Notendanöfn allra eru í Whois
Rétthafar (eigendur) léna þurfa að skrá sig inn á vef ISNIC til þess að breyta upplýsingum tengdum léninu, s.s. netfangi, heimilisfangi, eða jafnvel að umskrá lénið á nýjan rétthafa. Til þess að geta skráð sig inn (sjá innskráningu efst á síðunni) þarf maður að vita tvennt: Í fyrsta lagi
NIC-auðkennið (sem er notendanafn viðkomandi hjá Isnic) og í öðru lagi
lykilorðið. Flestir gleyma lykilorðinu, að sjálfsögðu, en mjög einfalt er að sækja nýtt lykilorð. Það er gert með því að smella á tengilinn "fá nýtt lykilorð" sem er að finna á innskráningssíðunni. Til þess að fá nýtt lykilorð verður netfang (e-mail) viðkomandi auðvitað að vera rétt skráð hjá Isnic. Hvorutveggja (NIC auðkennið og netfangið) er hægt að finna með því að skrifa lénið inn í "
Whois-leitargluggann" efst til hægri hér á forsíðunni. Þá birtist skráningarskríteini lénsins sem inniheldur allar nauðsynlegar upplýsingar.
Sé netfangið sem skráð er hjá Isnic hins vegar ógilt og ekki lengur í notkun, og notandinn búinn að gleyma lykilorðinu, verður hann að fylla út eyðublaðið "breyting á netfangi tengiliðs" og faxa það til okkar eða senda mynd (t.d. með gsm-síma) af útfylltri beiðninni með tölvupósti. Þetta er nauðsynleg öryggisráðstöfun til að vernda réttindi rétthafa og koma í veg fyrir ólöglega umskráningu .is-léna (stundum kallað "social engineering"). Eyðublöð Isnic er að finna undir liðnum Rétthafaskrá hér til vinstri.
Gangi ykkur vel.