Internet á Íslandi hf. (ISNIC) hefur pantað nýjan og margfallt öflugri búnað fyrir RIX (Reykjavik Internet Exchange) svo bjóða megi upp á 10Gb tengingar (í stað 1 Gb nú) og búa þannig í haginn fyrir framtíðina varðandi aukningu innlendrar netumferðar. Rixinn, eins og hann er kallaður, er skiptistöð innlendrar netumferðar sem hefur þann megintilgang að koma í veg fyrir að innlend netnotkun flæði út úr landinu, og til baka um sæstrengina, með tilheyrandi viðbótarkostnaði og lengingu á svartíma fyrir alla. Fyrir áhugasama heitir þetta "Peering" á ensku, en með peering skiptast aðilar á netumferð beint á milli sín, án aðkomu þjónustuaðila.
Flestir innlendir netþjónustuaðilar (ISP-ar) tengjast Rixinum, en hægt er að tengjast honum í Höfðatorgi eða í Tæknigarði. Uppfærslan í 10Gb er eðlileg þróun á netumhverfi fyrir stóra aðila. Uppfærslan í 10 Gb styttir svartímann mjög mikið og auðveldar þeim sem uppfæra í 10 Gb að veita sérhæfða netþjónustu sem krefst mjög mikillar burðargetu, s.s. við veitingu hágæða kvikmynda- og tónlistarstrauma, en slík notkun vex hratt.