1. des. 2008

1. des. 2008

Stofngjald léna fellt niður

Verðskrá ISNIC hefur verið einfölduð og lækkuð samkvæmt samþykkt stjórnar 30.10.2008. Breytingin gildir frá 1. desember 2008 og er sem hér segir:

Stofngjald léna, kr. 4.532, hefur verið fellt niður. Kostnaður við stofnun .is léns verður aðeins fyrsta árgjaldið kr. 7.918.- í stað kr. 12.450.- áður. Lækkunin nemur 36,4%.

Árgjald léna sem innihalda séríslenska stafi (IDN lén) er kr. 792 og helst óbreytt þegar sami innlendi aðili á samsvarandi stofnlén (venjulegt lén) en 50% afsláttur IDN léna til þeirra sem ekki eiga stofnlénið fyrir fellur niður. Eftir sem áður er enginn afsláttur veittur af IDN lénum til erlendra aðila.

Árgjald .is-léna hefur ekki breyst frá árinu 2000. Árgjald léna verður því óbreytt kr 7.918. Fjölgun .is léna, sérstaklega undanfarið ár, gerir ISNIC kleift að lækka verðskrána þrátt fyrir mjög aukinn kostnað. ISNIC vonar að niðurfelling stofngjaldsins skili sér í enn meiri fjölgun léna.

Samfara breytingunni hefur ISNIC birt sérstaka verðskrá í evrum (EUR) og hafið útgáfu reikninga í evrum fyrir erlenda greiðendur. Erlenda verðskráin er ótengd íslensku verðskránni. Þetta er nauðsynlegt vegna mikillar óvissu og tíðra breytinga í gengi íslensku krónunnar. Þannig hefur verð .is léna lækkað úr rúmum 80 evrum í 39 evrur undanfarna þrjá mánuði. Verð .is léna í evrum hefur nú verið sett fast í 39,0 EUR og er án VSK. Heimilisfang (land) greiðanda lénsins ræður því hvort reikningur er gerður í ISK eða EUR og hvort hann er með eða án 24,5% virðisaukaskatti.

Í tilefni dagsins: Ísland varð fullvalda og sjálfstætt ríki 1. desember 1918 en heyrði eftir sem áður undir sama konung og Danmörk til 17. júní 1944 er lýðveldið Ísland var stofnað. ISNIC óskar landsmönnum til hamingju með 90 ára afmæli fullveldisins.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin