ISNIC hvetur rétthafa léna til þess að kynna sér drögin, og greinagerðina með þeim. Drög að lögum um .IS. Athugasemdir ISNIC við drögin má sjá hér.
ISNIC leggur áherslu á að nýju lögin fjalli fyrst og fremst um vernd rétthafa léna og sjálfstæði lénsins sem heimilisfangs á Internetinu, en setji starfseminni og rétthöfum léna ekki óþarfa skorður, sem hefti framþróun á innlenda hluta Internetsins.
Þá er ISNIC þeirrar skoðunar að efni sem geymt er á vefsíðum komi léninu sem slíku ekki við. Lén eru fyrst og fremst órjúfanlegur hluti netfanga, veffanga og annarra heimilisfanga á Netinu. Lén sem slík hafa ekki efnislegt innihald, þótt þau kunni að vera gerð úr skiljanlegum orðum.
ISNIC bendir ráðuneytinu og öðrum stjórnvöldum á nýfallinn dóm stjórnlagadómstóls Frakklands um frönsku lénalögin, en hluti þeirra var dæmdur ólöglegur þar sem ákveðnar greinar samrýmast ekki mannréttindaákvæði frönsku stjórnarskrárinnar um tjáningar- og atvinnufrelsið. Segja má að franska stjórnarskráin sé móðir allra stjórnarskráa. Þ.a.l. hafa dómar franska stjórnlagadómstólsins áhrif um alla Evrópu. Lesið frétt um málið hjá AFNIC, systurfyrirtæki ISNIC í Frakklandi.