17. feb. 2015

17. feb. 2015

Cartier hættir við málarekstur gegn Nominet (.uk)

Nominet, stjórnandi .uk-lénsins, sendi í janúar frá sér tilkynningu þess efnis að vörumerkjaeigandinn Cartier hefði höfðað mál gegn fyrirtækinu fyrir breskum dómstólum. Laut málshöfðunin að tólf .uk-lénum, sem Cartier taldi að notuð væru til brota á vörumerkjarétti þess.

Í tilkynningunni frá Nominet var málshöfðunin harðlega gagnrýnd, aðallega á þeim forsendum að Cartier vildi með henni gera Nominet ábyrgt fyrir innihaldi vefja! Nominet hafði þegar lokað fyrir umrædd lén á grundvelli ófullnægjandi skráninga. Í tilkynningu Nominet segir: „Fyrirtæki geta tilkynnt grun um að efni á vefsíðu brjóti í bága við lög–t.d. með því að bjóða falsaðar vörur til sölu–til lögreglu, sem rannsakar hvort athæfi sé refsivert. Einkaaðilar geta einnig hafið einkamál á hendur eigendum vefja sem þeir telja að fremji lögbrot. Sé skráningu léns þannig háttað að ómögulegt sé að hafa uppi á eigendum vefja undir þeim (.co.uk og .uk) lokar Nominet lénunum á grundvelli ófullnægjandi skráningar.“ Þetta hafi verið gert, en eigi að síður hafi Cartier höfðað mál.

Hinn 11. febrúar sl. sendi Nominet frá sér aðra tilkynningu, nú þess efnis að Cartier hafi hætt við málareksturinn. Fram kemur að nánari tilkynninga sé von um ástæður þess, en ákvörðun Cartier er eigi að síður fagnað.

ISNIC fagnar niðurstöðunni, en málshöfðun Cartier sýnir öðru fremur hversu litla þekkingu lögfræðingar og stjórnendur félagsins hafa (eða höfðu) á innviðum og virkni Internetsins. Innihald á vef er ávallt á ábyrgð eiganda vefsins eða vefstjórans, því 'lén' og 'vefur' er algerlega sitthvor hluturinn. Á lénum hvílir ýmis önnur þjónusta en vefir eins og t.d. tölvupóstur, sem er ekki síður mikilvæg þjónusta á netinu. Þá geta margir vefir tengst einu og sama léninu. Í grunninn háttar fyrirkomulaginu varðandi .is-höfuðlénið hjá ISNIC alveg eins og hjá Nominet sem stýrir .uk-höfuðléninu.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin