13. des. 2010

13. des. 2010

Wikileaks.is

Sé spurt hvað þyrfti til þess að ISNIC myndi loka wikileaks.is vegna innihaldsins, þá er svarið einfalt: Til þess þyrfti dómsúrskurð sem beint væri til ISNIC um að loka léninu. Slíkt hefur aldrei gerst.

ISNIC ber ekki ábyrgð á efnislegri notkun rétthafans á léninu, þ.e. hvorki hvað varðar innihald tölvupósts sem sendur er frá netfangi lénsins, t.d. wikileaks@wikileaks.is, né heldur á vefsíðum sem birtast undir veffangi þess á Internetinu, þ.e. www.wikileaks.is. Lénið var skráð 7. júlí 2010 og hefur verið virkt síðan. Það er beinlínis heilög skylda ISNIC að halda .is-lénum opnum og aðgengilegum út um allan heim og á öllum tímum. Aðeins lögregluyfirvöld með fulltingi íslenskra dómstóla geta fyrirskipað ISNIC að loka léni. Slíkt hefur eins og áður sagði ekki gerst í hartnær 25 ára sögu .is.

Rétthafar .is-léna vita margir að ISNIC-kerfið lokar hins vegar reglulega lénum af tveimur annarskonar ástæðum, en þá aðeins eftir ítrekaðar aðvaranir um úrbætur til rétthafans. ISNIC-kerfið, sem er að mestu leiti sjálfvirkt hvað lokanir léna varðar, gerir lén óvirkt í tvennskonar tilvikum: Annars vegar ef árgjald lénsins hefur ekki verið greitt og hins vegar ef aðvörunum um úrbætur á skráningu lénsins í rétthafaskrá og á nafnaþjónum hefur ekki verið sinnt. Reglur ISNIC um tæknilega virkni eru strangar og ISNIC sem slíkt illsveigjanlegt, en á þessari staðreynd byggist hátt öryggis- og þjónustustig .is léna. Ef árgjald wikileaks.is yrði ekki greitt, eða skráning þess uppfyllti ekki lengur reglur ISNIC, þá myndi ISNIC loka léninu - annars ekki.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin