6. jún. 2011

6. jún. 2011

IPv6 dagurinn 8. júní 2011

Miðvikudaginn 8. júní verður haldinn svokallaður IPv6-dagur (e. IPv6 DAY), en á þessum degi munu mörg fyrirtæki auglýsa IPv6-vistföng á þjónustu sína, þ.m.t vefþjónustu, póstþjónustu o.fl. Þetta er gert til að kanna áreiðanleika IPv6-tenginga viðskipavina fyrirtækjanna. Meðal þátttakenda verða stærstu netþjónustufyrirtæki heims, t.d. Google, YouTube, Facebook o.fl. sem vilja með IPv6-deginum fá upplýsingar um vandamál sem upp koma þegar IPv6-samskipti eru virkjuð fyrir lykilþjónustu.

IP-tala er heimilisfang þitt á netinu, t.d. 193.4.58.17. DNS kerfið (e. Domain Name System) sér um að kortleggja nöfn (t.d. lén) og tengja saman vefföng og IP-tölur þannig að ef t.d. www.isnic.is er slegið inn í vafra, skilar DNS kerfið 193.4.58.17 og samskiptin fara af stað. Nútímanetþjónusta er þannig upp byggð að ef ákveðin þjónusta hefur bæði IPv4- og IPv6-vistföng, er IPv6-vistfangið valið til samskipta, hafi viðskiptavinurinn aðgang að IPv6-nettengingu.

Lausar IPv4-tölur eru nú af skornum skammti og hefur í raun öllum verið úthlutað (hver heimsálfa á þó enn einhver IP-net til að úthluta til sinna þegna) hins vegar er útgáfa IPv6-talna rétt að hefjast. Heildarfjöldi talna í IPv4-kerfinu er 256^4 (eða 2 í 32. veldi) en heildarfjöldi IPv6 talna er 256^16 (eða 2 í 128. veldi). Minnstu skilgreindu undirnet IPv6-neta eru með 64 bita í nethluta og því 64 bita til að númera hvert tæki s.s. tölvu, fax, síma, leiðsögutæki, o.fl. nettengd tæki. Þessi undirnet rúma því allt IPv4-internetið í öðru veldi.

ISNIC hefur notað IPv6 í alllangan tíma og DNS kerfið hefur svarað IPv6-fyrirspurnum lengi. Hægt er að skrá nafnaþjóna með IPv6 IP-tölum, þar sem vefur ISNIC og póstkerfi svara fyrirspurnum á IPv6 tölur.

Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið til að prófa IPv6 og bendum á www.worldipv6day.org fyrir frekari upplýsingar um IPv6-daginn. Einnig má fá upplýsingar um hvort búast megi við tengivandræðum á Internetinu vegna IPv6 prófunarinnar með því að skoða ipv6eyechart.ripe.net  og test-ipv6.com.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin