1. Áreiðanleiki

Meginmarkmið ISNIC er að tryggja tæknilegan áreiðanleika nafnaþjónustunnar (DNS þjónustunnar) við höfuðlénið ".is". Nafnaþjónustan verður ávallt að vera tiltæk, sem þýðir að notendur gera kröfu um því sem næst 100% uppitíma þjónustunnar. Engin önnur þjónusta eða starfsemi, sem félagið hefur með höndum, getur komið framar nafnaþjónustunni, enda er hún nauðsynleg grunnþjónusta fyrir alla aðra þjónustu sem veitt er undir höfuðléninu ".is", svo sem tölvupóst og vefsíður.

2. Traust

Starfsmenn Internets á Íslandi þekkja reglur ISNIC um lénaskráningar og starfa eftir þeim. Allir viðskiptavinir sitja við sama borð. Fyrirtækið stendur þétt að baki rétthöfum .is-léna, hvort heldur sem er gagnvart innlendum eða erlendum einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum eða stjórnvöldum. Trúverðugleiki höfuðlénsins ".is" byggir annars vegar á trausti til ISNIC og starfmanna þess, og hins vegar á tæknilegum áreiðanleika þjónustunnar.

3. Hlutverk og skyldur

Við sem störfum við grunnþjónustu Netsins, nafnaþjónustuna, tölum fremur um hlutverk og skyldur en um eignir og yfirráð. Sé spurt „hver á Internetið?“ er svarið: „Spurningin sem slík er óviðeigandi.“ Internetið er fyrir alla, á öllum tímum, alls staðar. Við höfum með samningi skuldbundið okkur til að þjónusta landshöfuðlénið ".is" af skyldurækni, sanngirni og heiðarleika gagnvart öllum rétthöfum og notendum .is-léna. Við virðum hin fleygu orð, sem upprunalega eru ættuð frá Jon Postel heitnum, einum helsta frumkvöðli Internetsins:

„Concerns about "rights" and "ownership" of domains are inappropriate. It is appropriate to be concerned about "responsibilities" and "service" to the community.“   - Jon Postel, RFC1591 (síða 5)

Starfsmenn og stjórn Internets á Íslandi hf.