16. mar. 2022

16. mar. 2022

Rangfærslur á Rás2 og Bylgjunni

ISNIC er bæði ljúft og skilt að leiðrétta rangar staðhæfingar, sem komu fram í umræðum um ISNIC á Rás2 í síðustu viku og á Bylgjunni í morgun. Um leið biður ISNIC þess að viðmælendur og spyrjendur lesi sér almennt betur til um lénamál, t.d. á vefsíðu ISNIC, áður en mætt er í viðtal um málefni félagsins.

1. Rangt er að hryðjuverkasamtökin ISIS hefðu skráð lénið is.is, lénið hefur um langt árabil verið skráð á Iceland Seafood. Auðvelt er að sjá þetta með því að fletta léninu upp í leitarglugganum á isnic.is (þetta hefði ungi "ráðgjafinn" sem mætti í viðtal á Rás2 mátt vita).

2. Rangt er að eigendur ISNIC hafi greitt sér mörg hundruð milljónir í arð "á ári" eins og fram kom hjá þáttastjórnendum Bítisins á Bylgjunni. Rétt er hins vegar að metarðgreiðsla var innt af hendi í feb. sl. og var hún 118 mkr. eins og sjá má í ársreikningi ISNIC 2021 og finna má á vefsíðu Skattsins. Þar má einnig sjá að "ríkið" á samtals 23,5% af hlutafé ISNIC og fékk þ.a.l. 1/4 af arðinum auk 22% af heildararðgreiðslunni, eða samtals um 48.6 mkr!

3. Enn og aftur er tönglast á "háu árgjaldi" hjá ISNIC og því haldið fram að ef ríkið færi með reksturinn væri það lægra. ISNIC hvetur þá sem halda slíku fram að bera saman árgjald léns hjá ISNIC og árgjald ýmissa ríkisstofnana nokkur ár aftur í tímann. Þá kæmi t.d. í ljós að árgjald léna hefur lækkað um yfir 60% að raungildi frá árinu 2007, en það ár var stofngjaldið, kr. 4.450, afnumið. Gjaldið lækkaði svo aftur árið 2008 um kr. 1.000 en hækkaði svo aftur (og þá í fyrsta sinn frá stofnun) um kr. 1.000 árið 2021 til að mæta mjög miklum kostnaðarhækkunum. ISNIC hefur um árabil fylgt þeirri stefnu, að láta árlegan tekjuvöxt nægja og hækka ekki árgjald léna, nema ef kostnaðarhækkanir fara umfram nafnvöxt tekna. Hér skal fullyrt að engin ríkisstofnun státar af slíkri stefnu, hvað þá gjaldskrárlækkunum ár eftir ár. Skv. Centr.org var meðalárgjald landaléna (ccTLD) í heiminum 12 dollarar árið 2021. Árgjald ISNIC án vsk er nú €31.90 (um 29 dollarar). Hins vegar er þjónusta ISNIC við viðskiptamenn langt umfram það sem þekkist hjá systurfyrirtækjum ISNIC erlendis, hvar ómögulegt er að fá persónulega aðstoð í gegnum síma (sem er reyndar eitthvað sem ISNIC gæti þurft að endurskoða áður en langt um líður).

4. Rangt er einnig að ríkisstofnanir sjái almennt um rekstur landsléna. Undirritaður veit aðeins eitt dæmi um slíkt í vestur Evrópu, sem er finnska Póst- og fjarskiptastofnunin, en hún fékk landslénið .fi "upp í hendurnar" eftir að stórt fjarskiptafyrirtæki, sem haft hafði reksturinn með höndum frá byrjun, fór í þrot. Miklar umræður hafa verið æ síðan um að breyta þessu og fela einkaaðilum rekstur þess á ný. Áberandi er hversu fá lén eru skráð undir .fi og menn geta getið sér til um ástæður þess. Hins vegar er afar óvenjulegt að eigendur skráningarstofu séu jafn fáir og raun ber vitni um hjá ISNIC, þar sem eigendur eru nú aðeins 21 og hefur fækkað um 30 frá því félagið var stofnað 1995. Hverjum skildi það vera að kenna?

5. Rangt er að .is eigi ekki í neinni samkeppni og að sjálfgefið sé að .is sé vinsælasta lénið á Íslandi og verði svo um alla framtíð (reyndar er markaðshlutdeild .is á Íslandi rétt undir 50% móti öðrum höfuðlénum og hlutdeild .com mun stærri en flestir gera sér grein fyrir). ISNIC á m.ö.o. harðri í samkeppni við öll önnur höfuðlén og flytur út þjónustuna í talsverðum mæli (t.d. eru margir Norðmenn með .is). Þá er það alls ekki svo að í öllum ríkjum séu landshöfuðlén viðkomandi ríkis mest notuð, t.d. er .com mun vinsælla hjá almenningi í Noregi en .no, sem er auðvitað afar óheppilegt lén og sama gildir um Frakkland, en þar er hlutdeild .fr aðeins um 20%. Velta má fyrir sér hvort markaðsstaða .is á Íslandi væri eins sterk og raun ber vitni ef ISNIC væri ríkisfyrirtæki og árgjald léna hefði fylgt opinberri verðlagsstefnu.

Við ofangreindar leiðréttingar má svo bæta að ef árgjald léns yrði lækkað um sem nemur rekstrarhagnaði síðsta árs (108 mkr/83.000 lén) eða um kr. 1.300 (20%) myndi hagnaður ISNIC þurkast út og reksturinn yrði þar með settur í uppnám. ISNIC ber skylda til halda ríflegann varasjóð, sem það gerir, og er reyndar langt um fram lagalegar kröfur. Þá hefur grunnrekstur ISNIC, DNS reksturinn fyrir .is rótina og þar með uppitími landslénsins .is verið 100% um árabil. Alls ekki öll landslén geta státað af slíkum árangri.

Við Íslendingar njótum þeirrar gæfu að geta og mega skrá lén beint hjá frumskráningarstofunni – án milliliðar – sem er líklega einstakt á heimsvísu og aðeins mögulegt vegna mjög lítils heimamarkaðar. Úti í hinum stóra heimi eru lén ávallt keypt í gegnum þriðja aðila, sem eru kallaðir "Registrar" upp á ensku. ISNIC er svo kallað "Registry" (skráningastofa í lögum um lén) og í beinni samkeppni við öll önnur höfuðlén, en lista yfir þau má sjá hér: https://www.iana.org/domains/root/db
Lén sem ISNIC lítur sérstaklega til hvað samkeppni varðar, er höfuðlénið .io, sem hefur náð að hasla sér völl meðal tæknifyrirtækja, en .io kostar nú USD 32 á sérstöku tilboði hjá NameCheap, svo dæmi sé tekið. Vilji menn skrá lén undir .de, stærsta landsléni Evrópu, beint hjá skráningarstofunni DENIC (systurfyrirtæki ISNIC í Þýskalandi) þá kostar árgjaldið €116 auk €58 árlega fyrir umsjón þess, kjósi menn það. Sjá https://www.denic.de/preisliste/

ISNIC
/Jens Pétur Jensen
framkvæmdastjóri og aðaleigandi.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin