Í árdaga Internetsins (1987 og alllengi þar á eftir) var eingöngu leyfilegt að nota enska lágstafi í lénsheiti. Lén með séríslenskum stöfum, svokölluð IDN-lén, voru fyrst innleidd hjá hjá ISNIC þann 1. júlí 2004, eða fyrir rúmlega tuttugu árum sbr. frétt þar um.
Sum lén eru nánast ólæsileg án séríslenskra stafa, eins og lénið í fyrirsögninni, sem einhver frá Úkraínu skráði nýlega, sem er lén sem innlendur aðili hafði ekki endurnýjað.
Ef meiningin er að skrá nýfallin lén til þess að endurselja þau, t.d. fyrri rétthafa, kallast það „drop catching“ á ensku. Slíkt er ekki óheimilt, en getur auðvitað verið hvimleitt hafi fyrri rétthafi viðkomandi léns misst það af vangá. Afar ólíklegt er að slíkt eigi við um lénið í fyrirsögninni og þá situr sá sem greip lénið uppi með kostnaðinn, kr. 7.180.-
Lén með séríslenskum stöfum, svokölluð IDN-lén, kosta aðeins kr. 3.000.- á ári eigi sami rétthafi (sama kennitala) áður skráð samsvarandi lén með enskum lágstöfum (stofnlén, eða venjulegt lén). IDN-lénum er síðan varpað yfir á stofnlénið. Þau nýtast best í skriflegu kynningar- og auglýsingaefni. Ekki er mælt með að nota IDN-lén eingöngu, hvorki fyrir vefsíður og enn síður fyrir tölvupóst af augljósum ástæðum – það að þarf jú lyklaborð með séríslenskum stöfunum til að skrifa IDN-lén.