2. apr. 2025

2. apr. 2025

Rétturinn til léns

ISNIC fær reglulega spurninguna um hvort hinn eða þessi hafi rétt til þess að skrá eitthvert lén. Því er til að svara að það fari eftir ýmsu, t.d. því hvort annar aðili hafi ríkari rétt til lénsins en sá sem skráði það fyrstur. Þannig getur réttur til léns „takmarkast af ríkari rétti annars aðila til þess orðmerkis sem í léninu felst“ eins og segir í meistaraprófsritgerðinni „Lén í ljósi eignarréttar“ frá árinu 2014.

Höfundur man eftir máli hvar deilt var um lén sem var alveg eins og heiti á lögfræðistofu, sem var eldri en lénið. Málið fór fyrir Neytendastofu sem úrskurðaði eiganda lögfræðistofunnar í vil sbr. ákvörðun nr. 49/2010 og taldi skráningu lénsins „brjóta gegn ákvæðum laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.“

Ef vafi leikur á um réttmæti skráningar á nýju léni kann að vera klókt að kynna sér ofangreind lög og kanna einnig hjá Fyrirtækjaskrá Skattsins hvort til sé fyrirtæki sem heitir sama nafni og fyrirhugað lén.

Komi til deilu um lén koma önnur mál til álita, t.d. hvort lén hafi verið „skráð í góðri trú“, sem er matskennt atriði. Almennt má segja að hver sem er getur skráð hvaða lén sem er, enda er skráning og notkun léns „ákveðið form tjáningar og nýtur sem slíkt verndar tjáningarfrelsisákvæða 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu“, svo vitnað sé á ný til ofangreindar meistaraprófsritgerðar sem þáverandi starfsmaður í hlutastarfi hjá ISNIC skrifaði við Lagadeild H.Í.