Ein af meginreglunum við skráningu léns er að skrá lénið "í góðri trú". Í henni felst að skrá síður lén sem er mjög líkt eða alveg eins og þekkt innlent eða erlent heiti/vörumerki - og sérstaklega ekki ef starfsemin sem léninu er ætlað að fóðra er eins og starfsemin í tilviki samsvarandi þekkts vörumerkis eða heitis. Slíkt gæti dómstóll skilgreint sem "Typo-squatting" (typo-domain, villulén) eða "Cybersquating" (þjófalén) og gengur gegn fyrrgreindri reglu um að skrá lén í góðri trú.
Maður að nafni John Zuccarini, þekktur bandarískur klámkóngur, nýtur þess vafasama heiðurs að vera fyrsti einstaklingurinn sem er dæmdur sekur samkvæmt nýlegum almennum lögum (Civil-law) í Bandaríkjunum sem banna "typosquatting" (banna skráningu villandi léna). Zuccarini skráði nokkur "villulén" (e. typo-domains) sem líktust nöfnum frægs fólks á við leikkonunnar Nicole Kidman, bræðranna í Backstreet Boys og söngkonunnar Britney Spears. Sannað þótti að herra Zuccarini hefði skráð lénin í þeim tilgangi einum að plata fólk inn á klámvefi sína og hagnast þannig á frægð listamannanna. Fyrir það var hann dæmdur af hverfisdómstól suðurhluta New York árið 2000. Áfrýjanir Zuccarini hafa enn engan árangur borið. Heimild: www.wiredsafety.org
Hátt öryggi og mikill trúverðugleiki .IS léna felst m.a. í mjög lágu hlutfalli villuléna á .IS-lénasvæðinu.