12. sep. 2014

12. sep. 2014

VID-lén (e. very important domain)

Vegna mikilvægrar breytingar sem gerð verður á lénaskráningarkerfi ISNIC þann 30. september n.k. - sem felst í nýrri innskráningu fyrir „rétthafann“ og lýtur að auknu öryggi léna - eru rétthafar léna (eigendur) beðnir um að ganga úr skugga um að netfang rétthafa lénsins sé skráð hjá ISNIC og að það sé rétt.

Netfang rétthafa léns, sé það skráð, birtist undir uppl. um rétthafann í skráningarskírteini lénsins, svokölluðu „Whois“ (sjá leitarglugga efst á þessari síðu). Ef skráning lénsins „mbl.is“ er skoðuð (leitað að mbl.is í Whois) kemur í ljós að rétthafinn (Árvakur hf.) hefur ekkert skráð netfang hjá ISNIC. Sé lénið „dv.is“ skoðað sést að netfang rétthafans DV ehf. er „jontrausti@dv.is“. Að mati ISNIC fer best á því að netfang rétthafans tengist eiganda eða fyrirsvarsmanni fremur en að um almennt netfang sé að ræða.

Þurfi að breyta netfangi rétthafa, eða skrá nýtt, er það gert eftir innskráningu á vef ISNIC. Sé lykilorðið týnt og tröllum gefið er einfaldast að skrá nafn lénsins inn í stóra leitargluggann, hér á miðri forsíðu ISNIC, og smella á hlekkinn „Týnt lykilorð“, sem birtist við netfang tengiliðs rétthafa, opna síðan tölvupóstinn sem berst frá ISNIC og halda áfram þaðan.

Þegar komið er á „Mína síðu“ þarf fyrst að velja lénið sem á í hlut og velja síðan hnappinn „Breyta lénaskráningu“. Í forminu sem birtist er netfang rétthafans nýskráð, eða því breytt.

Eftir 26. september 2014 getur rétthafi léns skráð sig inn á vef ISNIC án þess að vera skráður sem tengiliður rétthafa. Fyrst um sinn hefur hann takmörkuð réttindi til breytinga en mun síðar fá stöðu yfirnotanda (e. super-user) og mun sem slíkur hafa full og ótakmörkuð umráð yfir léninu, þ.m.t. getur hann skipt um „tengilið rétthafa“ og hafnað umskráningu léns yfir á nýjan rétthafa kjósi hann svo. Breyting þessi, á hlutverkum rétthafa og tengiliðs rétthafa, verður auglýst nánar síðar.

Í áranna rás hefur verðmæti léna vaxið jafnt og þétt með þeim afleiðingum að lénastuldur er vaxandi vandamál. Ofangreind breyting er nauðsynlegur undanfari aukins öryggis og meiri þjónustu við rétthafa léna, sem kynnt verður í haust undir heitinu VID-lén (e. very important domain). Henni er ætlað að koma í veg fyrir lénastuld og að mikilvæg lén renni „óvart“ út og lokist, t.d. vegna þess að láðst hafi að endurnýja lénið með greiðslu árgjaldsins.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin