24. jún. 2008

24. jún. 2008

Vegna fréttar um ný rótarlén

Vegna fréttar mbl.is 24.6. um að til standi að útbúa ný rótarlén, vill ISNIC koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:

Í fréttinni er því ranglega haldið fram að lén muni klárast um 2011. Þetta er á misskilningi byggt. Áætlanir eru hins vegar til um að IP-tölur, bygðar á IPv4 staðlinum, muni, ef fram heldur sem horfir, verða uppurnar um 2011. Dagsetningunni hefur að vísu nokkrum sinnum verið seinkað. Til þess að bregðast við þessu hefur nýr staðall ip-talna, IPv6, þegar verið útbúinn. Lénanöfn sem slík klárast hins vegar ekki, eins og skilja mátti af fréttinni. Í þessu sambandi má benda á að undirlén má búa til endalaust, t.d. blog.mbl.is, einkamal.visir.is, frettir.ruv.is o.s.frv. Heilu þjóðirnar skrá nær eingöngu lén undir einu og sama undirléninu, t.d. skrá Bretar sín lén á undirlénið .co.uk.

Á vettvangi ICANN er nú rætt um mögulega fjölgun rótarléna. Hugmyndir um fjölgun hafa lengi verið ræddar og nokkrum sinnum átt sér stað. Má þar nefna nýleg rótarlén eins og .info og .biz. Mjög illa hefur hins vegar gengið að byggja upp trúverðugleika og traust fyrrgreindra rótarléna (sbr. nýju McAfee skýrsluna, júní/2008) sem og margra "frjálsra" rótarléna, ef þannig má aðgreina þau frá landarótarlénunum eins og t.d. .is.

Ýmislegt þarf að athuga áður en róterlénum yrði fjölgað mikið, hvað þá að gefa alveg frjáls. T.d. gætu stór og valdamikil alþjóðleg fyrirtæki keypt sitt prívat rótarlén og markaðssett það þannig að netumferð, sem ætti að beinast annað, myndi lenda hjá þeim. Þá stóreykst möguleikinn á misnotkun vörumerkja, fyrirtækjanafna o.þh. með því að fella niður reglur um skráningar, sem flest öll landalén viðhafa í dag. Einnig er líklegt að auðkennið sem fólk nýtir sér, t.d. með landalénum, þynnst út og að erfiðara verði að staðsetja vefi og tölvupóst frá fólki og fyrirtækjum en nú. Landalén eru oftar en ekki nánast eingöngu skráð af innlendum aðilum, eða þeim sem hafa bein viðskiptatengsl við viðkomandi land. Mörg lönd viðhafa nokkuð ströng skilyrði um hver má skrá undir landaléni viðkomandi lands. Þetta er þó að breytast smátt og smátt og Svíþjóð var fyrst Norðurlandanna til að afnema kvaðir um þjóðerni þeirra sem skrá lén undir rótarléninu .se.

Um skráningu .is léna gilda svipaðar reglur og í nágrannalöndunum. Reglunum er ætlað að tryggja réttar skráningar og viðhalda háum trúverðugleika (trausti) .is léna. Tæknilegar kröfur ISNIC, sem mörgum þykja nokkuð strangar, standa að baki háum gæða- og öryggiskröfum .is rótarlénsins. Um þetta tvennt stendur ISNIC vörð.
Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin