8. jan. 2011

8. jan. 2011

Fólk treystir .is-lénum

Traust og trúverðugleiki skiptir meginmáli til þess að ná góðum árangri á Internetinu. Eftir hrun íslenska bankakerfisins í október 2008 höfðu menn áhyggjur af því að trúnaðarbresturinn vegna hrunsins myndi smitast yfir í önnur svið atvinnulífsins og valda því tjóni. ISNIC hafði t.a.m. áhyggjur af því að höfuðlénið .is myndi tapa trúverðugleika vegna hrunsins. Allt kapp hefur því verið lagt á að viðhalda góðri stöðu lénsins sem eins af traustustu og tæknilega bestu höfuðlénum heims. Nýlega útkomin skýrsla McAffe sýnir að bankahrunið hefur sem betur fer ekki haft áhrif á traust og trúverðugleika .is-léna.

Öll .is-lén eru prófuð reglulega af ISNIC-kerfinu m.t.t. tæknilegrar uppsetningar. Öllum lénum sem ekki uppfylla nokkuð stífar kröfur ISNIC eru sendar ábendingar í tölvupósti og þeim lokað (þ.e.a.s. gerð tæknilega óvirk) eftir tilskilinn frest ef uppsetningin hefur ekki verið lagfærð. Sama gildir ef upplýsingar lénsins í rétthafaskrá ISNIC (Whois) eru ófullnægjandi. Þetta tvennt, þ.e. tæknileg uppsetning lénsins og réttar upplýsingar um rétthafa þess og tengiliði, eru meðal mikilvægustu atriðanna sem undirbyggja traust og áreiðanlegt lén.

ISNIC hvetur alla rétthafa til að uppfæra reglulega uppýsingar sínar í Whois-rétthafaskránni. Undir liðnum "mín skráning" geta tengiliðir valið að heimilisfang þeirra uppfærist sjálfkrafa miðað við Þjóðskrá og fyrirtækjaskrá. Þau lén sem þannig eru merkt fá sérstaka staðfestingu þar um í skráningarskírteini lénsins. Þess má geta í lokin að útgefendur SSL-öryggisskírteina reiða sig á rétthafaupplýsingar ISNIC. Öllum er heimilt að skoða skráningarskríteini allra .is-léna með því einfaldlega að skrá nafn lénsins inn í Whois-leitargluggann efst til hægri hér á forsíðu ISNIC.is

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin