Spurt og svarað

Innskráning, notendanöfn og auðkenni

Skráning léna

Uppsetning léna

Skráning nafnaþjóna

Skráning tengiliða

Öryggi skráninga

Skráningu breytt

Reglur og upplýsingar um lén

Ýmislegt


Hvernig fæ ég notandanafn á vef ISNIC?

Notendanöfn hjá ISNIC heita NIC-Auðkenni. Þessi auðkenni eru bæði notuð til að auðkenna tengiliði léna og sem notandanöfn á vef ISNIC. Til að skrá nýtt lén þarf umsækjandi að vera skráður inn ("loggaður inn") á vef ISNIC með NIC-Auðkenni sínu.

NIC-Auðkenni (notandanafn) veitir einnig aðgang að flestum breytingum sem gera þarf á skráningu léna sem þú hefur umráð yfir. Eftir að þú skráir þig inn á vef ISNIC, birtist á síðunni "Mín síða" undir "Tengiliðir", listi yfir þau lén sem þú hefur umráð yfir. Þú velur lén sem þú vilt breyta, og smellir á viðeigandi aðgerð.

Skráðar upplýsingar tengiliða léna og nafnaþjóna skulu vera réttar. Undir "Mínar stillingar" (efst til hægri) getur þú breytt eigin notandaskráningu. Tölvupóstfang skal vera rétt og pósturinn lesinn, því öll samskipti við ISNIC fara um tölvupóst.

Sjá einnig:

Hvert er hlutverk tengiliða?

Auk rétthafa eru fjórir tengiliðir (NIC-Auðkenni) skráðir með léni. Hver þessara tengiliða hefur sitt hlutverk (t.d. greiðandi) og mismikið vald yfir léninu. Þessir tengiliðir, ásamt rétthafa eru jafnframt notendur á vef ISNIC og nota NIC-Auðkenni sín til að skrá sig inn á vef ISNIC.

Einnig getur tengiliður falið umboðsaðila að annast skráningu sína.

Mikilvægt er að hafa í huga að tengiliðir geta breytt skráðum upplýsingum um sjálfa sig, en aðeins rétthafi og tengiliður rétthafa geta skipt um tengiliði.

  1. Rétthafi (R) hefur full yfirráð yfir skráningu léns. Rétthafi getur breytt öllum þáttum skráningar lénsins, m.a. skipt um rétthafa, þ.e.a.s. framselt lénið til þriðja aðila. Ákveði rétthafi hins vegar, að fela þriðja aðila alla umsjón með skráingu lénsins (þ.m.t. umskáningu á nýjan rétthafa og uppsögn) er eðlilegt að sá sé skráður tengiliður rétthafa. Athugið þó, að rétthafinn (ef hann er virkur notandi hjá ISNIC) þarf að samþykkja aðgerð fari tengiliður rétthafa (eða aðrir tengiliðir) fram á rétthafabreytingu eða afskráningu lénsins.
  2. Tengiliður rétthafa (TR) vinnur í nafni rétthafans. TR getur breytt öllum þáttum skráningar lénsins, hafið rétthafabreytingu sem rétthafi þarf þó að samþykkja (sé hann virkur notandi hjá ISNIC). Hafi rétthafi falið öðrum aðila umsjón með skráningu léns er sá yfirleitt settur sem TR. TR getur sagt sig frá léni, og verður rétthafi þá sjálfkrafa skráður sem tengiliður rétthafa.
  3. Tæknilegur tengiliður (TT) er sá sem sér um tæknileg málefni vistunar, hýsingar vefja o.s.frv. TT er oft vistunaðili lénsins. Aðeins tengiliður rétthafa og rétthafi geta skipt um tæknilegan tengilið. TT getur sagt sig frá léni og verður þá TR sjálfkrafa skráður sem tæknilegur tengiliður.
  4. Greiðandi (GR) léns er sá aðili sem reikningur vegna léns eru gefnn út á, oftast rétthafinn sjálfur. Mikilvægt er að R og TR sjái til þess að réttur aðili sé ávallt skráður greiðandi léns. R og TR geta einir skipt um greiðanda, en greiðandi getur hins vegar sagt sig frá léni og er þá R sjálfkrafa skráður greiðandi. Reikningar ásamt greiðsluseðli verða ekki endurútgefnir á nýjan greiðanda eftir á, heldur verður gefin út staðgreiðslukvittun eftir að greiðsla hefur borist óski greiðandi eftir því.
  5. Tengiliður vistunaraðila (TV) er sá sem hefur tæknilega umsjón með aðalnafnaþjón lénins. Þetta er sá tengiliður sem vistunaraðili skráir sem tæknilegan tengilið nafnaþjóna sinna, og er sá sem ISNIC hefur samband við vegna tæknilegra vandamála við vistun léns. Tengiliður vistunaraðila léns skal hafa getu og vilja til að bæta úr tæknilegum vandkvæðum á vistun léns á eigin nafnaþjónum. Þessi tengiliður breytist sjálfkrafa þegar lén er flutt á nýja nafnaþjóna.
  6. Umboðsaðili (U) á rétthafa er tengiliður sem annast skráningu annars tengiliðar.

Sami aðlinn getur gengt hlutverki fleiri en eins af ofangreindum tengiliðum, þ.e. sama NIC-Auðkennið getur verið skráð sem R, TR, TT, GR og jafnvel TV, en ef þeir eru mismunandi fer það eftir því hver tengiliðanna er innskráður á vef ISNIC, hvaða aðgerðir (breytingar) á léni hann getur gert á skráningu léns:

Aðgerðir á lén
Rétthafi Tengiliður rétthafa Tæknilegur tengiliður Greiðandi Tengiliður vistunaraðila Umboðsaðili
Breyta upplýsingum rétthafa NeiNeiNei
Skipta um rétthafa (d)Nei (d)Nei (d)Nei
Skipta um tengiliði Nei (a)Nei (b)NeiNei
Greiða árgjald (GR ekki þjónustuaðili) NeiNei
Greiða árgjald (GR er þjónustuaðili) NeiNeiNeiNei (e)Nei
Flytja hýsingu
  - Breyta DS færslum
NeiNei (c)Nei
Afskrá lén (d)Nei (d)Nei (d)NeiNei
Sjálfv. endurnýjun (GR ekki þjónustuaðili) NeiNei
Sjálfv. endurnýjun (GR er þjónustuaðili) NeiNeiNeiNei (e)Nei
Hætta sem tengiliður Nei(b)(a)(b)Nei-

a) TR og GR geta sagt sig frá léni og þá verður R settur í staðinn.
b) TT getur sagt sig frá lén og er þá TR settur í staðinn.
c) TV á lénum sem vistuð eru hjá skráðum þjónustuaðilum getur flutt lénið og sýslað með DS færslur þess.
d) TT og GR geta farið fram á rétthafabreytingu og afskráningu, R eða TR þarf að samþykkja. TR getur framkvæmt rétthafabreytingu og afskráningu án samþykkis R sé hann óvirkur notandi.
e) Allir tengiliðir þjónustuaðila geta einnig endurnýjað lén.

Aðgerðir á tengilið
Umboðsaðili
Aðgang að upplýsingum
Breyta upplýsingum
Skipta um umboðsaðilaNei
Eyða tengiliðNei

Hvernig skipti ég um rétthafa?

Lén innlendra rétthafa eru skráð á kennitölu eins og hún er í Þjóðskrá. Ef að skipta á um rétthafa á léni, þarf að skipta um NIC-auðkenni rétthafa.

Skref 1

Skráðu þig inn á auðkenni rétthafa eða tengiliðs rétthafa á isnic.is.

Skref 2

Undir „Mín síða“ smellirðu á takkann Lén og velur Skipta um rétthafa í fellilistanum.

Skref 3

Hakaðu við lénið/lénin sem þú vilt umskrá, skrifaðu NIC-auðkenni nýs rétthafa inn í reitinn fyrir neðan og smelltu á Áfram. Ef að viðtakandi lénsins er ekki með skráðan tengilið hjá ISNIC þarf nýi rétthafinn að skrá nýjan tengilið á nýju kennitöluna.

Skref 4

Staðfestu umskráninguna með því að smella á hlekk sem sendur er í tölvupósti á netfang núverandi rétthafa og smelltu á Staðfesta á vef ISNIC. Ef að auðkenni rétthafa er óstaðfest þá er staðfestingarpóstur sendur á netfang tengiliðs rétthafa. Athugaðu að ef að tölvupósturinn er opnaður í öðrum vafra en þeim sem þú ert innskráð/ur á þarftu að skrá þig inn eftir að hafa smellt á hlekkinn í tölvupóstinum.

Hvernig skipti ég um tengilið léns?

Fyrir hvert lén eru 3 tengiliðir ásamt rétthafa og vistunaraðila: Tengiliður rétthafa, greiðandi og tæknilegur tengiliður. Sjá hlutverk tengiliða. Rétthafi og tengiliður rétthafa léns geta skipt um tengiliði í gegnum Mín síða, innskráðir á sín auðkenni.

Skref 1

Skráðu þig inn á auðkenni rétthafa eða tengiliðs rétthafa á isnic.is.

Skref 2

Undir Mín síða smellirðu á takkann Lén og velur Skipta um tengiliði í fellilistanum.

Skref 3

Hakaðu við lénið/in sem þú vilt skipta um tengiliði á í töflunni. Ritaðu viðeigandi NIC-auðkenni inn í reiti þeirra tengiliða sem þú vilt breyta. Ef að nýr tengiliður lénsins er ekki með skráð auðkenni hjá ISNIC þarf sá aðili að byrja á því að nýskrá tengilið.

Skref 4

Smelltu á Áfram til þess að vista breytingarnar.

Hvernig get ég séð hvort lén sem ég vil er laust?

Það er hægt að fletta léninu upp í rétthafaskrá (WHOIS gagnagrunn) og athuga hvort það sé nú þegar skráð. Athugið að lén sem merkt er Óvirkt eða ON-HOLD er ekki laust til skráningar. Ekki er víst að lén sé laust þó það vanti í rétthafaskrá (WHOIS gagnagrunn), þar sem skráning þess getur verið í vinnslu.

Einnig er einfaldlega hægt að reyna að skrá viðkomandi lén, en fyrsta skrefið í skráningarferli er athugun á því hvort viðkomandi lén er laust til skráningar.

Ef nota á forrit til að athuga er best að nota EPP check:domain eða RDAP. Fjöldi uppflettinga er takmarkaður við 7200 stk. á 30 mín.

Hvernig skrái ég nýtt lén?

Skref 1

Skráðu þig inn á þinn aðgang hjá ISNIC með notendanafni (NIC-auðkenni) og lykilorði. Einnig er hægt að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Ef þú hefur ekki aðgang, þarftu að stofnað aðgang.

Skref 2

Innskráð/ur á þinn aðgang á isnic.is, skrifar þú nafn lénsins sem þú vilt skrá í leitargluggann. Sé lénið laust, getur þú smellt á skrá lén og hafið skráningarferlið.

Skref 3

Lokaskref skráningar að greiða fyrsta árgjald léns. Hægt er að greiða árgjaldið með greiðslukorti eða með Aur. Athugið að hægt er að skrá og greiða fyrir fleiri en eitt lén í einu og hægt er að skrá lén til allt að 5 ára í senn.

Þegar lén hefur verið skráð er hægt að tengja það við vefsíðu og/eða tölvupóst með því að setja lénið upp á nafnaþjóna hjá hýsingaraðila eða með því að nota DNS Hýsingu ISNIC.

Hvernig kanna ég hvort lén er rétt uppsett?

Áður en kannað er hvort uppsetning er rétt þarf að vita nöfn tveggja nafnaþjóna sem þjóna léninu. Þjónustuaðili eða vistunaraðili lénsins lætur í té þessar upplýsingar. Hægt er að ganga úr skugga um hvort lén er rétt uppsett hjá vistunaraðila ÁÐUR en sótt er um lén á vef ISNIC.

Prófa má uppsetningu léns hjá vistunaraðila með því að velja "Prófa uppsetningu"" undir "Lén" á vef ISNIC. Ef vistunaraðili er ekki skráður hjá ISNIC, þarf að gefa upp nöfn (ekki IP tölur) nafnaþjóna vistunaraðila sem þegar vistar lénið.

Get ég sent skráningu í tölvupósti?

Nei, því miður, hvorki er tekið við skráningum né leiðréttingum á skráningum í tölvupósti. Nýskráning og leiðrétting á skráningu léns fer einungis fram á vef ISNIC og athugið að umsækjandi er beðinn um að skrá sig inn á vefinn, áður en ferli hefst.

Hvað þýðir það þegar talað er um að vista lén?

Vistun léns felur í sér að lénið er skilgreint í nafnaþjónum viðkomandi vistunaraðila. Vista má lén hjá internet þjónustuaðila eða fyrirtæki sem hefur fasta nettengingu og hefur tæknileg tök á að vista lén. Athugið að vistun á vef og/eða tölvupósti getur verið, en þarf ekki að vera, á sama stað og lénsvistun.

Get ég vistað lénið mitt á erlendum nafnaþjónum?

Já.

ISNIC gerir ekki greinarmun á innlendum og erlendum vistunaraðilum svo lengi sem tæknilegum kröfum um uppsetningu léna og uppsetningu nafnaþjóna á þeim er fullnægt. Menn ættu samt sem áður að ganga úr skugga um að skráning nafnaþjóna viðkomandi vistunaraðila hjá ISNIC sé í lagi og tengiliðir eru í raun starfsmenn vistunaraðilans.

Einnig er vert að benda á að ef lén er vistað á erlendum nafnaþjónum en notendur lénsins aðallega innlendir þurfa uppflettingar að fara um útlandatengingar (ásamt vefumferð ef vefur er einnig vistaður erlendis).

Hvað kostar að skrá lén?

Árgjaldið er 6.789 kr. en gefinn er afsláttur fyrir lén með séríslenskum stöfum samkvæmt gjaldskrá. Lénagjöld eru samkvæmt gjaldskrá ISNIC, hverju sinni.

ISNIC hýsir hvorki vefsíður né býður upp á tölvupóstþjónustu. Vistun léna og rekstur DNS þjóna fylgir til dæmis oft með í kaupum með vefhýsingu eða rekstri tölvupósts - strangt til tekið geta allir þessir þættir verið hýstir hjá ólíkum aðilum, en það er algengast að allt sé hýst og greitt í einu lagi.

DNS Hýsing ISNIC er fyrir þá sem þurfa eingöngu einfalda DNS uppsetningu fyrir lénið sitt eða þurfa áframsendingarþjónustu.

Hvernig endurnýja ég lén?

Skref 1

Skráðu þig inn á auðkenni rétthafa, tengiliðs rétthafa eða greiðanda.

Skref 2

Farðu á Mína síðu og smelltu á innkaupakörfuna undir flokknum Endurnýja við það lén sem þú vilt greiða fyrir.

Skref 3

Veldu greiðslumáta og smelltu á Greiða. Á greiðslusíðunni setur þú svo inn kortaupplýsingarnar og greiðir árgjald lénsins.

Hvað er sjálfvirk endurnýjun léns?

Rétthafi, tengiliður rétthafa og greiðandi geta skráð lén í sjálfvirka endurnýjun.

Sé lén skráð í sjálfvirka endurnýjun er árgjald léns skuldfært á skráð greiðslukort 45 dögum fyrir eindaga og lén endurnýjað á árs fresti á meðan kortið er gilt.

Hægt er að skrá lén í sjálfvirka endurnýjun með því að endurnýja eða nýskrá lén með því að greiða árgjald þess. Þegar er gengið frá greiðslu þarf að haka við „Greiða með greiðslukorti", „Vista kort" og „Skrá lén í sjálfvirka endurnýjun“, næst er smellt á greiða.

Einnig er hægt að skrá lén í sjálfvirka endurnýjun á „Mín síða “. Þar er smellt á takkann sem sést á myndinni hér að neðan til að skrá tiltekið lén í sjálfvirka endurnýjun.

Mikilvægt er að upplýsingar um lén í rétthafaskrá ISNIC (WHOIS) sem sett eru í sjálfvirka endurnýjun séu réttar, sérstaklega netföng tengiliða, þar sem kvittanir vegna greiðslu árgjalda slíkra léna eru einungis sendar í tölvupósti.

Hvernig sæki ég hreyfingalista og reikninga?

Hægt er að sækja hreyfingalista og út frá honum reikninga í gegnum isnic.is, innskráð á auðkenni greiðanda lénsins.

Skref 1: Innskráning.

Hægt er að skrá sig inn með Íslykli fyrirtækja. Sjá leiðbeiningar fyrir innskráningu.

Skref 2

Undir Mín síða smellirðu á Greiðslur og velur Reikningar í fellilistanum.

Skref 3

Veldu tímabil sem þú vilt sækja hreyfingar fyrir. Því næst smellir þú á Sækja til að sækja hreyfingalista fyrir það tiltekna auðkenni sem þú ert innskráð/ur á eða Sækja fyrir kt. til að sækja hreyfingalista fyrir öll þau auðkenni sem skráð eru á kennitöluna, ef að þau eru fleiri en eitt.

Skref 4

Opnaðu PDF skjalið sem sótt hefur verið og smelltu á bláletruð SR-númer reikninga til þess að opna þá á PDF formi.

Hvernig skrái ég mig inn?

Flettu léninu upp á forsíðu ISNIC til að sjá hverjir tengiliðir þess eru. Sé lykilorð týnt getur þú:

  1. Notað „týnt lykilorð“ til að nálgast nýtt lykilorð í tölvupóst.
  2. Vanti aðgang að netfangi er mögulegt að nota „týnt lykilorð“ með SMS valmöguleika til þess að setja nýtt lykilorð með skráðu farsímanúmeri.
  3. Ef tengiliður hefur kennitölu er hægt að skrá sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum í gegnum island.is sjá innskráning.
  4. Annars þarf að gera það skriflega, á þar til gerðu eyðublaði.

Ég virkjaði tveggja þátta innskráningu en týndi lyklinum, hvernig skrái ég mig inn?

Ef tengiliður er með kennitölu er auðveldast að skrá sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum í gegnum island.is.

Annars þarf að fylla út eyðublaðið "Breyta aðgangsupplýsingum tengiliðs" og því næst þarf ISNIC að sannreyna notandann og fyrir það er innheimt gjald (sjá gjaldskrá). Athugið að skráning tengiliðar þarf því að vera rétt svo þetta sé yfir höfuð hægt.

Get ég skráð lén með íslenskum stöfum?

Þann 1. júli 2004 var opnað fyrir skráningu á lénum með séríslenskum stöfum. Sótt er um þessi lén á sama hátt og önnur á vef ISNIC.

Fyrstu sex mánuðina, eða til 31. desember 2004, höfðu rétthafar léna án íslenskra stafa forgang að skráningu tilsvarandi léna með íslenskum stöfum. Sem dæmi um slíkt væri að rétthafi lénsins "sol.is" hefði, fram til 31. desember 2004, forgangsrétt á skráningu lénanna "sól.is" og "söl.is" á sama rétthafa (sömu kennitölu) og lénið "sol.is".

Þann 1. janúar 2005 féll allur slíkur forgangur úr gildi.

Athugið að lénum með séríslenskum stöfum (svokölluðum IDN lénum) er ávallt umbreytt í nöfn án slíkra stafa áður en þau eru skráð í DNS (þessari umbreytingu er lýst í RFC5490 , RFC5491 og RFC8753 ). Öll innri vinnsla með lénin eru á þessu formi. Það er misjafnt eftir hugbúnaði hvort IDN lén "virka" yfirleitt á netinu ef þau eru notuð beint án slíkrar umbreytingar.

Umræður um útfærslu innleiðingu séríslenskra stafa fóru fram á póstlista ISNIC um lénamál í október 2003.

Hvað kostar að skrá lén með íslenskum stöfum?

Þegar greitt er fyrir lén með íslenskum stöfum er athugað hvort rétthafi og greiðandi lénsins er skráður fyrir tilsvarandi léni án séríslenskra stafa (þ.e. hvort lénin eru skráð á sömu kennitölu). Með tilsvarandi er átt við lén sem til verður þegar séríslenskir stafir IDN lénsins eru umritaðir skv eftirfarandi töflu:

 á -> a    ó -> o    æ -> ae
 ð -> d    ú -> u    ö -> o
 é -> e    ý -> y
 í -> i    þ -> th

Ef lénið sem þannig er myndað úr léni með séríslenskum stöfum er skráð á sama rétthafa og greiðanda er veittur verulegur afsláttur af skráningargjaldi þess - sjá gjaldskrá.

Hvernig bý ég til netföng fyrir tölvupóst?

Vilji menn skilgreina netföng undir léni sínu þarf að vista lénið hjá hýsingaraðila sem getur vísað tölvupóstþjónustu lénsins til þess sem veitir léninu þjónustu (oft sami aðilinn). Þetta er gert með því að skilgreina MX færslur undir léninu (hjá hýsingaraðila þess) sem benda á póstþjóna þess sem sér um tölvupóst lénsins.

Einfalda uppsetningu á póstþjónustu fyrir lénið er í boði fyrir þá sem nýta sér DNS Hýsingu ISNIC. Sjá Hvar set ég inn DNS færslur?

Hvað er biðsvæði?

Notandi getur geymt lén á biðsvæði tímabundið meðan ekki er búið að finna vistun fyrir lénið, eða ef nafnaþjónar hafa ekki svarað fyrir lénið í langan tíma og hætta er á lokun þess. Á meðan lén er á biðsvæði er hvorki hægt að senda póst á lénið né fletta upp á vef þess. Til að setja lén á biðsvæði þarf að velja "Biðsvæði" þegar lén er skráð, eða það flutt.

Ekki þarf að greiða fyrir notkun á biðsvæði, og rétthafi getur hvenær sem er flutt lén af biðsvæði ISNIC og í virka vistun.

Hvað er áframsending?

Áframsending er þegar grunnslóð léns áframsendir þá sem fara á hana yfir á vefslóð annars léns.

Til þess að setja lén í áframsendingu þarf fyrst að flytja lénið á nafnaþjóna ISNIC, sjá Hvernig breyti ég um nafnaþjóna, þ.e. breyti vistun léns? Þar er hægt að smella á hýsingarmöguleika nefndan DNS Hýsing ISNIC. Virkja þarf áframsendinguna með því að smella á Áframsending á stilingarsíðu lénsins og slá inn gilda vefslóð í textareit merktur Vefslóð (https://...).

Dæmi um rétt skrifaða áfangastaði vefs:

  • http://www.isnic.is
  • https://www.isnic.is/is/faq

Þegar DNS sniðmát fyrir áframsendingu er notað er bætt við nauðsinlegum DNS færslum og þær færslur sem fyrir eru og trufla áframsendinguna eru fjarlægðar. All relevant DNS records are added and removed when using the DNS template to connect your domain to our forwarding service. DNS records connecting the domain to webservers will be removed if they will interfere with forwarding the domain.

Áframsendingarþjónustan höndlar ekki https og þurfa þeir sem vilja slíkt hafa samband við sinn hýsingaraðla.

Hvað þýðir að skráning léns sé vottuð af ISNIC?

Gefi rétthafi eða tengiliður upp kennitölu við skráningu léns, flettir ISNIC viðkomandi upp í þjóðskrá og setur nafn samkvæmt opinberum upplýsingum þaðan. Velji rétthafi eða tengiliður síðan að láta heimilisfang fylgja þjóðaskrá, verður heimilisfang í rétthafaskrá ISNIC sett eins og það er í þjóðskrá hverju sinni.

Lén sem stillt er þannig er merkt sérstaklega með "Skráning vottuð af ISNIC" í skráningarskírteini. Dæmi.

Hvernig kanna ég hvort nafnaþjónn er skráður hjá ISNIC?

Hægt er að kanna hvort nafnaþjónn er skráður hjá ISNIC með því að rita fullt nafn nafnaþjóns eða IP tölu hans við uppflettingu í rétthafaskrá (WHOIS gagnagrunn).

Sjá einnig: WHOIS leit

Hvernig skrái ég nafnaþjón hjá ISNIC?

Skráning nafnaþjóna fer fram á vef ISNIC. Sá sem skráir nafnaþjón þarf að vera þegar skráður sem tengiliður hjá ISNIC, þ.e. að hafa NIC-Auðkenni og lykilorð. Þegar NIC-Auðkenni og lykilorð eru fengin tengist viðkomandi vef ISNIC, gefur upp NIC-Auðkenni og lykilorð og velur "Nýskráning" undir Nafnaþjónakafla.

Athugið að nafnaþjónn þarf að fullnægja tæknilegum kröfum ISNIC um uppsetningu og NIC-Auðkenni tæknilegs tengiliðar þarf að vera handbært.

Mikilvægt er að tæknilegur tengiliður nafnaþjónsins sé hjá eigendum hans og hafi full tæknileg yfirráð fyrir þjóninum. Þessi tengiliður verður sjálfkrafa tengiliður vistunaraðila ("zone contact") allra léna sem hafa þennan þjón sem aðalnafnaþjón. Það ættu því ávallt að vera forráðamenn nafnaþjóna sem skrá þá hjá ISNIC og gefa þannig í skyn að hýsa megi ".is" lén á þessum nafnaþjónum.

Sjá einnig: Skrá nafnaþjón

Hvernig flyt ég hýsingu léns? (skipta um nafnaþjóna)

Tengiliður rétthafa, rétthafi og tæknilegur tengiliður léns geta flutt hýsingu léns með því að skipta um nafnaþjóna. Athugið að lén þarf að vera uppsett á nafnaþjóna hjá hýsingaraðila áður en hýsing léns er flutt yfir á nafnaþjóna.

Skref 1

Skráðu þig inn á auðkenni rétthafa, tengiliðs rétthafa eða tæknilegs tengiliðs á vef ISNIC.

Skref 2

Farðu í Mín síða, smelltu á skiptilykilinn undir flokknum Stjórnborð í lénatöflunni og smelltu á Flytja hjá Nafnaþjónar.

Skref 3

Nú sérðu Biðsvæði, DNS og Nafnaþjónar, þar velurðu Nafnaþjónar. Ef að hýsingaraðilinn þinn er skráður DNS þjónustuaðili hjá ISNIC, geturðu valið þá í fellilistanum fyrir vistunaraðila til að sækja rétta nafnaþjóna.

Ef að hýsingaraðilinn er ekki skráður sem DNS þjónustuaðili hjá ISNIC, geturðu ritað nafnaþjónanna inn í reitina að neðan (Aðalnafnaþjónn.. Nafnaþjónn 2 o.s.frv.). Smelltu á Áfram til að setja flutning léns í biðröð.

Ef uppsetning á nýjum nafnaþjónum er í lagi, fer beiðni um breytingu í biðröð og verður framkvæmd við næstu uppfærslu á DNS grunni ISNIC. Hægt er að prófa uppsetningu lénsins á nýjum nafnaþjónum áður en beðið er um flutning.

Athugið að flutningur léns á nafnaþjóna getur tekið allt að 20 mínútur hjá ISNIC, en það gæti tekið allt að 24 klukkustundir þar til að breytingin verði sýnileg alls staðar á internetinu.

Hvernig skrái ég tengilið hjá ISNIC?

Skráning tengiliða fer fram á vef ISNIC. Veljið Stofna aðgang undir kaflanum "Tengiliðir" og fyllið út upplýsingar sem um er beðið. Athugið að gefa þarf upp kennitölur ef viðkomandi tengiliður verður tengiliður rétthafa eða rétthafi léns.

Þegar skráningu er lokið er sendur tölvupóstur á uppgefið netfang með leiðbeiningum um hvernig staðfesta beri skráninguna (Það er, vilja viðkomandi til að vera skráður hjá ISNIC ásamt virkni netfangs viðkomandi).

Við staðfestingu er tengilið úthlutað NIC-Auðkenni sem síðan er hægt að nota við skráningu léna og nafnaþjóna, og sem notandanafn á vef ISNIC.

Hvernig skipti ég um greiðanda léns?

Til að breyta greiðanda á léni þarf fyrst að skrá viðtakanda sem tengilið og fá úthlutað NIC-auðkenni, ef greiðandinn er ekki nú þegar með NIC-auðkenni. Það er gert "hér"

Þegar búið er að staðfesta skráningu viðtakanda, þarf núverandi rétthafi eða tengiliður rétthafa að skrá sig inn á vef ISNIC, smella á "Skipta um tengiliði" undir léna fellilistanum. Velja lén úr lénalistanum, og rita inn nýja NIC-Auðkennið. Að lokum er smellt á "Áfram" til að vista breytinguna.

Sjá einnig: "Hvernig skipti ég um tengilið rétthafa léns og/eða aðra tengiliði?"

Hvað er tengiliður rétthafa?

Tengiliður rétthafa er sá aðili sem sér um samskipti við ISNIC vegna léna, og getur haft full yfirráð yfir viðkomandi léni. Tengiliður rétthafa getur breytt rétthafa léns (eða umskráð/framselt lénið), þó þarf rétthafi að samþykkja umskráningu ef hann er með gilt netfang skráð, flutt það, skráð nýjar upplýsingar og breytt tengiliðum þess. Allar þessar breytingar má gera á vef ISNIC.

Alla jafna er tengiliður rétthafa einfaldlega sá sami og rétthafi. Þó getur rétthafi léns skipað annan (t.d. þjónustuaðila) til þess að sjá um alla rafræna umsýslu lénsins hjá ISNIC. Í því tilfelli er eðlilegt að viðkomandi þjónustuaðili sé tengiliður rétthafa. Athugið þó, að tengiliður rétthafa hefur full rafræn yfirráð yfir léninu, og er því mikilvægt að fullkomið traust ríki milli rétthafa og þess sem skipaður er tengiliður rétthafa, og að sá hinn sami geri engar breytingar á skráningu lénsis nema að fyrir liggi örugg beiðni frá rétthafa lénsins.

Hvað er tæknilegur tengiliður?

Tæknilegur tengiliður er sá aðili sem sér um tæknimál er varða lénið. Tengiliður rétthafa getur einnig verið tæknilegur tengiliður.

Hvað er greiðandi?

Greiðandi er sá sem sér um greiðslur léngjalda til ISNIC. Hlutverk greiðanda er að taka við tilkynningum/reikningum vegna léngjalda og ber hann jafnframt ábyrgð á greiðslu þeirra. Við skráningu á greiðanda er nafn hans skráð eins og það er í þjóðskrá hverju sinni. Ennfremur getur ISNIC uppfært aðrar upplýsingar um greiðanda samkvæmt þjóðskrá þar sem það á við. Slík uppfærsla er þó eingöngu framkvæmd í þeim tilfellum er bréf, send til greiðanda, komast ekki til skila og eru endursend til ISNIC. Í flestum tilfellum er rétthafi einnig greiðandi.

Hvað er tengiliður vistunaraðila (zone-contact)?

Sá sem ber ábyrgð á nafnaþjónum viðkomandi léns. Athugið að tengiliður vegna nafnaþjóna (tengiliður vistunaraðila eða zone-contact) er settur sjálfvirkt fyrir lénið út frá nafnaþjónum þess, og breytt sjálfvirkt ef lénið er flutt til nýs vistunaraðila (á aðra nafnaþjóna).

Er hægt að sleppa birtingu upplýsinga um lénið mitt úr rétthafaskrá ISNIC?

Upplýsingar um rétthafa og tengiliði sem eru einstaklingar eru ekki birtar utan þess að land er ávallt birt. Rétthafar og tengiliðir sem eru einstaklingar geta farið fram á að upplýsingar um sig verði birtar að fullu þegar lénum og tengiliðum er flett upp í rétthafaskrá ISNIC. Þetta má gera með því að breyta "Birta í rétthafaskrá" í "Birta" undir liðnum "Mínar stillingar" á vef ISNIC. Athugið að þetta gildir einungis um einstaklinga, upplýsingar um aðrar tegundir tengiliða (fyrirtæki og stofnanir) eru ávallt birtar.
Athugið þó tilvik í Afhending faldra upplýsinga úr rétthafaskrá

Hvernig eyði ég tengilið úr rétthafaskrá ISNIC?

Ónotuðum tengiliðum er sjálfvirk eytt. Ef tengiliður er ónotaður er hægt að merkja hann "útrunnin" við það hverfur hann úr rétthafaskrá ISNIC, verður honum þá sjálfkrafa eytt í kjölfarið. Hægt er að virkja tengilið aftur með því að skrá sig inn á hann áður en honum er eytt. Sjá takkann Eyða tengilið á síðunni "Mínar stillingar" á vef ISNIC.

Hvað er DNSSEC?

DNSSEC er viðbót við DNS kerfið sem gerir það kleift að signa (rafrænt árita) DNS færslur með lykli (DNSKEY), þannig að biðlarar geti sannreynt að svör komi frá réttum nafnaþjóni og séu hvorki fölsuð né brengluð fyrir mistök. Fjallað er um DNSSEC í RFC4033 .

Hvernig virkja ég DNSSEC fyrir mitt lén?

Fyrst þarf að signa (árita) færslur í léninu sem um ræðir. Hægt er að notast við viðbætur við DNS hugbúnað á borð við BIND eða nota hugbúnað sem er sérhannaður halda utan um DNSSEC áritun léna eingöngu.

Þegar búið er að signa lénið þarf að senda DS færslur fyrir lyklanna til ISNIC, til birtingar í ".is" zone skránni. Það er gert hér "Breyta DS". Velja þarf lénið sem um ræðir og velja "Breyta DS færslum".

Hvernig athuga ég hvort nafnaþjónar gefa mér sannreynd svör?

Allir nafnaþjónar sem notaðir eru til þess að fletta upp upplýsingum um lén á netinu ættu að sannreyna fengin svör (ef þau eru á annað borð sannreynanleg, þ.e. að lénið sem spurt er um, noti DNSSEC til að að auka öryggi sitt). Til þess að prófa hvort þínir nafnaþjónar (þ.e. þeir sem vafrinn þinn notar til að fletta upp almennum lénum á netinu) sannreyna upplýsingar áður en þeir svara þér, geturðu prófað að smella á slóðirnar hér að neðan:

Hvernig flyt ég DNSSEC signað lén á nýja nafnaþjóna?

Þegar lén, signað með DNSSEC er flutt milli nafnaþjóna þarf að sýna sérstaka varkárni. DS færslur sem birtar eru í ".is" zone benda á DNSKEY færslur í léninu sem um ræðir og ef þær eru ekki til staðar á nýju nafnaþjónunum munu nafnaþjónar sem stilltir eru til þess að sannreyna DNSSEC lén skila villu ef reynt er að fletta upp færslum lénsins.

Til að flytja DNSSEC-signað lén er hægt að fylgja þessum skrefum (gert er ráð fyrir að ekki sé aðgangur að lykli sem notaður var til að signa lén á gömlu nafnaþjónum. Ef hafður er aðgangur að lyklinum er hann einfaldlega fluttur á nýju nafnaþjónanna með innihaldi lénsins og haldið áfram þar sem frá var horfið):

  1. Lén er sett upp á nýju nafnaþjónunum og signað með nýjum lykli. Flytja þarf DNSKEY færslur frá gömlu nafnaþjónunum yfir á þá nýju.
  2. Flytja DNSKEY færslu nýja lykilsins í lénið á gömlu nafnaþjónunum
  3. Setja inn DS færslu til ISNIC fyrir nýja KSK lykilinn
  4. Bíða í minnst sólahring. Þetta tryggir að allir nafnaþjónar sjái nýju DNSKEY færsluna og nýju DS færsluna
  5. Flytja lénið hjá ISNIC yfir á nýju nafnaþjónanna
  6. Eftir sólahring má eyða út léninu á gömlu nafnaþjónunum, eyða gömlum DNSKEY færslum á nýju nafnaþjónunum og svo eyða DS færslum sem bentu á gömlu lyklanna

Hvernig skipti ég um nafn á tengilið?

Almennt er ekki hægt að skipta um nafn á tengilið nema að kennitala hafi verið gefinn upp við skráningu. Ef kennitala er skráð á tengiliðinn (fyrirtæki eða einstakling) og nafni er breytt í þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá þá er nafni viðkomandi tengiliðs breytt sjálfvirkt í rétthafaskrá ISNIC. Eina leiðin til að breyta nafni tengiliðar með kennitölu er að breyta því í þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá.

Hafi kennitala ekki verið gefinn upp við skráningu verður að skrá nýjan tengilið með nýju nafni. Síðan þarf að tengjast Mín síða á gamla tengiliðnum, velja lén og smella á "Skipta um rétthafa" til að skipta um rétthafa (þ.e. rétthafi hefur fengið nýtt nafn) eða á "Skipta um tengiliði" ef skipta þarf um aðra tengiliði. Setjið NIC-auðkenni tengiliðs með nýja nafninu í stað þess gamla.

Hvernig get ég látið tiltekin aðila öðlast rétt til léns sem ég er skráður fyrir?

Sjá: Hvernig skipti ég um rétthafa?

Munið að breyta tengiliðum lénsins eins og við á miðað við nýjan rétthafa.

Hvernig skipti ég um greiðslukort?

Til að skipta um greiðslukort í sjálfvirkri endurnýjun á lénum þarf fyrst að bæta við nýja kortinu hér eða greiða árgjald léns með nýja kortinu til að vista kortaupplýsingarnar.

Skref 1

Skráðu þig inn á auðkenni rétthafa, tengiliðs rétthafa eða greiðanda.

Skref 2a

Bæta við nýju korti hér

Skref 2b

Greiða lén úr lénatöflunni á Mín síða. Þar velurðu lén sem þú vilt endurnýja og smellir á körfuna undir flokknum Endurnýja fyrir það lén. Ef að reikningur hefur verið gefinn út fyrir léni er tilvalið að nota tækifærið og greiða hann, eða það lén sem er með eindaga næst. Veldu „Skrá nýtt greiðslukort“ og smelltu á Greiða. Þá ferðu inn á greiðslusíðu Rapyd þar sem þú getur sett inn kortaupplýsingarnar og greitt árgjald lénsins. Þegar því er lokið eru kortaupplýsingarnar vistaðar í kerfið okkar.

Skref 3

Ef aðeins er um eitt lén að ræða er þessi aðgerð óþörf

Nú geturðu farið aftur á Mín síða, smellt á Greiðslur og valið Greiðslukort. Þar smellirðu á Skipta um kort, valið gamla kortið og nýja kortið í fellilistunum og skipt þannig um greiðslukort á öllum þeim lénum sem eru skráð í sjálfvirka endurnýjun.

Í lénatöflunni á Mín síða er hægt að haka við að skrá lén í sjálfvirka endurnýjun ef þau eru það ekki nú þegar.

Hvernig get ég breytt upplýsingum í WHOIS gagnagrunni (rétthafaskrá) - t.d. skipt um netfang eða tengilið léns?

Öllum skráningarupplýsingum um lén er hægt að breyta á vef ISNIC.

Tengiliðir breyta upplýsingum um sjálfa sig og eigin lén með því að skrá sig inn á vef ISNIC, gefa upp NIC-Auðkenni og lykilorð og velja "Mín síða". Þá kemur upp síða með lista yfir lén og nafnaþjóna sem þú hefur yfirráð yfir. "Mínar stillingar" eru notaðar til að breyta eigin skráningu, t.d. netfangi, heimilisfangi og símanúmeri. Ef innskráður notandi er einnig Rétthafi, breytist lénaskráning einnig.

Sé tengiliður rétthafa eða rétthafi ekki til staðar til að breyta upplýsingum um tengiliði léns, getur rétthafi sent beiðni um breytingu á tengilið rétthafa á viðeigandi eyðublaði með undirskrift forráðamanns viðkomandi fyrirtækis/félags.

Nýr tengiliður rétthafa eða rétthafi sér síðan um að gera breytingar á rétthafaskrá um vef ISNIC.

Hvernig get ég hætt að vera tengiliður ákveðins léns?

Tengiliðir (greiðandi, tæknilegur tengiliður og tengiliður rétthafa) geta afskráð sig sem tengiliðir ákveðinna léna. Tengiliður rétthafa lénsins er þá settur í stað tæknilegs tengiliðs, rétthafi lénsins er settur í stað greiðanda og tengiliðs rétthafa .

Tengiliður hættir með því að skrá sig inn á vef ISNIC, gefa upp eigið NIC-Auðkenni, lykilorð og velur „Mín síða“ ("Mín síða"). Síðan velur tengiliður ("Hætta sem tengiliður") úr léna fellilista. Þá kemur upp m.a. listi yfir lén í umsjón viðkomandi. Veldu lén sem þú vilt ekki vera tengdur og smelltu á "Áfram".

Hvað kostar að láta flytja lén?

Flutningur er án endurgjalds og tengiliðir framkvæma flutning sjálfir á vef ISNIC.

Hvernig segi ég léni upp?

Tengiliður segir léni upp (afskráir það) með því að tengjast Mín síða, velja Segja upp léni undir fellilistanum lén. Velja lénið sem segja á upp og smella á "Áfram". ISNIC óskar staðfestingar á uppsögn með því að senda staðfestingarbeiðni í tölvupósti til rétthafa lénsins. Ef rétthafi er ekki virkur tengiliður með staðfest netfang er staðfestingarbeiðni þess í stað send á tengilið rétthafa lénsins. Þegar breytingin hefur verið staðfest, er léni eytt úr rétthafaskrá (afskráð) og er laust til skráningar á ný. Þegar lén er afskráð falla niður reikningar sem kunna að hafa verið gefnir út vegna endurnýjunar þess.

Sé skráning léns ekki endurnýjuð (þ.e. fyrirframgreitt árgjald léns ekki greitt) fellur skráning sjálfkrafa niður.

Annar aðili hefur skráð lén sem ég tel mig hafa meiri rétt á. Hvernig ber ég mig að?

ISNIC hefur ekki úrskurðarvald í slíkum málum. Ef um er að ræða deilur milli tveggja aðila um hvor hafi meiri rétt á að skrá og nota ákveðið lén verður að úrskurða um slíkt af þartilbærum yfirvöldum (dómstólum eða samkeppnisyfirvöldum). Í einstaka tilfellum geta þó slík mál fallið undir Úrskurðarnefnd léna.

Mikilvægt er að kröfugerð í slíkum málum sé sett fram þannig að tæknilega sé hægt að framfylgja úrskurði.

Gera verður þá kröfu að sá sem hefur skráð lén sem þú telur þig eiga rétt á umskrái lénið á þig (þ.e. geri þig að nýjum rétthafa, og breyti tengiliðum lénsins til samræmis). Athugið að ekki nægir að gera þá kröfu að hann afskrái lénið, því að með því móti verður það laust til skráningar fyrir hvern sem er og engin trygging fyrir að það endi í þínum höndum.

Öruggast er að fara fram á læsingu hins umdeilda léns um leið og slík ágreininsmál eru tekinn til meðferðar. Með því móti er lénið sjálfvirkt skráð á þig ef rétthafi þess ákveður að afskrá það áður en úrskurður er kveðinn upp, eða er skipað að afskrá lénið með úrskurði. Sjá um læsingu léna.

Hvað gerir skiptastjóri þrotabús við lén búsins?

Lén gjaldþrota aðila eru verðmæti sem skiptastjóri þarf að ráðstafa eins og öðrum verðmætum viðkomandi þrotabús. Til þess þarf skiptastjóri að byrja á því að skrá sjálfan sig sem tengilið hjá ISNIC hafi hann ekki gert það þegar. Sjá "Tengiliðir->Nýskráning" á vef ISNIC. Því næst biður skiptastjóri núverandi tengilið rétthafans að setja NIC-auðkenni skiptastjórans inn sem tengilið rétthafa allra léna í eigu þrotabúsins.

Náist hins vegar ekki í núverandi tengilið rétthafa, getur skiptastjóri sent ISNIC beiðni um slíka breytingu (sjá eyðublaðið "Breyta aðgangsupplýsingum tengiliðs"). Með slíkri beiðni þarf að fylgja staðfesting á gjaldþroti aðilans, ásamt staðfestingu á skipun skiptastjóra. (Ath að nota Íslykil)

Þegar skiptastjóri hefur verið gerður að tengilið rétthafa léna búsins getur hann skráð sig inn á vef ISNIC (undir "Tengiliðir->Innskráning") og ráðstafað þeim að vild, þ.e.a.s. skipt um rétthafa, breytt skráningunni eða sagt þeim upp.

Hvað er lén?

Lén er íslenska orðið yfir enska orðið "domain". Orðið var notað um yfirráðasvæði lénsherra fyrr á öldum en hefur öðlast nýja merkingu í nútímanum þar sem það er notað yfir umdæmi á Internetinu.

Lén á Internetinu eru notuð til að gefa netþjónum, vefþjónum, tölvupóstþjónum o.þ.h. eftirminnileg og þjál nöfn, sem henta í ræðu og riti.

       .
      /|\
     / | \
    /  |  \
   /   |   \
  /    |    \
.com  .dk  .is
             /\
            /  \
           /    \
       .isnic   .hi
         /\       \
        /  \       \
      www  ftp    .rhi
                    /\
                   /  \
                  /    \
               katla  hekla

Dæmi um lén: isnic.is, katla.rhi.hi.is

Lénasskipulag Internetsins hefur trjástrúktúr. Rót trésins heitir "." og er .is meðal svokallaðra höfuðléna sem tengjast rótinni beint. ISNIC heldur utan um öll lén sem liggja beint undir ".is", en aðrir (erlendir) aðilar sjá um aðrar greinar trésins, t.d. nöfnin sem liggja undir .com eða .dk.

Sá sem hefur yfirráð yfir léni, hefur val um hvort hann stýrir beint öllum undirlénum eða deilir ábyrgðinni (e. delegate) til þriðja aðila. ISNIC vísar þannig rekstri léna undir ".is" til rétthafa hverju sinni.

Svo dæmi sé tekið, þá hefur ISNIC hefur engin afskipti af því hvaða nöfn eru til undir ".hi.is", og tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að stakar deildir innan Háskólans (til dæmis Reiknistofnun Háskólans, "rhi.hi.is") hafi sjálfstæði þegar kemur að rekstur og skipulagi sinna undirléna.


Hvaða reglur gilda um lén?

Meginreglan við skráningu léna er "fyrstur-kemur-fyrstur-fær", með fyrirvara um að reglum ISNIC um skráningu sé fylgt.

Af hverju eru reglur um skráningu .is léna?

.is er landslén Íslendinga og um slík lén gilda reglur sem skráningaraðilar setja, hver í sínu landi, og taka sérstaklega tillit til óska Internet samfélagsins.

Hvar fæ ég upplýsingar um skráð lén?

Á aðalsíðu vefs ISNIC. Kallað er upp "Whois uppfletting", lénnafn ásamt ".is" endingu er ritað í glugga og síðan slegið á "Áfram". Kanna má hvernig skráning léns lítur út með því að slá inn þekkt lénnafn, t.d. isnic.is

Hvar fer umræða um lénamál á Íslandi fram?

Umræða og upplýsingaveita um lénamál á Íslandi er að finna á póstlista domain@lists.isnic.is.

Upplýsingar um hvernig á að skrá sig á listann og afskrá sig ef svo ber undir er að finna á vefslóð lists.isnic.is/mailman/listinfo/domain .

Hve mörg lén get ég skráð?

Ekki er takmörkun er á fjölda léna sem rétthafi getur verið skráður fyrir.

Hvað verður um lén sem er lokað (merkt óvirkt í rétthafaskrá) hjá ISNIC?

Hafi léni verið lokað þá er það merkt óvirkt í rétthafaskrá ISNIC. Lokað lén er ekki nothæft og verður ekki fyrr en það hefur verið opnað aftur eða það afmáð með öllu, og skráð á ný.

Fjallað er um heimildir ISNIC til lokunnar léna í 21. gr. reglna ISNIC og í "10. gr. laga um íslensk landshöfuðlén". Í 22. gr reglna ISNIC er fjallað um afskráningu léna.

Hvenær verður lén laust til skráningar á ný?

ISNIC getur ekki fullyrt neitt um hvenær lén sem ekki er endurnýjað verður laust til skráningar aftur. Léni, sem ekki er greitt áður en það rennur út, er lokað. Lokun er framkvæmd kl 13:00 UTC daginn eftir að lén rennur úr.

Lokað lén er ekki laust til skráningar. Rétthafi hefur nú 30 daga til að ganga frá greiðslu skráningargjalda og geri hann það er lénið endurnýjað og opnað aftur. Athugið að rétthafi getur einnig eytt léninu og verður það þá laust til skráningar strax.

Séu skráningargjöld ógreidd að þessum 30 dögum liðnum, er léninu eytt klukkan 13:00 UTC daginn eftir.

Lokar ISNIC lénum á grundvelli notkunar þeirra?

Lokun léns á grundvelli notkunar þess (til dæmis vegna innihalds vefsíðu eða tölvupósts o.s.frv.) má krefjast á grundvelli dómsúrskurðar frá íslenskum dómstólum, eða skipunar frá þar til bæru íslensku stjórnvaldi (t.d. lögreglu). ISNIC getur hins vegar ákveðið að eyða léni með tilvísun til 10. greinar, 2. kafla í skráningarreglum ".is"-léna.

ISNIC verður ekki gert ábyrgt fyrir notkun rétthafa á léni sínu. Hlutverk ISNIC er að sjá til þess að DNS þjónusta við .is lén sé örugg og skilvirk, og að skráning .is léna sé með þeim hætti að ekki fari á milli mála hver rétthafinn er.

Að öðru leiti lokar ISNIC lénum af þremur ástæðum:

  1. séu lénagjöld ekki greidd,
  2. ef tæknileg uppsetning léns á nafnþjónum fullnægir ekki kröfu um uppsetningu í lengri tíma,
  3. ef ISNIC telur skráningu léns (s.s. nafn rétthafa og heimilisfang) ófullnægjandi.

Athugið að ISNIC ákveður einhliða hvað teljist fullnægjandi skráning og hvað ekki. Eftir að léni hefur verið lokað vegna ófullnægjandi skráningar áskilur ISNIC sér rétt til að leiða hjá sér frekari tilraunir til að staðfesta skráningu í rétthafaskrá.

Hvað gerist ef lén uppfyllir ekki tæknilegar kröfur?

Komi fram við mánaðarlega könnun að lén uppfylli ekki tæknilegar uppsetningarkröfur, er eftirfarandi ferli fylgt:

  1. Skilaboð þar að lútandi eru send vikulega með tölvupósti til tengiliða. Fyrst tengilið vistunaraðila, síðan eru tæknilegum tengilið bætt við því næst tengilið rétthafa. Að lokum er rétthafa svo einnig bætt við.
  2. Sé ástandið viðvarandi, samfellt í 8 vikur, verður léni lokað: það merkt óvirkt í rétthafaskrá og fjarlægt úr DNS zone skrám ".is".
  3. Eftir að lén hefur verið óvirkjað er ástand þess kannað daglega og það virkjað ef uppsetning hefur verið lagfærð.
  4. Eftir aðra 30 daga er lénið sjálfvirkt flutt á biðsvæði ISNIC (skráningu nafnaþjóna fyrir lénið breytt).

Ef uppsetning er lagfærð, áður lén flyst á biðsvæði, þarf ekkert frekar að aðhafast til að nýta lénið.

Ef uppsetning er hinsvegar lagfærð eftir að lén er komið á biðsvæði, þá þarf tengiliður að skrá sig inn og nota vefkerfi ISNIC til að flytja lénið af biðsvæði yfir á rétta nafnaþjóna.

Hvað eru höfuðlén?

Höfuðlén eru efsti hluti lénakerfisins og skiptast gróflega í þrennt, almenn höfuðlén: .com, .edu, .net o.s.frv., landslén: .is, .dk, .us, .jp o.s.frv. og sérstök lén: .arpa. Öll lén eru síðan skilgreind undir einhverju þessara höfuðléna.

Hvað er rótarlén?

Rótarlén er fyrsta skref lénakerfis til að tengja saman nafn og IP tölu. Tölvukerfi ræða við nafnaþjóna, sem innihalda upplýsingar um rótarnafnaþjóna heimsins (t.d. K.ROOT-SERVERS.NET sem inniheldur .is lénið) eða sinn "næsta" nafnaþjón.

Rótarlénið er skrifað "." og táknar þannig endingu, sem oftast er falin en kæmi aftast á hverju nafni, þannig er framsetning veffangs t.d. www.isnic.is rétt skrifuð www.isnic.is. (með punkti fyrir aftan, sem táknar rótarlénið).

Hvað er undirlén?

Rétthafi léns getur skilgreint ótakmarkaðan fjölda undirléna undir léni sínu, þ.e. eigi maður lén "isnic.is" getur hann skilgreint hvaða lén sem er undir því, þ.e. starf.isnic.is, reglur.isnic.is o.s.frv. Oft notað þannig að fyrirtæki skráir vöru og þjónustu sína sem undirlén undir léni fyrirtækisins.

Hver er munurinn á .is og .com, .net og .org?

Höfuðlén geta verið almenn: .com, .net, .org og allir í heiminum geta sótt um þau. Um þessi almennu höfuðlén gilda engar reglur, hvorki um skráningu né uppsetningu á nafnaþjónum. Þá eru til tveggja stafa landslén sem vísa í nafn hvers lands fyrir sig. Hvert land setur reglur fyrir sitt landslén og þannig voru reglur fyrir .is, m.a settar með hliðsjón af reglum nágrannalanda okkar.

Af hverju eru lénin com.is, net.is, org.is, edu.is, gov.is og int.is frátekinn?

Þegar landslénin (.is, .dk, .uk o.s.frv.) voru upphaflega stofnuð völdu stjórnendur sumra þeirra að skipta þeim upp á sama hátt og almennu lénunum var skipt. Menn stofnuðu t.d. com.au, net.au o.s.frv. og skráðu síðan lén í viðkomandi löndum þar undir. Engin lén voru skráð beint undir viðkomandi landslénum. Nokkur landslén halda ennþá í þessa skiptingu, þótt mörg þeirra hafi einnig leyft skráningar beint undir landsléninu.

Þau landslén sem leyfa skráningar beint undir höfuðléninu (þ.m.t. .is) fara langflest þá leið að taka frá nöfn almennu höfuðlénanna (.com.xx, .net.xx, .org.xx, .edu.xx og .int.xx) til að koma í veg fyrir rugling (tilvist þessara undirléna bendir til að landsléninu sé skipt upp á þennan hátt), og, ekki síður, til að hafa möguleika á að nýta þessi nöfn síðar ef þörf til þess kæmi upp.

Þess má geta að tilsvarandi lén eru frátekin í öllum nágrannalöndum okkar, m.a. undir (.dk, .no, .fi og .se). Af þjóðum sem nota ofangreinda skiptingu má nefna .au (Ástralía), .nz (Nýja Sjáland), .cn (Kína) og .mx (Mexíkó), ásamt mörgum öðrum.

Hvað er umboðsmaður aðila sem skrá lén?

Umboðsmaður er yfirleitt jafnframt tengiliður rétthafa léns, skipaður (af rétthafa) til að sjá um umsýslu lénsins fyrir hönd rétthafans.

Hvernig fæ ég fyrirtæki mitt skráð á lista yfir þjónustuaðila ISNIC?

Fyrirtæki sem hýsa lén fyrir viðskiptavini ISNIC og fullnægja ákveðnum skilyrðum geta gert þjónustusamning við ISNIC. Með slíkum samningi skuldbindur þjónustuaðili sig að:

  1. Vista lén samkvæmt þeim tæknilegu kröfum sem ISNIC setur hverju sinni fyrir lén sem skráð eru undir ".is."
  2. Bæta án tafar úr tæknilegum annmörkum við uppsetningu nafnaþjóna og léna komi slíkt upp eftir upprunalega skráningu.
  3. Verða fljótt og örugglega við beiðnum ISNIC um að fjarlægja lén sem flutt hafa verið í vistun annars staðar.
  4. Að tryggja rekstaröryggi og aðgengi nafnaþjóna sinna.

Þjónustuaðili fær eftirfarandi:

  1. Skráningu á lista yfir þjónustuaðila á www.isnic.is. Á þennan lista bendir starfsfólk ISNIC notendum sem leita sér að vistunaraðila.
  2. Nafn þjónustuaðila kemur fram á flettilista við prófun og nýskráningu léna.
  3. Mánaðarlegan tölvupóst með lista yfir lén í vistun hjá þjónustuaðila þar sem fram kemur hver er rétthafi, og hver staða léns er (virkt eða lokað og þá hvers vegna).
  4. Þjónustuaðili getur lokað léni hjá ISNIC (hætt þjónustu við lénið) t.d. ef rétthafi stendur ekki í skilum.
  5. Aðgangur að fjöldaflutningi léna milli nafnaþjóna í einu ferli.
  6. Aðgangur að mælingum á svartíma og stöðu skráðra nafnaþjóna sinna.

Hvað er skráður þjónustuaðili?

Skráður þjónustuaðili hefur gert samning við ISNIC sjá Hvernig fæ ég fyrirtæki mitt skráð á lista yfir þjónustuaðila ISNIC? og er í kjölfarið, að uppfylltum skilyrðum, skráður á lista yfir skráða þjónustuaðila og fær þjónustuaðila aðgang á síðu ISNIC.

ATH: Ekki þarf að vera skráður þjónustuaðili til að skrá nafnaþjóna. Sjá Hvernig skrái ég nafnaþjón hjá ISNIC?.

Hverju breytir það ef nafnaþjónar sem lén mitt er á virka ekki?

Þá er þjónusta sú sem skilgreind er fyrir lénið, s.s. vefur og tölvupóstur, ekki aðgengilegt netinu í heild og því tilgangslaust að skilgreina tilvísanir léns í höfuðléni.

Hvað er DNS?

Skammstöfunin DNS stendur fyrir Domain Name System, eða nafnakerfi á íslensku. Kerfið er skilgreint í RFC1034 og RFC1035 .

Hvað er WHOIS gagnagrunnur (rétthafaskrá)?

WHOIS gagnagrunnur er rétthafaskrá fyrir ".is" lénin. Í WHOIS gagnagrunn (rétthafaskrá) eru skráðar upplýsingar um lén og tengiliði þess.

Af hverju er lokað á uppflettingar frá mér í rétthafaskrá?

ISNIC reynir að lágmarka hættu á misnotkun upplýsinga í rétthafaskrá með því að takmarka fjölda uppflettinga frá sama aðila á hverjum tíma. Þessi takmörkun gildir bæði um WHOIS uppflettingar og uppflettingar um vef ISNIC. Takmörkun er sjálfvirkt aflétt.

Sjá einnig:

Hvað er NIC-Auðkenni?

NIC stendur fyrir Network Information Center. NIC-Auðkenni er gagnagrunnslykill í rétthafaskrá (WHOIS gagnagrunni), og notað sem notandanafn við lénaskráningar hjá ISNIC.

Þegar sótt er um lén eru skráðir svokallaðir tengiliðir fyrir lénið til að auðvelda samskipti forráðamanna og greiðenda léna við rétthafaskrá ISNIC. Þessir tengiliðir fá úthlutað NIC-Auðkenni sem er skráð með léninu í rétthafaskrá ISNIC. Virkt NIC-Auðkenni veitir viðskiptavini ISNIC aðgang að upplýsingum í rétthafaskrá (WHOIS grunni) eins og t.d. heimilisfangi, símanúmeri og netfangi, en til að svo megi vera þarf að virkja eða staðfesta viðkomandi NIC-Auðkenni.

Hvernig stilli ég tilkynningar?

Skref 1

Skráðu þig inn á þitt auðkenni á isnic.is.

Skref 2

Farðu í Mínar stillingar og veldu Tilkynningar.

Skref 3

Smellið á

Hvernig get ég staðfest skráningu tengiliðar og virkjað NIC-Auðkenni?

Mikilvægt er að rétt netföng tengiliða séu skráð til að tölvupóstur frá ISNIC komist örugglega til skila til forrráðamanna léns. Vegna þessa er sendur póstur á netfang nýskráðs tengiliðar með upplýsingum um hvaða NIC-Auðkenni tengiliður fékk úthlutað. Viðkomandi er beðin um að staðfesta netfang sitt og skráningu í rétthafaskrá.

Hafir þú af einhverjum ástæðum eytt póstinum sem innihélt staðfestinguna getur þú einnig staðfest netfang og vilja til skráningar með því að velja þér lykilorð. Þú getur fengið sendan nýjan póst hérna með því að slá inn NIC auðkenni þitt og smella á "Áfram". Innan fimmtán mínútna mun berast póstur á það netfang sem skráð er með NIC-Auðkenninu þar sem lykilorð er endursett. Við endursetingu og staðfestingu, slærð þú inn NIC-Auðkennið og velur þér lykilorð. Að lokum smellir þú á "Áfram" og þá er skráning staðfest og NIC-Auðkennið þitt orðið virkt.

Hvað er nafnaþjónn?

Nafnaþjónn er sá netþjónn (tölva ásamt viðeigandi hugbúnaði) sem kemur til með að vista lénið. Lágmark er að tilgreina tvo nafnaþjóna fyrir lén, "master" og "slave". Með þessu er unnt að sækja upplýsingar um lén þó annar nafnaþjónninn hætti tímabundið að virka eða bili.

Hvað er zone transfer (AXFR)?

Flutningur (afritun) á öllum upplýsingum um lén frá einum nafnaþjóni til annars.

"Zone Transfer" er stöðluð aðferð til að tryggja að tveir nafnaþjónar hafi sömu upplýsingar um tiltekið lén og geti þar með veitt sömu þjónustu og gefið sömu svör við uppflettingum.

Hvað er TTL (Time To Live)?

TTL stendur fyrir "Time To Live" og segir til um líftíma hverrar færslu í skyndiminni endurkvæmra nafnaþjóna.

Hærra TTL dreifir álagi og eykur þar með afköst og áreiðanleika DNS kerfisins. Því lengur sem hægt er að vista svör á nafnaselsþjónum (e. caching resolver) og öðrum millikerfum sem eru nær endanotandanum, því meir sparast netumferð og svartími batnar.

Á móti kemur, að hærra TTL veldur því að það tekur lengri tíma fyrir breytingar á léninu að verða sýnilegar öllum. Breyting verður ekki sýnileg fyrr en TTL eldri gagna rennur út og millikerfi leita eftir nýjum upplýsingum.

Hvað eru NS færslur?

Það eru færslur í hverju léni sem segja til um hvaða nafnaþjónar svara fyrir það lén. TTL gildi NS færsla ".is" léna má ekki vera lægra en 86400 sek, eða 1 sólarhringur.

Af hverju eru gerðar kröfur um lágmarks-TTL NS færsla?

ISNIC gerir einungis kröfur á TTL gildi NS færsla ekki annarra færsla lénsins. Ef til stendur að færa .IS lén milli nafnaþjóna má ávallt færa TTL á NS færslum niður fyrirfram, svo lengi sem það er aftur fært í lágmark þegar flutningi er lokið.

Tímalengd TTL sviðs NS færsla hefur áhrif á álag á nafnaþjóna yfirléns, þ.e. TTL gildi NS færsla léna undir .IS hefur bein áhrif á uppflettiálag nafnaþjóna .IS, og því eru settar um þetta ákveðnar kröfur -- athugið að þetta á einungis um TTL svið NS færsla, ekki annarra færsla lénsins.

Á síðari árum hefur mönnum orðið ljóst að gera þarf ákveðnar lágmarks kröfur um TTL á NS færslum til að tempra álag á nafnaþjóna höfuðléna. Endalaust má deila um hverjar þessar kröfur skulu vera, m.a. má benda á að í RFC1912 stendur:

"Popular documentation like [RFC1033 ] recommended a day for the
minimum TTL, which is now considered too low except for zones with
data that vary regularly.  Once a DNS stabilizes, values on the order
of 3 or more days are recommended.  It is also recommended that you
individually override the TTL on certain RRs which are often
referenced and don't often change to have very large values (1-2
weeks).  Good examples of this are the MX, A, and PTR records of your
mail host(s), the NS records of your zone, and the A records of your
nameservers."

og í RFC1030 stendur:

"Most host information does not change much over long time periods.  A
good way to set up your TTLs would be to set them at a high value,
and then lower the value if you know a change will be coming soon.
You might set most TTLs to anywhere between a day (86400) and a week
(604800).  Then, if you know some data will be changing in the near
future, set the TTL for that RR down to a lower value (an hour to a
day) until the change takes place, and then put it back up to its
previous value."

Rannsókn um DNS afköst kemst að eftirfarandi niðurstöðu:

"It is not a good idea to make the TTL values low on NS records, or
for A records for name servers. Doing so would increase the load on
the root and [g]TLD servers by about factor of five and significantly
harm DNS scalability."

úr DNS Performance and the Effectiveness of Caching eftir Naeyeon Jung, Emil Sit, Hari Balakrishnana and Robert Morris ACM Transactions on Networking, Vol. 10, NO. 5 October 2002. Þetta á við alla TLD þjóna, bæði gTLD- and ccTLD-þjóna sem og rótarþjónana sjálfa.

Sjá einnig frétt ISNIC um málið.

Af hverju er gerð krafa um TCP aðgang að nafnaþjónum?

Samkvæmt RFC-stöðlum sem skilgreina lénakerfi netsins má senda fyrirspurnir um lén til nafnaþjóna með UDP samskiptaaðferð á porti 53 og með TCP samskiptaaðferð, einnig á porti 53.

Nánari upplýsingar um þessar kröfur má til dæmis fá í RFC5966 (grein 4) , RFC1034 (grein 3.7) , RFC1035 (grein 4.2) , RFC1123 (grein 6.1.3.2) og RFC3226 (grein 2.4) .

Ástæða þessara kröfu er nokkuð flókin, en í stuttu máli þá er meiri hluti umferðar í DNS kerfinu með UDP aðferðinni, en með henni takmarkast bæði fyrirspurnir og svör við u.þ.b 500 stafi. Ástæða kröfunnar um TCP aðgang að nafnaþjónum er að ef nafnaþjónn getur ekki komið svari við uppflettingu í DNS fyrir í einum UDP pakka ("datagram"), þá sendir hann afklippt svar með fyrsta hluta gagnanna. Fyrirspyrjanda er þá uppálagt að reyna spurninguna aftur, nú yfir TCP þar sem slíkar lengdartakmarkanir eru ekki fyrir hendi.

Sem betur fer rúmast flest svör við DNS fyrirspurnum vel innan UDP pakkastærðar, svo að sjaldan þarf að grípa til þessarar "varaleiðar" yfir TCP, en hennar sem samt sem áður krafist í stöðlum netsins.

ISNIC hefur frá upphafi gert þá kröfu til nafnaþjóna sem vista ".is" lén að þeir fari að þessum stöðlum. Nýlega var gefinn út RFC5966 (DNS Transport over TCP - Implementation Requirements) sem ítrekar kröfur um TCP aðgang að nafnaþjónum og færir fyrir þeim frekari rök.

Er gerð krafa um PTR skráningu nafnaþjóna?

Frá nóvember 2017, gerir ISNIC ekki lengur kröfu um PTR skráningu nafnaþjóna.

Hvernig prófar ISNIC nafnaþjóna?

Eina leiðin til að prófa hvort nafnaþjónar svara fyrirspurnum á UDP porti 53, er að senda viðkomandi einhverja fyrirspurn. Þar sem ekki er vitað hvaða lénum er þjónað af þessum nafnaþjóni, er hann spurður um mengi nafnaþjóna (NS færslur) höfuðlénsins.

Til að staðfesta rétta virkni nafnaþjónsins þarf að berast svar við þessari fyrirspurn. Svarið getur í raun verið hvað sem er, en samkvæmt RFC1035 /RFC2929 skal svarið vera:

SERVFAIL 2  Server failure - The name server was
            unable to process this query due to a
            problem with the name server.

REFUSED  5  Refused - The name server refuses to
            perform the specified operation for
            policy reasons.  For example, a name
            server may not wish to provide the
            information to the particular requester,
            or a name server may not wish to perform
            a particular operation (e.g., zone
            transfer) for particular data.

Eða svarið getur auðvitað verið NOERROR og með NS færslum höfuðlénsins, en nafnaþjónn sem svarar alls ekki (þ.e. fellur á tíma), fullnægir ekki tæknilegum kröfum ISNIC til nafnaþjóna .IS léna.

Hvernig get ég prófað nafnaþjóna fyrir DNSSEC umferð?

Eftir að uppsetningu á DNSSEC (RFC4033 , RFC4034 og RFC4035 ) fyrir rótarlénið lauk í júlí 2010 þurfa endurkvæmir nafnaþjónar netþjónustuaðila að taka við stærri svörum en áður, og í mörgum tilfellum stærri en svo að þau komist fyrir í hefðbundum UDP pökkum. Því reynir nú á að uppsetning þessara nafnaþjóna og eldveggja sem verja þá sé samkvæmt stöðlum netsins. Þjónustuaðilar geta prófað nafnaþjóna sína með því að keyra eftirfarandi uppflettingar á þeim. Menn geta einnig prófað þá endurkvæmu nafnaþjóna sem eigin uppflettingum er beint á með svipuðum hætti.

Keyrið eftirfarandi skipanir - notum K-rótina til að prófa þetta, en það má nota hvaða rótarþjón sem er - Athugið að þetta þarf að keyra á viðkomandi nafnaþjóni.

  1. dig -4 ns . +norec @k.root-servers.net

Er almennt samband við rótarþjón?

  2. dig -4 ns . +dnssec +cd +norec @k.root-servers.net

Athugar hvort heilt ("unfragemented") DNSSEC svar sem er stærra en 512 bætar kemst til skila. Ætti að skila um 800 bæta svari.

  3. dig -4 any . +dnssec +cd +norec @k.root-servers.net

Athugar hvort hlutað ("fragmented") svar kemst til skila -- ætti að skila um 1900 bæta svari. Rangt stilltir eldveggir eru gjarnir á að henda ranglega einstökum hlutum svarsins.

  4. dig -4 any . +dnssec +cd +norec @k.root-servers.net +vc

Athugar hvort DNS svar berst yfir TCP tengingu, þegar svar yfir UDP verður of stórt. Algengt að rangt stilltir eldveggir loki á TCP DNS umferð.

Allar þessar uppflettingar þurfa að skila óbrengluðu svari, geri þær það ekki þarf að skoða eldveggi og/eða rútera á leiðinni. Síðan þarf auðvitað að gera samsvarandi prófun á IPv6 tengingum nafnaþjónsins.

  5. dig -6 ns . +norec @k.root-servers.net
  6. dig -6 ns . +dnssec +cd +norec @k.root-servers.net
  7. dig -6 any . +dnssec +cd +norec @k.root-servers.net
  8. dig -6 any . +dnssec +cd +norec @k.root-servers.net +vc

Sjá einnig: https://www.dns-oarc.net/oarc/services/replysizetest

Hvað eru MX færslur?

Það eru færslur í hverju léni sem segja til um hvaða netþjónar taka við tölvupósti fyrir lénið.

Hvað er SOA færsla?

Skammstöfunin SOA stendur fyrir "Start Of Authority" og inniheldur ýmsar upplýsingar um það lén sem hún er í, sem dæmi: uppruna-nafnaþjón og netfang ábyrgðarmanns.

Hvað er RIPE?

RIPE er frönsk skammstöfun (Reseaux IP Europeens). RIPE er evrópsk stofnun sem sér um úthlutun IP talna í Evrópu.

Hvað er IANA?

IANA stendur fyrir Internet Assigned Numbers Authority. IANA er nú hluti af ICANN og rekið innan þess. IANA sér um yfirúthlutun IP talna, höfuðléna o.s.frv.

Hvað er ICANN?

ICANN (Internet Corporation for Assigned Names and Numbers) er fyrirtæki sem sér um alls kyns samræmingu fyrir netið á heimsvísu. Meðal annars er IANA nú undirdeild í ICANN.

Hvað þýðir ISNIC?

ISNIC er skammstöfun sem stendur fyrir IS Network Information Center. Almennt má gera ráð fyrir að í hverju landi sé skráningarfyrirtæki (NIC) sem sá eða sér um skráningar fyrir landalénið. Undantekningar eru nokkrar, t.d. þar sem eitt land sér um skráningar nágrannalanda eða nýlenda.

Hvenær eru nafnaþjónar ISNIC uppfærðir?

Nafnaþjónar ISNIC eru uppfærðir á tuttugu mínútna fresti allan sólarhringinn.

Af hverju eru vafrakökur ISNIC ekki tilkynntar?

Samþykki notenda á vafrakökum er ekki nauðsynleg, ef þær eru mikilvægar fyrir virkni vefsins eða eru af hendi fyrsta aðila og notaðar til greiningar á vefumferð. Notkun á vafrakökum á vef ISNIC er eingöngu af hálfu fyrsta aðila og eru nauðsynlegar fyrir virkni vefsins. ISNIC notar eigið vefspjall.

Hvernig undirbý ég flutning léns á nýja nafnaþjóna?

Þegar flytja skal hýsingu léns frá einum hýsingaraðila yfir á annan vill oft gleymast að afrita tæknilegar upplýsingar um tölvupóst frá fráfarandi lénahýsingu. Uppsetning á léni segir ekki eingöngu til hvar nýja vefsíðan er hýst, heldur ekki síður upplýsingar um tölvupóstþjónustu. Fráfarandi hýsingaraðili lénsins er með þessar upplýsingar skráðar hjá sér og getur eflaust upp fæslur fyrir póstþjónustu (MX records) og TXT færslur sem þarf að afrita á nýja staðinn.

Ef ekki næst í fráfarandi hýsingaraðila er hægt að fletta tæknilegum upplýsingum upp með "dig" skipuninni. Sem dæmi er hægt að skoða finna póstþjóna lénsins "daemi.is" með:

$ dig daemi.is mx

Hægt er að fá TXT færslur með því að skrifa:

$ dig daemi.is txt
Stytting á selgeymslutíma

Eftir fluttning á léni tekur það tíma fyrir nýjar upplýsingar um lénið að dreifast um netið. Þennann tíma má stytta með því að lækka TTL gildið á NS færslum hjá fráfarandi lénahýsingaraðila. Gott er að gera þetta í sömu viku og áætlaður fluttningur á að vera framkvæmdur.

DNSSEC

Ef vitað til að lénið er DNSSEC signað þarf að undirbúa flutning vel svo að lénið haldi áfram að virka. Fylgja þarf nákvæmlega Hvernig flyt ég DNSSEC signað lén á nýja nafnaþjóna?.

Að framkvæma flutning

Auðvelt er að flytja hýsingu léns yfir á nýjan aðila. Athugið að lénið þarf að vera uppsett hjá tilvonandi hýsingaraðila áður en lénið er flutt til hans á Mín síða, sjá "Hvernig undirbý ég flutning léns á nýja nafnaþjóna?" og "Get ég vistað lénið mitt á erlendum nafnaþjónum?" svo framarlega að uppsetning stenst tæknilegar kröfur ISNIC.

Algeng vandamál við breytingu nafnaþjóna

Of lágt TTL

Algengasta vandamál við flutning léns er þegar hýsingaraðilinn setur svokallaðar NS færslur (sem segja til um hvar lénið er hýst) með of lágu TTL gildi, þ.e.a.s. gildi sem er lægra en einn dagur (86400 sekúndur). Þegar slíkt vandamál kemur upp þarf að hafa samband við tæknimenn lénahýsingaraðilans og fá TTL gildið á NS færslunum hækkað. Slík breyting tekur venjulega mjög stuttan tíma í framkvæmd. Þegar búið er að hækka TTL gildi NS færslna er hægt að flytja hýsingu lénsins á nýju nafnaþjónana.

Lén finnst ekki

Fyrir flutning .is léna til hýsingaraðila þarf lénið að vera sett upp á nafnaþjónum hýsingaraðlans áður en flutningur er reyndur. Í þeim tilvikum sem lén finnst ekki þarf að fullvissa sig um hvort að búið sé að setja lénið inn í viðmót hýsingaraðlans og ef svo er ekki þarf að tala við tæknideild þeirra um að setja lénið upp á amk 2 nafnaþjóna. Þegar búið er að setja lénið inn á nafnaþjóna þeirra er hægt að flyja hýsingu lénsins á nýju nafnaþjónana, svo lengi sem að NS færslurnar og nöfn nafnaþjónana eru eins.

Nafnaþjónn ekki skráður

Mögulega eru nafnaþjónar nýja hýsingaraðlans sem þú ætlar að nota ekki skráðir hjá ISNIC. Það er mikilvægt að umsjónarmenn nafnaþjónana séu með skráð netfang (Zone contact) svo að þeir fái tilkynningar frá ISNIC um villur í uppsetningu nafnaþjóna og þeirra .is léna sem sett eru upp á þeim og geti brugðist við þeim. Þú sérð villu um að nafnaþjónn sé ekki skráður skaltu hafa samband við hýsingaraðlann og fá hann til að bæði skrá tengiliðog þá nafnaþjóna sem þarf. Sjá Hvernig skrái ég nafnaþjón hjá ISNIC?, en í stuttu máli þarf að innskrá sig og fara á skráningarsíðu nafnaþjóna, setja inn nafnaþjón og auðkennið á tengilið hýsingaraðilans.

Tengja lén við Microsoft 365

Þessar leiðbeiningar eru fyrir þá sem vilja nota DNS þjónustu ISNIC til þess að tengja lén við Microsoft 365. Leiðbeiningarnar eiga ekki við ef að lén er uppsett á nafnaþjóna hjá hýsingaraðila.

Skref 1: Uppsetning Microsoft 365

Í uppsetningarferli Microsoft 365 er mælt með að nota TXT færslu til að staðfesta lénið. Færslan er vanalega á þessu formi: MS=ms12345678 (tölustafirnir eru breytilegir). Afritaðu TXT færsluna og farðu yfir á vefsíðu ISNIC.

Skref 2: Setja lén upp á nafnaþjóna

Skráðu þig inn á isnic.is, farðu í Mín síðaog smelltu á skiptilykilinn undir Stjórnborð í lénatöflunni. Á stjórnborðssíðunni smellir þú á Flytja hjá Nafnaþjónar. Síðan velurðu DNS Hýsingu ISNIC og smellir á Áfram. Nú verður lénið uppsett á nafnaþjóna ISNIC, það gæti tekið 10 mínútur.

Skref 3: Bæta við DNS færslum

a. Þegar að lénið hefur verið uppsett á nafnaþjóna ISNIC getur þú bætt við DNS færslum frá Microsoft. Þá ferðu aftur í Stjórnborð fyrir lénið og smellir á Breyta hjá DNS færslur. Þar velurðu Microsoft 365 í fellilistanum efst á síðunni, þá birtast DNS færslur Microsoft.

b. Næst setur þú TXT staðfestingarfærslu Microsoft (TXT Verification code), sem þú afritaðir í skrefi 1, inn í stjörnumerkta reitinn og smellir á Áfram.

Skref 4: Staðfesting Microsoft

Opnaðu aftur uppsetningarsíðu Microsoft 365 og smelltu á Verify. Þá staðfestir Microsoft lénið og lénið þitt tengist við Microsoft 365 aðganginn þinn.

Hvar set ég inn DNS færslur?

Ef að lénið er nú þegar uppsett á nafnaþjóna hjá öðrum hýsingaraðila (DNS hosting provider), eiga þessar leiðbeiningar ekki við. Sjá leiðbeiningar fyrir breytingar á léni sem hýst er hjá þriðja aðila hér.

ISNIC býður upp á DNS hýsingu (lénahýsingu). Fyrst þarf að flytja lénið á nafnaþjóna ISNIC, svo að hægt sé að bæta við DNS færslum. Smellt er á skiptilykilinn undir flokknum Stjórnborð í lénatöflunni á Mín síða . Þar er smellt á Flytja undir flokknum Nafnaþjónar og hakað er við DNS Hýsingu ISNIC og smellt á Áfram. Fluttningur getur tekið um 10 mínútur og virkjast þá DNS færsluviðmótið.

Bæta við DNS færslu

Þegar lénið hefur verið uppsett á nafnaþjóna ISNIC er hægt að bæta við DNS færslum. Þá er smellt á skiptilykilinn undir flokknum Stjórnborð í lénatöflunni á Mín síða. Því næst er smellt á Breyta við flokkinn DNS færslur. Þar er hægt að bæta við DNS færslum og breyta núverandi færslum.

Efst á síðunni þarf að velja Stök DNS færsla í fellilista. Velja skal tegund færslu (t.d. A, CNAME, MX eða TXT) með viðeigandi heiti (einnig þekkt sem nafn eða host) og gildi (einnig þekkt sem gögn, data eða value) sett inn og smellt á + Bæta við.

  • Ef að heiti DNS færslu er skilið eftir autt er „@“ sjálfkrafa bætt við sem heiti færslu og virkar það sem rótin á léninu sem verið er að breyta.
  • Ef að bæta á við DNS færslu fyrir www.dæmi.is þá er aðeins „www“ sett inn í heiti (host) en ekki „www.dæmi.is“.

Tilbúin sniðmát fyrir algengar þjónustur

Hægt er að velja sniðmát fyrir DNS stillingar vinsælla póstþjónusta, vefsíðugerða og vefhýsinga í fellilistanum efst. Þegar þjónusta er valin sérðu hvaða færslum verður bætt við og hvaða færslur verða fjarlægðar þegar smellt er á Áfram

Fylla þarf út í þá reiti sem eru auðir með upplýsingum frá þjónustuaðila. Þessar færslur eru aðgengilegar á vefsvæði þjónustuaðilans og eru uppgefnar í uppsetningarferli þjónustunnar.

Breytingar á léni sem hýst er hjá þriðja aðila

Ef að lén er hýst hjá öðrum DNS hýsingaraðila og uppsett á nafnaþjóna þeirra, er DNS færslum bætt við hjá þeim en engar breytingar gerðar á léninu í gegnum ISNIC.

Misjafnt er eftir hýsingaraðilum hvernig þessar breytingar eru framkvæmdar, en algengasta leiðin er að skrá sig inn á vef hýsingaraðilans og bæta við DNS færslum í gegnum þeirra viðmót. Hafðu samband við hýsingaraðila þinn ef þú lendir í vandræðum við það.

Ef þú veist ekki hver hýsingaraðili þinn er, getur þú séð hvaða nafnaþjóna lénið er uppsett á með því að skrifa nafn lénsins í leitargluggann í Rétthafaskrá ISNIC (WHOIS).

Hér má finna lista yfir skráða DNS þjónustaðila ISNIC

Tengja lén við Squarespace

Þessar leiðbeiningar eru fyrir þá sem vilja nota DNS þjónustu ISNIC til þess að tengja lén við Squarespace. Leiðbeiningarnar eiga ekki við ef að lén er uppsett á nafnaþjóna hjá hýsingaraðila.

Skref 1: Uppsetning Squarespace

Fyrsta skrefið er að fylgja leiðbeiningum Squarespace fyrir tengingu við lén. Þegar þú sérð mynd af DNS færslunum frá Squarespace þá ferðu inn á Mín síða á vef ISNIC.

Skref 2: Setja lén upp á nafnaþjóna

Skráðu þig inn á isnic.is, farðu í Mín síðaog smelltu á skiptilykilinn undir Stjórnborð í lénatöflunni. Á stjórnborðssíðunni smellir þú á Flytja hjá Nafnaþjónar. Síðan velurðu DNS Hýsingu ISNIC og smellir á Áfram. Nú verður lénið uppsett á nafnaþjóna ISNIC, það gæti tekið 10 mínútur.

Skref 3: Bæta við DNS færslum

a. Þegar að lénið hefur verið uppsett á nafnaþjóna ISNIC getur þú bætt við DNS færslum frá Squarespace. Þá ferðu aftur í Stjórnborð fyrir lénið og smellir á Breyta hjá DNS færslur. Þar velurðu Squarespace í fellilistanum efst á síðunni, þá birtast DNS færslur Squarespace.

b. Squarespace gefur þér upp Heiti (host) fyrir CNAME færslu með gildið verify.squarespace.com. Afritaðu það og límdu inn í stjörnumerkta reitinn og smelltu á Áfram.

Skref 4: Staðfesting Squarespace

Þegar að öllum DNS færslunum frá Squarespace hefur verið bætt við er smellt á Refresh takkann við DNS færslurnar á vef Squarespace og þá tengist lénið við Squarespace síðuna.

Tengja lén við Google Workspace

Þessar leiðbeiningar eru fyrir þá sem vilja nota DNS Hýsingu ISNIC til þess að tengja lén við Google Workspace. Leiðbeiningarnar eiga ekki við ef að lén er uppsett á nafnaþjóna hjá hýsingaraðila.

