28. apr. 2014

28. apr. 2014

Snjallt lén er gulls ígildi

Íslenska orðið „lén“ (e. domain) er notað fyrir heimili á Netinu. Nafn lénsins gegnir í raun alveg sambærilegu hlutverki og venjulegt heimilisfang, nema hvað það er notað jöfnum höndum til að senda og taka á móti tölvupósti, til að gefa vefsíðum (heimasíðum) nafn á Netinu og til að gefa annarri þjónustu (nettengdum tækjum ýmsikonar) vistföng. Tæknilega séð myndi eitt lén geta nýst öllum jarðarbúum, þ.e.a.s. ef allir notuðu sama lénið (t.d. google.is) fyrir tölvupóst, vefsíður, öpp og alla aðra þjónustu á Netinu. Eins og vitað er vinna stóru alþjóðlegu netfyrirtækin markvisst að því að smala sem flestum „undir“ sitt lén, líkt og gömlu lénsherrarnir gerðu á árum áður. Þannig séð á íslenska orðið „lén“ sérlega vel við í þessum efnum. Sá sem ekki á lén, en vill þó kynna sig eða sína þjónustu á Netinu, verður að „fá inni“ (þ.e.a.s. undirlén) hjá einhverjum „lénsherra“, ef þannig má orða það. 

Allir sem vilja gera sig gildandi á netinu og lifa þar frjálsu lífi, án aðkomu voldugu „lénsherranna“, eiga sitt eigið lén, enda er á flestra færi að skrá lén. Enga sérstaka tækniþekkingu þarf til þess og kostnaðurinn, kr. 6.982 á ári, er flestum viðráðanlegur. Hins vegar fá ekki allir góða hugmynd að léni og því er snjallt og gott lén gulls ígildi. ISNIC hefur fyrir satt að nýlega hafi lénið 114.is verið selt kínversku fjarskiptafyrirtæki fyrir $100.000.- eða sem samsvarar um 11,2 Mkr. Sama fyrirtæki IFANR, keypti 114.com fyrir 2 milljónir dollara skv. sömu heimild. Viðskipti með lén eru blómleg atvinnugrein víða um heim og sífellt oftar heyrist af .is-lénum sem seld eru fyrir háar fjárhæðir. ISNIC, eðli málsins samkvæmt, veitir enga þjónustu í slíkum viðskiptum. Hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir lén á þessu ári er líklega lénið whisky.com, sem samkvæmt DN Journar var selt í janúar sl. fyrir 3,1 milljón dollara. Áhugaverða sögu rétthafans um tilurð lénsins og sölu þess má finna hér: http://www.dnjournal.com/cover/2014/february.htm.

Af 48.682 lénum, sem skráð eru undir .is-höfuðléninu, eru um 6.000 lén vistuð á biðsvæði ISNIC, eða skráð í áframsendingu, sem leiðir notendur þeirra sjálfkrafa yfir á önnur lén. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að lén ílengist á biðsvæðinu, eða er í áframsendingu, og enginn nema rétthafinn getur í raun svarað því hver hún er. Samskonar endurgjaldslausa þjónustu er að finna hjá flestum ef ekki öllum helstu lénaskráningarfyrirtækjum heims.

Lén á biðsvæði kunna að vera til sölu og sjálfsagt er fyrir hvern sem er að setja sig í samband við rétthafa léns, líka þótt það sé skráð á biðsvæði. Til þess eru m.a. hinar svokallaðar „Whois-upplýsingar“ (sjá efst á síðunni). Þannig var t.d. um lénið whysky.com, sem nefnt er hér að ofan. Það var skráð 1994 og var í eigu sama mannsins í 20 ár áður en hann seldi það einum stærsta viskí framleiðanda heims í upphafi þessa árs. 

Um þriðjungur allra .is-léna er skráður utan Íslands og fer hlutur erlendra rétthafa vaxandi, enda þykir .is-endingin bæði snjöll og falleg.

 

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin