6. mar. 2025

6. mar. 2025

Rífandi gangur í lénaskráningum og ný greiðslumiðlun

Mikill kraftur hefur verið í lénaskráningum í byrjun árs en í janúar og febrúar voru samtals 2667 ný lén skráð á móti 1667 eyddum lénum, sem gefur nettófjölgun upp á slétt 1000 lén fyrstu tvo mánuði ársins. Þar af hefur íslenskum skráningum fjölgað um 650 lén á móti 350 erlendum lénum, sem er í takti við hlutfall innlendra skráninga (70%) móti erlendum (30%) .is-lénaskráningum.

Janúar var þriðji besti janúarmánuður frá upphafi með 620 lén í nettófjölgun. Aðeins voru betri skráningar í janúar á covid árunum 2021 og 2022. Meðaltal nettófjölgunar í janúarmánaði frá árinu 2012 er 462 lén. Nánari tölfræði um lénaskráningar má finna í tölulegum upplýsingum.

Nokkrar breytingar hafa farið í loftið á undanförnum vikum, en þar ber helst að nefna upptöku nýrrar greiðslumiðlunar Straums, sem nú er komin í fulla notkun á isnic.is. Þeir viðskiptavinir sem höfðu þegar skráð kort sín í kortageymslu í gegnum gömlu greiðslumiðlunina munu enn geta notað þau kort - a.m.k. um sinn.

Gömlu kortin eru sérstaklega merkt sem slík á greiðslusíðunni. Ef að viðskiptavinir lenda í vandræðum með að nota þau, eða vilja skipta yfir í nýju greiðslumiðlunina, þá er auðvelt að skrá kortið upp á nýtt í gegnum Greiðslur - Greiðslukort - Bæta við greiðslukorti á Mínum síðum.