Skref 1: Uppsetning Google Workspace

Fyrst stofnar þú Google Workspace aðgang og ferð í gegnum uppsetningarferli þeirra. Í uppsetningarferlinu sérðu staðfestingarfærslu (Verification Code) - Þessa slóð afritar þú (copy).

Skref 2: Setja lén upp á nafnaþjóna

Skráðu þig inn á isnic.is, farðu í Mín síðaog smelltu á skiptilykilinn undir Stjórnborð í lénatöflunni. Á stjórnborðssíðunni smellir þú á Flytja hjá Nafnaþjónar. Þar næst velurðu DNS Hýsing ISNIC og smellir á Áfram. Nú verður lénið uppsett á nafnaþjóna ISNIC, það gæti tekið 10 mínútur.

Skref 3: Bæta við DNS færslum

a. Þegar að lénið hefur verið uppsett á nafnaþjóna ISNIC getur þú bætt við DNS færslum frá Google. Þá ferðu aftur í Stjórnborð fyrir lénið og smellir á Breyta hjá DNS færslur. Þar velurðu Google Workspace í fellilistanum efst á síðunni, þá birtast DNS færslur Google.

b. Næst setur þú staðfestingarfærslu Google (Verification code), sem þú afritaðir í skrefi 1, inn í stjörnumerkta reitinn fyrir Gildi (e. data/value). Staðfestingarfærslan sem Google gefur upp er annað hvort MX eða TXT færsla. Veldu tegund færslu (MX eða TXT) og smelltu á Áfram.

Skref 4: Virkja Google Workspace

Opnaðu aftur uppsetningarsíðu Google og smelltu á Activate Gmail. Þá tengist lénið þitt við Google Workspace aðganginn.

Tengja lén við Google Sites

Þessar leiðbeiningar eru fyrir þá sem vilja nota DNS Hýsing ISNIC til þess að tengja lén við Google Sites. Leiðbeiningarnar eiga ekki við ef að lén er uppsett á nafnaþjóna hjá hýsingaraðila.

Skref 1: Uppsetning Google Sites

Fyrst býrð þú til Google Sites síðu og ferð inn í stillingar fyrir síðuna. Þar inni velur þú Custom domains, smellir á Start setup og setur inn www og lénið þitt (t.d. www.dæmi.is).

Skref 2: Staðfesta lénið: fá kóða

Ef ekki er búið að staðfesta lénið áður birtist hlekkur "verify your ownership" sem þarf að smella á. Þar velur þú Domain name provider : other og afritar kóða sem er svipaður þessum: google-site-verification=gwF5euksRmSXEwRdq7A04kuFFkZbVJweB6j0nE6iJQl

Skref 3: Flytja lén á nafnaþjóna ISNIC

Skráðu þig inn á isnic.is, farðu í Mín síða og smelltu á undir Stjórnborð í lénatöflunni. Á stjórnborðssíðunni smellir þú á Flytja hjá Nafnaþjónar. Þar næst velurðu DNS Hýsingu ISNIC og smellir á Áfram. Nú verður lénið uppsett á nafnaþjóna ISNIC, það gæti tekið 10 mínútur.

Skref 4: Staðfesta lénið
a) Setja inn kóðann hjá ISNIC

Þegar að lénið hefur verið uppsett á nafnaþjóna ISNIC getur þú bætt við DNS færslum frá Google. Þá ferðu aftur í Stjórnborð fyrir lénið og smellir á Breyta hjá DNS færslur. Þar velurðu að setja inn staka DNS færslu og setur tegund: TXT, heiti: www og afritar kóðann úr skrefi 2 inn í stóra textareitinn. Smelltu nú á "bæta við" hnappinn.

b) Staðfesta kóðann hjá Google

Farðu nú á Google síðuna og smelltu á Verify hnappinn. Þá athugar Google hvort að TXT færslan finnist með réttum kóða og með rétt "heiti" (e. host).

Skref 5: Setja inn lénið hjá Google

Farðu aftur í Google stillingarnar, veldu Custom domains og Start setup. Skrifaðu inn nafn lénsins eins og áður og smelltu á next.

Skref 6: Tengja lén við vefsíðuna
a) Eyða staðfestingarkóða

Í DNS stillingum lénsins á isnic.is þarf að eyða út staðfestingarkóðanum. Smelltu á hnappinn við hlið kóðans sem þú settir inn áðan. Smellu næst á hnappinn.

b) Koma á tengingu við www

Á DNS síðunni velur þú að bæta við strakri DNS færslu og setur tegund: CNAME, heiti: www og ghs.googlehosted.com. í stóra textareitinn. Smelltu nú á "bæta við" hnappinn.

c) Áframsenda lénið á www

Nú virkar að fara á lénið í vafra ef sett er www fyrir framan, en ekki ef www er sleppt. Til þess getum við notað áframsendingu. Afritaðu vefslóðina sem virkar til að fara inn á vefsíðuna. Á DNS síðunni getur þú valið DNS sniðmát: Áframsending á vefslóð, hakað þar við Virkja áframsendingu og settu inn slóðina sem virkar (dæmi "https://www.dæmi.is/") og smelltu á áfram hnappinn.

Nú á Google Sites síðan að vera tengd við www á léninu þínu. Þeir sem fara á lénið þitt án www verða áframsendir á lénið með www fyrir framan og lenda því á vefsíðunni.

Tengja lén við Shopify

Þessar leiðbeiningar eru fyrir þá sem vilja nota DNS Hýsingu ISNIC til þess að tengja lén við Shopify. Leiðbeiningarnar eiga ekki við ef að lén er uppsett á nafnaþjóna hjá hýsingaraðila.

Skref 1: Setja lén upp á nafnaþjóna

Skráðu þig inn á isnic.is, farðu í Mín síðaog smelltu á skiptilykilinn undir Stjórnborð í lénatöflunni. Á stjórnborðssíðunni smellir þú á Flytja hjá Nafnaþjónar. Síðan velurðu DNS Hýsingu ISNIC og smellir á Áfram. Nú verður lénið uppsett á nafnaþjóna ISNIC, það gæti tekið 10 mínútur.

Skref 2: Bæta við DNS færslum

Þegar að lénið hefur verið uppsett á nafnaþjóna ISNIC getur þú bætt DNS færslum Shopify við lénið. Þá ferðu aftur í Stjórnborð fyrir lénið og smellir á Breyta hjá DNS færslur. Þar velurðu Shopify í fellilistanum efst á síðunni, þá birtast réttar DNS færslur og smellt er á Áfram.

Skref 3: Breyta stillingum hjá Shopify

Nú skráir þú þig inn á þitt svæði á vef Shopify. Samkvæmt leiðbeiningum Shopify er farið í Domains undir Settings og þar smellt á Connect existing domain. Þar skrifar þú inn nafn lénsins og smellir á Verify connection.

Tengja lén við Bluehost

Þessar leiðbeiningar eru fyrir þá sem vilja setja lén sitt upp á nafnaþjóna Bluehost.

Til þess að geta sett lén upp á nafnaþjóna Bluehost, þarf hýsingaraðilinn fyrst að setja lénið upp á sína þjóna. Það er gert með því að staðfesta (e. verify) lénið fyrir Bluehost.

Skref 1: Fá IP tölu fyrir A færslu

Fylgdu leiðbeiningum Bluehost, frá kaflanum Assign the Domain Name. Í skrefi 3 viljum við velja A færslu (A record) til að staðfesta yfirráð (e. verify ownership) lénsins. Í næsta skrefi skaltu velja Addon domain, þar sem þú færð val á milli Addon, Parked og Unassigned Domain.

Skref 2: Setja lén upp á nafnaþjóna ISNIC (tímabundið)

Skráðu þig inn á isnic.is, farðu í Mín síðaog smelltu á skiptilykilinn undir Stjórnborð í lénatöflunni. Á stjórnborðssíðunni smellir þú á Flytja hjá Nafnaþjónar. Þar næst velurðu DNS Hýsingu ISNIC og smellir á Áfram. Nú verður lénið uppsett á nafnaþjóna ISNIC, það gæti tekið 10 mínútur.

Skref 3: Bæta við A færslu

Þegar að lénið hefur verið uppsett á nafnaþjóna ISNIC geturðu bætt við A færslu (IP tölu) Bluehost við lénið. Þú ferð aftur í Stjórnborð fyrir lénið þitt og smellir á Breyta hjá DNS færslur. Þar velurðu A sem tegund færslu skrifar IP töluna sem Bluehost gaf þér upp í reitinn IPv4 tala og smellir á +Bæta við.

Skref 4: Setja lén upp á nafnaþjóna Bluehost

Nú ætti lénið að vera staðfest fyrir Bluehost og komið upp á nafnaþjóna þeirra. Þú getur því flutt hýsingu lénsins yfir á nafnaþjóna Bluehost. Til þess ferðu aftur í stjórnborð og smellir á Flytja hjá Nafnaþjónar fyrir lénið þitt. Þar skrifar þú nafnaþjóna Bluehost inn í reitina Aðalnafnaþjónn og Nafnaþjónn 2 og smellir á Áfram.

Tengja lén við Wordpress

Þessar leiðbeiningar ætlaðar þeim sem vilja nota nafnaþjóna Wordpress. Athugaðu að ef að lénið er nú þegar uppsett á aðra nafnaþjóna mun sú tenging við lénið rofna við breytinguna.

Skref 1: Uppsetning léns hjá Wordpress

Fyrsta skrefið er að setja lénið upp á nafnaþjóna Wordpress. Hjá Wordpress er notuð leið sem þau kalla „Domain Mapping“. Hér má finna leiðbeiningar frá Wordpress fyrir Domain Mapping. Wordpress setur lénið þitt upp á sína nafnaþjóna og gefa þér upp hvaða þjónar það eru. Oftast notar Wordpress þessa nafnaþjóna: ns1.wordpress.com, ns2.wordpress.com og ns3.wordpress.com.

Skref 2: Setja lén upp á nafnaþjóna Wordpress

Undir Mín síða smellirðu á skiptilykilinn undir flokknum Stjórnborð fyrir viðeigandi lén í lénatöflunni. Þar smellirðu á Flytja hjá Nafnaþjónar. Þú velur þar Flytja, skrifar nafnaþjóna Wordpress inn í reitina fyrir neðan og smellir á Áfram.

Nú tengist lénið þitt við Wordpress.

Tengja lén við Wix

Þessar leiðbeiningar ætlaðar þeim sem vilja nota nafnaþjóna WIX. Athugaðu að ef að lénið er nú þegar uppsett á aðra nafnaþjóna mun sú tenging við lénið rofna við breytinguna.

Skref 1: Uppsetning léns hjá Wix

Skráðu þig inn á þinn aðgang á wix.com og fylgdu leiðbeiningum WIX. Undir Domains finnur þú Add existing domain og smellir á Connect a domain you already own. Fylgið leiðbeiningum WIX áfram yfir í næsta skref.

Skref 2: Finna nafnaþjóna Wix

Skref 2 í leiðbeiningum WIX snýr að því að skrá sig inn hjá lénaskráningaraðila (domain host provider), sem er þinn aðgangur hjá ISNIC. Smelltu á I logged in, I found my domain settings og I found the nameservers. Þá færðu uppgefna nafnaþjóna hjá WIX, afritaðu þá og Skráðu þig inn á þinn aðgang á isnic.is.

Skref 3: Setja lén upp á nafnaþjóna WIX

Undir Mín síða smellirðu á skiptilykilinn undir flokknum Stjórnborð fyrir viðeigandi lén í lénatöflunni. Þar smellirðu á Flytja hjá Nafnaþjónar. Þú velur þar Nafnaþjónar, setur fyrri nafnaþjón WIX í reitinn Aðalnafnaþjónn og þann síðari í Nafnaþjónn 2 og smellir á Áfram.

Á WIX síðunni geturðu nú smellt á I've replaced my nameservers og tengt WIX vefsíðuna við lénið þitt.

Hvað þýðir að það vanti sterka auðkenningu á greiðslukorti?

Færslur á greiðslukortum, sem voru sett í geymslu hjá ISNIC áður en Lög um greiðsluþjónustu, nr. 114/2021 (með lögunum er innleidd PSD2 tilskipunin frá Evrópusambandinu) tóku gildi og fóru í framkvæmd, geta lent í höfnunum. Lausnin er að eyða kortinu úr geymslu ISNIC og setja aftur í geymslu.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin