4. apr. 2011

4. apr. 2011

.is best Norðurlandaléna skv. McAfee Report 2010

Ársskýrsla McAfee® rannsóknarfyrirtækisins með lista yfir hættulegustu lén í heimi: "Mapping the Mal Web 2010" er nýkomin út. Niðurstöður hennar sýna enn á ný frábæra stöðu .is-höfuðlénsins hvað mikinn áreiðanleika og lága villutíðni varðar. Samkvæmt McAfee® er .is besta lén Norðurlandanna, 6. besta lén í Evrópu, og 11. besta lén í heiminum árið 2010 (McAffe, Mapping the Mal Web 2010, bls. 18).

Skoðuð voru 6.102 íslensk lén sem vísa til jafnmargra vefsíðna og tölvupósts. Leitað var að vírusum (Malware), vefsíðum sem nýta sér vafraveikleika (browser exploits), ruslpósti (spamminess) og áhættusíðum sem eru reknar af vafasömum fyrirtækjum eða einstaklingum. Þá er svartími lénanna og villutíðni líka skoðaður. Svokölluð vegin villu- og áhættutíðini .is-lénsins mældist aðeins 0,2%, sem setur .is-lénið í 96. sæti af 102 prófuðum höfuðlénum í Evrópu, mið Asíu og Afríku. Lén nr. 102, með minnst af villum, er höfuðlén eyjunnar Guernsey (.gg) sem er skv. McAfee "besta og öruggasta" lén Evrópu. Á óvart kemur að .dk (Danmörk) nær næst-besta sætinu á Norðurlöndum en .fi (Finnland) er sísta lén Norðurlandanna með 100% meiri villutíðni en .is og í 23. sæti í Evrópu, mið Asíu og Afríku. Villutíðni .fi jókst um 41,5% milli ára.

Hættulegasta landalén Evrópu, mið Asíu og Afríku er .cm (Cameroon) en villutíðni þess reyndist 22,2%. Versta og hættulegasta landalén í heimi er hins vegar .vn (Víetnam) með 29,4% villu- og áhættutíðini. Athygli vekur að almenna lénið .com tekur nú 1. sætið á heimslistanum yfir hættulegustu lénin af .cm (Cameroon) sem vermdi 1. sætið í fyrra. Gríðarlegur fjöldi .com-léna, eða um þriðjungur (31.3%) þeirra léna sem prófuð voru (n.t.t. 948.995 lén af 15.530.183) reyndust innihalda villur eða áhættuþætti. Næst versta höfuðlén í heimi er .info - tiltölulega ungt höfuðlén (gTLD), sem átti að verða sérstaklega áreiðanlegt lén þegar það var kynnt til sögunnar. Það er vissulega áhyggjuefni fyrir Netið þegar svo stór hluti af lénum stærsta höfuðléns reynist innihalda villur, vírusa og aðrar hættur fyrir hinn venjulega notanda. Slíkt rýrir trúverðugleika Internetsins sem slíks og getur, ef ekki rétt á málum haldið, dregið úr viðskiptum á Internetinu. Ofangreint sýnir að stjórnun og rekstur höfuðléna (e. Top Level Domain) skiptir höfuðmáli fyrir gæði lénsins og trúverðugleika.

ISNIC hvetur áhugasama, s.s. stjórnvöld, til að kynna sér skýsluna rækilega. Auðvelt er að sækja hana á Google með því að skrifa "Mapping the Mal Web 2010" í leitargluggann og smella á "birta" sem PDF skráarsnið.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin