Reglulega kemur fyrir að einstaklingar og fyrirtæki (jafnvel opinberar stofnanir) tapi léni að ósekju vegna þess að láðst hefur að breyta úreltum greiðsluupplýsingum og lénið því runnið sjálfkrafa út. Eina leiðin til þess að hindra að lén renni út óvart, og tapist jafnvel alveg að lokum, er að uppfæra/yfirfara skráningu lénsins. Lén renna út sjálfkrafa og hverfa að lokum ef skráningin er ekki framlengd (endurnýjuð). Yfir helmingur allra léna er nú skráður í svokallaða „sjálfvirka endurnýjun“ á greiðslukorti, en samt sem áður getur lén sem skráð er í sjálfvirka endurnýjun runnið út – t.d. ef greiðslukortið er sömuleiðis útrunnið.
Rétthafar léna sjá alfarið sjálfir um að viðhalda skráningu léns í vefþjónustu ISNIC. Auðveldasta leiðin til að skrá sig inn (ef notendanafn og lykilorð er gleymt) er að skrifa nafn lénsins í stóra leitargluggann og smella á hlekkinn Týnt lykilorð við netfangið og halda síðan áfram úr tölvupóstinum. Ef hann er rangur þarf að hafa samband við þann sem hefur aðgang að tölvupóstinum, eða fara löngu eyðublaðaleiðina og fá starfsmann ISNIC til að skipta um netfang á viðkomandi tengilið. Það tekur sinn tíma.
Svokallaðir lénakaupmenn eru stöðugt á varðbergi gagnvart lénum, ekki bara .is-lénum heldur víðs vegar á netinu, og eru oftar en ekki fljótir að skrá nýútrunnin lén með það að markmiði að selja þau fyrrum réthafa. ISNIC hvorki getur né má gera nokkuð til þess að hindra þetta, en þó eru reglur ISNIC þannig að fyrri rétthafi léns situr einn að því í allt að 60 daga eftir að því hefur verið eytt. Slík þjónusta er fáheyrð hjá flestum öðrum höfuðlénum (sennilega öllum).
Rúmlega 4.700 lén voru afskráð hjá ISNIC á síðasta ári og tæplega 10.000 nýskráð. 52.357 .is-lén eru virk þegar þetta er skrifað.