang að um Internetið. Þeir sem ekki hafa aðgang að Internetinu geta ekki nýtt sér þjónustu ISNIC nema að mjög takmörkuðu leiti.

Viðskiptaskilmálar þessir innihalda skilgreiningar og takmarkanir á ábyrgð ISNIC gagnvart viðskiptavinum félagsins. Þeir gilda fyrir allar afurðir og alla þjónustu sem fyrirtækið veitir einstaklingum, félögum, lögaðilum, opinberum stofnunum og öðrum, hvort heldur sem er gegn greiðslu eða án endurgjalds.

B. Endurgreiðslur og sjálfvirk endurnýjun

  1. Greiðslur eru almennt óafturkræfar. Endurgreiðsla verður aðeins vegna alvarlegra hnökra á þjónustunni af hálfu ISNIC. Stöðvist þjónustan vegna tæknilegra bilana sem eiga uppruna sinn hjá ISNIC og eru á ábyrgð þess yfir tímabil sem nemur meira en fimm sólarhringum yfir árið og meira en tveimur sólarhringum í röð, er slíkt skilgreint sem "alvarlegir hnökrar" á þjónustunni. Við svo búið getur viðskiptamaður krafist endurgreiðslu á þeim hluta fyrirframgreiðslunnar sem eftir lifir samningstímans.
  2. Endurgreiðslur þurfa ávallt að fara í gegnum bókhald ISNIC.
  3. Sjálfvirkar endurnýjanir léna eru framkvæmdar 45 dögum fyrir skráningardag léns ár hvert.

1. Skilgreiningar

Viðskiptamaður er sá sem reikningurinn frá Internet á Íslandi hf. er stílaður á. Sá sem fyllir út umsókn eða kaupir þjónustu f.h. viðskiptamanns skal hafa kynnt sér skilmála þessa og samþykkt þá fyrir hans hönd með að haka í þar til gerðan reit í umsóknarformum ISNIC.

  1. Þjónustuveitandi. Eigandi og ábyrgðaraðili þjónustunnar er hlutafélagið Internet á Íslandi hf., kennitala: 660595-2449, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík.
  2. Viðskiptamaður eða notandi. Sá einstaklingur, lögaðili, félag eða opinber stofnun, sem ISNIC veitir þjónustu og skráður er í notenda- eða viðskiptamannagrunni ISNIC þ.m.t. Whois.
  3. Önnur þjónusta: Ýmiskonar upplýsingagjöf eða ráðgjöf fyrir þriðja aðila. Hýsing á gögnum viðskiptamanna og úrvinnsla þeirra eða samtvinning við önnur gögn. Hér undir fellur einnig öll önnur þjónusta sem ISNIC veitir, eða veita kann og tilgreind er í samningi eða í umsóknarformi, ásamt en ekki einskorðað við aðgang að gagnagrunni ISNIC, notkun á útgefnum upplýsingum, hugbúnaði, notendanöfnum og lykilorðum, sem veita aðgang að hugbúnaðarþjónustu ISNIC á Internetinu eða með öðrum hætti.
  4. Hugbúnaður. Sá hugbúnaður sem ISNIC býður upp á hverju sinni, hvort heldur sem er í kerfisveitu (e. Application Service Provider) eða uppsettum á tölvu viðskiptamanns/notanda, að hluta til eða alveg.
  5. Vefur viðskiptamanna. Vefir, vefsíður, vefsetur, heimasíður, viðskiptamanna og notenda sem ISNIC veitir þjónustu hverju sinni.
  6. Fjárhagslegur tengiliður, eða greiðandi. Sá einstaklingur sem hefur umboð eða vald til þess að skuldbinda viðskiptamann fjárhagslega gagnvart ISNIC.
  7. Umsókn. Umsóknarform ISNIC eins og þeu eru á hverjum tíma á vefjum ISNIC.
  8. Árgjald. Gjald það sem ISNIC tekur fyrir veitta skilgreinda þjónustu í 12 mánuði frá greiðslu/opnun.
  9. Stofngjald. ISNIC innheimtir sérstakt stofngjald fyrir við uppsetningu í upphafi viðskipta. Gjaldið er greitt einu sinni.

2. Gildissvið

Skilmálar þessir gilda fyrir alla viðskiptamenn ISNIC. Kjör viðskiptamanns miðast við rafræn svör frá ISNIC, eins og þau eru vistuð í gagnagrunni ISNIC undir nafni viðskiptamanns. Sé eintak viðskiptamanns ekki samhljóða eintaki ISNIC, þá gildir eintak ISNIC, nema um þinglýst undirritað eintak sé að ræða.

3. Takmarkanir á ábyrgð ISNIC - athugið sérstaklega.

  1. Póstfang, símanúmer og netfang (e-mail) viðskiptamanns. Heimilisfang viðskiptamanns eins og það er skráð af honum sjálfum í notendagrunn (t.d. Whois grunni) ISNIC gildir. Viðskiptamaður er sjálfur ábyrgur fyrir því að heimilisfang hans og netfang sé rétt skráð í notendagrunn ISNIC á hverjum tíma. Náist ekki samband við viðskiptamann vegna breytinga á póstfangi eða netfangi ber ISNIC enga fjárhagslega ábyrgð ef reikningar eða aðrar nauðsynlegar sendingar eða tilkynningar frá ISNIC berist viðskiptamanni ekki. ISNIC ber ekki skylda til þess að reyna að hafa uppi á nýju póstfangi viðskiptamanna.
  2. ISNIC er ekki bundið af tilboðum sem send hafa verið viðskiptamönnum ef þau leiða ekki til samnings innan þriggja daga.
  3. Samningur telst kominn á þegar fjárhagslegur tengiliður viðskiptamanns hefur samþykkt tilboð rafrænt, undirritað samning frá ISNIC (eingöngu í tilviki stærri aðila), greitt reikninga frá ISNIC eða samþykkt skilmála þessa.
  4. Aðgangur er fyrst heimilaður þegar gengið hefur verið frá samningi og/eða greiðslu til ISNIC. Viðskiptamanni er heimilt að nota þjónustu ISNIC að því gefnu að hann samþykki kaup á þjónustunni. Komi ekki til samnings eða berist ISNIC ekki greiðsla verður lokað fyrir aðgang að þjónustunni.
  5. Þjónusta ISNIC er á hverjum tíma eins vel úr garði gerð og kostur er. Hins vegar getur fyrirtækið ekki ábyrgst tæknilegar truflanir sem upp kunna að koma vegna bilana, hvort heldur sem er vegna bilana hjá þriðja aðila (t.d. í almenna dreifikerfinu, ljósleiðara, ip-punktum, beinum o.fl.), eða bilanir í vél- eða hugbúnaðarkerfum ISNIC.
  6. Gagnaöryggi. Þrátt fyrir umfangsmiklar öryggisráðstafanir getur ISNIC ekki tryggt 100% gagnaöryggi gagnvart viðskiptamönnum á öllum tímum. Slíkt hefur þó verið raunin frá byrjun starfseminnar 1995. Slík trygging yrði einfaldlega of kostnaðarsöm. ISNIC ber því enga fjárhagslega ábyrgð í þessum efnum.
  7. Gagnatap viðskiptamanna eða tímabundin stöðvun á vistun í gagnagrunni ISNIC vegna bilana í almenna dreifikerfinu eða tölvukerfi viðskiptamanns, eru ekki á ábyrgð ISNIC. Undir þetta fellur t.d. en ekki eingöngu útfall hugbúnaðar úr kerfi viðskiptamanns, t.d. vegna tæknilegra breytinga eða uppfærsla sem eiga sér stað hjá honum.
  8. Gögn viðskiptamanns sem tapast vegna náttúruhamfara, eldsvoða eða annarra utanaðkomandi þátta verða ekki bætt af ISNIC.
  9. ISNIC er ekki skylt að bæta gagnatap með fjárgreiðslu nema að undangengnum dómi. Sækja skal mál gegn ISNIC fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
  10. Túlkun gagna. ISNIC er ekki ábyrgt gagnvart þriðja aðila um túlkun viðskiptamanns eða annarra aðila á upplýsingum fengnum úr gagnagrunni ISNIC.
  11. Viðskiptavinur lofar að gera ISNIC ekki ábyrgt gegn þriðja aðila vegna notkunar hans eða túlkunar á upplýsingum frá ISNIC, eða upplýsinga sem ISNIC hefur látið honum í té sem eðlilegan þátt í starfsemi ISNIC.

4. Breytingar og viðbætur

  1. Atriði í samningi milli ISNIC og viðskiptamanns, sem ekki fyrirfinnast í skilmálum þessum eða atriði sem gengur gegn þeim þarf að tilgreina sérstaklega og undirrita af báðum aðilum.
  2. ISNIC áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum þessum að undangenginni tilkynningu þar um á vef ISNIC. Hafni viðskiptamaður breytingunni er honum heimilt að rifta gildandi samningi með tveggja vikna fyrirvara.

5. Afhending og tímabil.

  1. Almennt. Afhending þjónustunnar miðast við 1. hvers mánaðar og lýkur síðasta dag hvers mánaðar þegar um mánaðarviðskipi er að ræða. Reikningar innihalda ávallt magntölur síðasta heila mánaðar í mánaðarviðskiptum. Árgjöld miðast við 365 daga, sem byrja daginn sem reikningur er bókaður.
  2. Notandanafn og lykilorð. Reikningar eru sendir út daginn sem umsókn er afgreidd, eða samningur hefur verið undirritaður. Notandanafn og lykilorð eru send notendum þegar staðfesting um greiðslu hefur borist frá banka eða heimild fengist fyrir úttekt á greiðslukort.

6. Verð, skattar og greiðsluleiðir

  1. Verð í íslenskum krónum eru birt með 24% virðisaukaskatti, nema um sé að ræða verð til fyrirtækja. ISNIC innheimtir 24,0% virðisaukaskatt á Íslandi.
  2. Árgjöld léna eru fyrirframgreidd til minnst eins árs í senn og fást ekki endurgreidd. Gjalddagi/eindagi reiknings er sami dagur og stofndagur léns (e. expire date). Lén lokast sjálfkrafa sé reikningur ógreiddur daginn eftir eindaga. Reikningar eru sendir á netfang skráðs greiðanda 30 dögum áður en lén (eða önnur þjónusta) rennur út.
  3. Óendurnýjuð (ógreidd) lén eyðast sjálfkrafa 30 dögum eftir eindaga reiknings og fellur krafan niður án kostnaðar fyrir viðskiptamenn. Kröfur fyrir aðra þjónustu fara í innheimtu á kostnað viðskiptamanns eftir ítrekun. Vanskilagjald er lagt á fyrir hvern gjaldfallinn reikning að fjárhæð kr. 250.-

7. Eftirlit og kvartanir

  1. Viðskiptamaður skal sjálfur yfirfara aðsend forrit frá ISNIC og ganga úr skugga um að sendingin tilheyri örugglega honum, áður en notkun eða innleiðing hefst.
  2. Viðskiptamaður skuldbindur sig til að yfirfara nettengingar sínar vandlega meðan á viðskiptum við ISNIC stendur, og sjá til þess að á því séu engir hnökrar.
  3. Viðskiptamaður skuldbindur sig til að fara í einu og öllu eftir leiðbeiningum og reglum ISNIC, þar með taldar reglur ISNIC um lén.
  4. Verði viðskiptamaður var við alvarlegar sambandstruflanir við netstöð ISNIC eða að þjónusta ISNIC valdi truflunum á þjónustu viðskiptamanns skal hann gera ISNIC aðvart. Upplýsingar um símanúmer er að finna á www.isnic.is.

8. Upplýsingastefna, öryggi og persónuvernd

  1. Um öryggi gagna og verndun persónulegra upplýsinga einstakra viðskiptamanna vísast til upplýsingastefnu ISNIC, sem viðskiptamaður hefur kynnst sér. Viðskiptamaður skal láta ISNIC í té nauðsynlegar upplýsingar ef um er að ræða hýsingu á viðkvæmum persónulegum upplýsingum, sem lög um persónuvernd kunna að ná til - áður en gögnin eru vistuð í gagnagrunni ISNIC. Sjá Upplýsingastefnu ISNIC.

9. Eignarhald og höfundarréttur

  1. Viðskiptamaður samþykkir og viðurkennir að öll hugbúnaðarþjónusta, kerfi og vörumerki sem hann sækir um og fær aðgang að hjá ISNIC eru eign ISNIC. Hann lofar að virða lög um vörumerki og höfundarrétt í hvívetna. Afritun eða augljós eftirlíking á útliti, framsetningu og samsetningu á þjónustu ISNIC veldur tafarlausri uppsögn á samningi þessum, án endurgreiðslu, auk lögsóknar af hálfu ISNIC ef tilefni þykir til. Allur réttur áskilinn.
  2. ISNIC á gagnagrunninn og gagnasafnið í heild sinni sem geymt er í grunninum á hverjum tíma. Hins vegar eiga viðskiptamenn hver um sig sín persónulegu gögn og geta á hverjum tíma farið fram á að þeim verði eytt gegn gjaldi sem nemur 2 klst í útseldri vinnu sérfræðings.
  3. Samanteknar upplýsingar og úrvinnslur ýmiskonar úr gagnasafni ISNIC eru eign ISNIC.
  4. Annar uppsettur hugbúnaður á tölvukerfi viðskiptamanns, sem hann hleður niður af vefjum ISNIC eða fær afhent með öðrum hætti frá ISNIC er eign ISNIC.
  5. Útlit, samsetning og virkni hugbúnaðarins, eins og það birtist viðskiptavini er eign ISNIC og verndað sem slíkt af lögum um höfundarrétt og lögum um vörumerki. Viðskiptamaður lofar að afrita hvorki né líkja eftir framsetningu ISNIC með einum eða öðrum hætti. Öll vörumerki ISNIC eru skráð hjá Hugverkastofunni í Reykjavik og sum alþjóðlegri skráningu hjá WIPO.
  6. Viðskiptamaður má ekki fjarlægja vörumerki ISNIC eða vöruheiti tengd ISNIC úr hugbúnaðinum. Þetta eru m.a. en ekki eingöngu merkin: ISNIC, INTIS.
  7. Tilvitnanir í ISNIC eða deildir ISNIC, Isnic eða RIX.is í útgefnum og óútgefnum gögnum, eða framsetningu hugbúnaðarins eins og ISNIC setur gögnin eða notendaviðmót hugbúnaðarins frá sér er stranglega bannað að fjarlægja eða breyta án skriflegs leyfis frá ISNIC.
  8. ISNIC er heimilt að framselja höfundar- og eignarréttinn til þriðja aðila án tilkynninga þar um til viðskiptamanns.

10. Uppsagnarákvæði

  1. Almennur uppsagnarfrestur beggja aðila er 1 mánuður.
  2. Verði alvarlegir hnökrar á þjónustunni getur viðskiptamaður sagt viðskiptunum upp með tveggja vikna fyrirvara með einfaldri tilkynningu í tölvupósti til ISNIC, enda hafi hann gefið ISNIC sanngjarnan frest til að bregðast við biluninni.
  3. ISNIC áskilur sér skýlausan rétt til þess að slíta viðskiptasambandinu og stöðva afhendingu á þjónustu án fyrirvara, ef efni á vef viðskiptamanns eða þjónustan/varan sem boðin er á vegum viðskiptamanns brýtur í bága við íslensk lög eða lög Evrópusambandsins og úrskurður um slíkt berst frá dómstólum eða lögreglu.
  4. "DNS Hýsing ISNIC" er þjónusta sem er aðskild frá skráningu léns í landalénið .IS. Þjónustan er veitt til rétthafa .IS léna að kostnaðarlausu. ISNIC áskilur sér rétt að neita skráningu léns eða notanda í "DNS Hýsing ISNIC" að eigin frumkvæði, hvenær sem er, án viðvörunar.
  5. ISNIC framlengir samninga um árgjöld með tilkynningu í tölvupósti til viðskiptamanns ásamt birtingu og í sumum tilfellum póstsendingu á reikningi eða úttekt á greiðslukorti nokkrum dögum áður en árgjald rennur út. Verði tilboði um nýtt árgjald ekki hafnað er litið svo á að framlengja eigi samninginn um eitt ár.

11. Ábyrgð ISNIC

  1. Viðskiptamaður á eingöngu rétt á endurgreiðslu á fyrirframgreiddu árgjaldi ef hann tilkynnir strax um galla eða vanefndir af hálfu ISNIC og getur sýnt ISNIC fram á slíkt. Fjárkrafan á hendur ISNIC getur aldrei orðið hærri en sem nemur fyrirframgreiddu árgjaldi. Viðskiptamaður getur ekki gert kröfu um bætur fyrir neitt annað, hvorki miskatjón, heilsutjón, tjóni á fjármunum, hugbúnaði, gögnum eða nokkru öðru en þeirri fjárhæð sem viðskiptamaður reiddi fram fyrir aðkeypta þjónustu frá ISNIC. Í engu tilviki getur endurgreiðslan orðið hærri en viðskiptamaður hefur sannanlega greitt ISNIC fyrirfram.
  2. Áður en til kröfu um endurgreiðslu kemur skal viðskiptamaður senda ISNIC eins nákvæma tæknilega lýsingu á vandamálinu og honum er unnt og gefa ISNIC minnst 14 virka daga til þess að framkvæma þær breytingar eða viðgerðir sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að ISNIC geti afhent þjónustuna samkvæmt skilmálum þessum og samningi milli aðila.
  3. Viðskiptamaður fríar ISNIC af allri ábyrgð gagnvart tjóni sem þriðji aðili kanna að telja sig hafa orðið fyrir beint eða óbeint vegna kaupa viðskiptamanns á þjónustu ISNIC. Viðskiptamaður samþykkir að í engum slíkum tilvikum getur orðið um fjárkröfu á hendur ISNIC að ræða.

12. Force Majeure. Ófyrirsjáanlegir atburðir.

  1. ISNIC er laus undan öllum kröfum um þjónustu í tilfelli náttúruhamfara og annarra ófyrirsjáanlegra atburða (force majeure) meðan á þeim stendur. Standi atburðirnir yfir í 30 daga eða lengur eru báðir aðilar lausir undan skuldbindingum samnings þessa án frekari fyrirvara.
  2. Viðskiptamaður á ekki rétt á endurgreiðslu, eða öðrum skaðabótum í tilfelli náttúruhamfara, eða annarra óviðráðanlegra og/eða ófyrirsjáanlegra atburða (force majeure) sem koma í veg fyrir að ISNIC geti uppfyllt skyldur sínar gagnvart viðskiptamanni samkvæmt skilmálum þessum.

13. Dómstóll.

Sækja skal mál gegn Internet á Íslandi hf. fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.



F.h. ISNIC - Internet á Íslandi hf.
Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri.
Síðast breytt 4. júní 2024.