Árið 2024 voru 14.031 .is lén skráð, sem er næst mesti skráningarfjöldi frá upphafi. Lénaskráningar hafa aðeins einu sinni verið hærri, þegar lénaskráningarnar voru 14.825 árið 2021, en þá hafði covid góð áhrif á lénaskráningar um allan heim. Afskráningar voru 10.242 sem gerir nettófjölgun léna á árinu sem leið 3.789 lén.
Skráningar voru 59% innlendar og 41% erlendar en í afskráningum voru hlutföllin jafnari, 52% innlendar og 48% erlendar. Nettófjölgun léna var því mun meiri hjá íslenskum rétthöfum, 79% innlend og 21% erlend.
Apríl var besti skráningarmánuðurinn með 1.354 lén skráð. Nóvember var með bestu nettófjölgunina í 470 lénum, sem er þriðja hæsta nettófjölgun nóvembermánaðar frá upphafi, fyrir utan covid árin 2020 og 2021. Þetta árið var ágústmánuður slakasti skráningarmánuðurinn með 1.015 lén skráð en júnímánuður með lægstu nettófjölgunina, eða 138 lén, þar sem nettófækkun var í erlendum lénum um 29 lén, sem stafar aðallega af erlendum afskráningum þess mánaðar. Nánari skráningarupplýsingar má finna í tölulegum upplýsingum.
Á árinu var nokkuð fjallað um lénaskráningar í fjölmiðlum, m.a. í tengslum við forseta- og Alþingiskosningarnar, þar sem tíðrætt var um svokölluð kosningalén. Þá voru lén einnig til umfjöllunnar á alvarlegri nótum, m.a. í tengslum við svokölluð svikalén skráð af erlendum aðilum hjá fyrirtæki sem skráð er til húsa á Kalkofnsvegi í Reykjavík. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að ekki var um að ræða .is lén, og því hafði ISNIC lítið sem ekkert með málið að gera.
Við hjá ISNIC þökkum viðskiptavinum og rétthöfum .is léna fyrir viðskiptin á liðnum árum og hlökkum til að fara inn í nýtt ár með nýjum áskorunum.
Bestu kveðjur
Þór Jensen
ISNIC